Fiskur Smit sér framtíð í nýjum og nýstárlegum eldiskerfum og staðsetningum, þ.á m. sjóeldi úti á opnu hafi.
Fiskur Smit sér framtíð í nýjum og nýstárlegum eldiskerfum og staðsetningum, þ.á m. sjóeldi úti á opnu hafi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Lissy Smit forstjóri fiskeldisfjárfestingarfyrirtækisins Aqua-Spark segir í samtali við Morgunblaðið, spurð um helstu áhættu við fjárfestingu í greininni, að enn fyrirfinnist margir þekktir UFS-áhættuþættir (umhverfi, félagslegir þættir og stjórnarhættir).

Baksvið
Þóroddur Bjarnason
tobj@mbl.is

Lissy Smit forstjóri fiskeldisfjárfestingarfyrirtækisins Aqua-Spark segir í samtali við Morgunblaðið, spurð um helstu áhættu við fjárfestingu í greininni, að enn fyrirfinnist margir þekktir UFS-áhættuþættir (umhverfi, félagslegir þættir og stjórnarhættir). „Fiskeldi hefur í gegnum tíðina verið mengandi og ógagnsær iðnaður hvert sem litið er í heiminum. Þrátt fyrir að Aqua-Spark hafi séð breytingar til hins betra á síðustu áratugum þá eru enn margir þekktir UFS-áhættuþættir. Sumir þeirra stærstu sem við höfum fylgst náið með eru notkun villtra fiska í fóður og ónauðsynleg (of)notkun sýklalyfja sem getur haft neikvæð áhrif á vistkerfi fiskanna og slæm áhrif á heilsu manna,“ segir Smit.

Aqua-Spark er eins og Smit útskýrir stærsti fjárfestingarsjóður heims sem sérhæfir sig í sjálfbæru fiskeldi. „Við fjárfestum um allan heim í fiskeldistæknifyrirtækjum, sem og framleiðendum sem eru leiðandi í framtíð greinarinnar.“

Ýta í rétta átt

Spurð hvernig fyrirtæki geti aukið og bætt áhættustjórnun sína segist Smit trúa því að stýringar og hömlur horft fram á veginn vegna reglugerða og sjálfbærnifrumkvæðis hjálpi til við að ýta geiranum í rétta átt. „SFDR-reglugerð (sjálfbærnireglugerð fjármálafyrirtækja) Evrópusambandsins flokkar Aqua-Spark sem „dökkgrænt“ fyrirtæki þannig að við vinnum með fyrirtækjum í okkar hlutabréfasafni að ítarlegum tékklista sem er hluti af okkar skýrslugerð og upplýsingagjöf.

Vegna aukinna umhverfisreglugerða og krafna fjárfesta í fiskeldisiðnaðinum, og almennt í bláa hagkerfinu, þurfa öll fiskeldisfyrirtæki að hugsa um hvernig þau geta bætt rekstur sinn og notað betri tækni, þ.e. hlutanetið (e. IoT) og gervigreindarhug- og vélbúnað til eftirlits.“

Um það hvort sérhæfðir fjárfestar eins og Aqua-Spark horfi til Íslands þessa dagana með fjárfestingu í huga segir Smit að fyrirtækið fjárfesti um allan heim í fiskeldi og í nýsköpun í greininni. „Við eigum nú þegar hlut í einu íslensku fyrirtæki, Matorku. Það er landeldi sem notar 100% endurnýjanlega orku.“

Hvað þarf að batna í fiskeldi á Íslandi til að laða að meira erlent fjármagn?

