Skerðing Útgerðir horfa fram á samdrátt í þorskkvóta í Barentshafi 2025. Slakir árgangar eru nú komnir í veiði, en bjartsýni er fyrir þarnæsta ár.
Skerðing Útgerðir horfa fram á samdrátt í þorskkvóta í Barentshafi 2025. Slakir árgangar eru nú komnir í veiði, en bjartsýni er fyrir þarnæsta ár. — Ljósmynd/Havforskningsinstituttet
Þrýstingur á að verð á þorski og ýsu úr Norður-Atlantshafi hækki mun mögulega aukast í byrjun næsta árs, en búist er við verulegum samdrætti í framboði Norðmanna vegna gríðarlegs niðurskurðar í ráðgjöf um hámarksafla í Barentshafi fyrir árið 2025.

Gunnlaugur Snær Ólafsson
gso@mbl.is

Þrýstingur á að verð á þorski og ýsu úr Norður-Atlantshafi hækki mun mögulega aukast í byrjun næsta árs, en búist er við verulegum samdrætti í framboði Norðmanna vegna gríðarlegs niðurskurðar í ráðgjöf um hámarksafla í Barentshafi fyrir árið 2025. Þetta hefur einnig í för með sér skerðingar fyrir íslenskar útgerðir sem búa yfir aflaheimildum í Barentshafi.

Norðmenn og Rússar vinna saman að stjórnun auðlindanýtingar í Barentshafi og gaf sameiginleg nefnd vísindamanna Noregs og Rússlands nýverið út ráðgjöf um hámarksafla í þorski, ýsu, djúpkarfa og grálúðu.

Lagt er til að ekki verði veitt meira en 311.587 tonn af þorski í Barentshafi á næsta ári og er það lægsta ráðgjöfin frá árinu 2003. Ráðgjöfin gerir ráð fyrir 31% minni þorskafla en heimilt er að veiða á þessu ári og 45% minna en í ráðgjöfinni fyrir árið 2023. Ráðlagður hámarksafli þorsks úr Barentshafi hefur minnkað á hverju ári síðan 2021 þegar heimilt var að veiða 885.600 tonn sem er 184% meiri afli en gert er ráð fyrir á næsta ári.

Íslenskum útgerðum var úthlutað 3.452 tonna þorskkvóta í Barentshafi á þessu ári og má ætla að á næsta ári verði hann aðeins tæp 2.400 tonn. Vegna niðurskurðar síðustu ára og lokunar rússnesku lögsögunnar fyrir íslenskum skipum hafa íslensku útgerðirnar átt í samstarfi um veiðina, en umfang veiðanna verður líklega minna á næsta ári.

Minnsta veiði síðan 1991

Undir venjulegum kringumstæðum virkar gildandi aflaregla þannig að ekki megi minnka ráðgjöf um meira en 20% milli ára. Leyfilegt er þó að víkja frá þessum viðmiðum fari hrygningarstofninn niður fyrir varúðarmörk.

„Hrygningarstofn þorsks hefur verið metinn minni og mun fara undir varúðarmörk 2025. Þess vegna lækkar einnig ráðgjöfin svona mikið,“ segir Bjarte Bogstad, vísindamaður við norsku hafrannsóknastofnunina (Havforskningsinstituttet), í færslu á vef hennar. „Verði aflinn í samræmi við ráðgjöfina verður þetta minnsta veiði frá árinu 1991,“ segir hann.

Ýsan taki við sér

Vísindamennirnir leggja til að ekki verði veitt meira en 106.912 tonn af ýsu í Barentshafi á næsta ári og er það 16% minni ráðgjöf en fyrir árið 2024 og rétt rúmlega 37% minni ráðgjöf en fyrir síðasta ár.

Ráðgjöf fyrir ýsu í Barentshafi hefur lækkað á hverju ári síðan 2021 þegar heimilt var að veiða 232.537 tonn.

„Þrír slökustu árgangarnir, 2018, 2019 og 2020, eru nú í veiðinni,“ útskýrir Bogstad. Á móti kemur þó að árgangarnir 2021 til 2023 eru metnir yfir meðalstærð og eru því líkur á að vísindamenn leggi til aukningu í ráðgjöf sinni vegna veiða ársins 2026.

Sveifla í grálúðu

Þá er lagt til að ekki verði veitt meira en 67.191 tonn af djúpkarfa á næsta ári sem er 4% minni afli en gert er ráð fyrir í ráðgjöfinni fyrir 2024. Einnig var gefin út ráðgjöf um 69.177 tonna djúpkarfaafla árið 2026.

Verulegur samdráttur er í ráðlögðum hámarksafla í grálúðu og nemur ráðgjöfin 12.431 tonni fyrir árið 2025 sem er 42% minni afli en var í ráðgjöf ársins 2024. Gera vísindamenn þó ráð fyrir að stofninn taki aðeins við sér og nemur ráðgjöfin 14.891 tonni fyrir árið 2026.