„Þó að kostnaður við starfsmannahald og almennur rekstrarkostnaður sé hár á Íslandi – og auðvitað hætta á náttúruhamförum eins og við höfum séð undanfarið ár – þá sjáum við Ísland sem mjög vænlegan markað fyrir fjárfestingar. Í raun þá er jarðfræðileg staða og samhengi landsins það sem gerir okkar fyrirtæki, Matorku, að þeim sjálfbæra leiðtoga sem það er og við erum mjög stolt af stuðningi okkar við það.“

28 fyrirtæki í safninu

Smit segir aðspurð að í lok síðasta árs hafi Aqua-Spark samtals fjárfest fyrir 235,5 milljónir evra, jafnvirði 36 milljarða íslenskra króna, í fyrirtækjunum í eignasafninu. „Í safninu eru 28 fyrirtæki í eftirfarandi löndum: Brasilíu, Kanada, Finnlandi, Íslandi, Indlandi, Indónesíu, Ísrael, Keníu, Madagaskar, Mósambík, Noregi, Póllandi, Portúgal, Skotlandi, Singapúr, Svíþjóð, Taílandi, Hollandi, Bandaríkjunum, Víetnam og Simbabve,“ segir Smit.

Hvar flokkarðu fiskeldi hvað áhættu varðar samanborið við aðrar atvinnugreinar?

„Við teljum að áhætta í fiskeldi hafi farið minnkandi á síðasta áratug, en það er enn talsvert langt í land. Bláa hagkerfið er að taka flugið og ný tækni breytir landslaginu mjög hratt – þetta eru mjög spennandi tímar fyrir fjárfesta. Til dæmis gerir uppbrot í aðfangakeðjunni áhættugreiningu erfiða, en fyrirtæki í grunntækni greinarinnar eins og Aquarech, eFishery og Tepbac tengja smærri framleiðsluaðila saman og auka rekjanleika í virðiskeðjunni.“

Hver er framtíð lagareldis og fiskeldis?

„Stór hluti af okkar fjárfestingarstefnu hefur frá fyrsta degi verið á nýtt fæðuinnihald. Að nota villtan fisk í eldið er stór UFS-áhætta í ljósi þess að 90% af fiskistofnum í sjónum eru nú þegar nýtt til fulls, ofnýtt eða uppurin. Næsta kynslóð framleiðenda notar fóður úr öðrum innihaldsefnum eins og einfrumungum eða sjávargróðri sem allt minnkar umtalsvert umhverfisfótspor fæðunnar. Við sjáum einnig framtíð í nýjum og nýstárlegum eldiskerfum og staðsetningum, þar á meðal landeldi, hálflokuðu strandeldi, og sjóeldi úti á opnu hafi. Nýsköpun á þessu sviði hefur möguleika á að auka skilvirkni og hafa áhrif á niðurstöðuna á margan hátt. Að lokum getur heilsu- og líftækni bætt erfðabreytileika, og boðið upp á leiðir til að minnka sýklalyfjanotkun. Nýjar lausnir til að stjórna umhverfi kvíanna til að koma í veg fyrir sjúkdóma munu hafa úrslitaáhrif á að tryggja að iðnaðurinn haldi áfram að vaxa og breytast í átt að sjálfbærni á næsta áratug.“

Meira heilbrigði

Hver er framtíðarsýn sjóðsins og langtímaplan?

Okkar markmið er að hjálpa til við að færa iðnaðinn nær aukinni sjáflbærni, meira heilbrigði og framleiðsluvöru á viðráðanlegu verði. Við erum að byggja upp eignasafn með 50-60 fyrirtækjum sem starfa um alla virðiskeðju fiskeldis til að umbreyta henni. Til að styðja þessi fyrirtæki og umbreytingu iðnaðarins almennt vinnum við með hópi fjárfesta, sérfræðinga, vísindamanna og annarra leiðandi aðila í greininni. Hvað fjárfestingar varðar þá erum við með 500 milljónir evra í stýringu sem stendur og markmið okkar er að tvöfalda það á næstu árum. Núna eru allir fiskeldissjóðir á mikilvægum tímamótum því samkvæmt rannsókn sem hugveitan Planet Tracker gaf út mun kosta 55 milljarða bandaríkjadala að fjármagna umbreytingu fiskeldisins yfir í sjálfbærari starfsemi og rekstur. Það er engin vöntun á spennandi tæknilegri nýsköpun til að fjárfesta í,“ segir Lissy Smit að lokum.