Tímamót Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands og verðandi framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO), heilsar forvera sínum Jens Stoltenberg (t.h.). Rutte er sagður vera sterkur leiðtogi og réttur kostur.
Tímamót Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands og verðandi framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO), heilsar forvera sínum Jens Stoltenberg (t.h.). Rutte er sagður vera sterkur leiðtogi og réttur kostur. — AFP/NATO
„Ég skil Atlantshafsbandalagið (NATO) eftir í góðum höndum. Mark er sterkur leiðtogi og sáttasemjari,“ segir Jens Stoltenberg, fráfarandi framkvæmdastjóri NATO, en aðildarríki varnarbandalagsins hafa nú öll sagst styðja Mark Rutte til embættis framkvæmdastjóra.

Kristján H. Johannessen
khj@mbl.is

„Ég skil Atlantshafsbandalagið (NATO) eftir í góðum höndum. Mark er sterkur leiðtogi og sáttasemjari,“ segir Jens Stoltenberg, fráfarandi framkvæmdastjóri NATO, en aðildarríki varnarbandalagsins hafa nú öll sagst styðja Mark Rutte til embættis framkvæmdastjóra. Mun Rutte, sem gegnt hefur embætti forsætisráðherra Hollands frá árinu 2010, því taka við af Norðmanninum Stoltenberg, en sá hefur leitt Atlantshafsbandalagið frá árinu 2014. Munu skiptin formlega fara fram í byrjun október næstkomandi.

Rutte segir það mikinn heiður að leiða NATO nú þegar Evrópa stendur frammi fyrir útþenslustefnu Rússlands og gjörbreyttu öryggisástandi í álfunni. „Bandalagið er og verður hornsteinn í okkar sameiginlega öryggi. Að leiða þetta bandalag er ábyrgð sem ég tek ekki af léttúð,“ segir Mark Rutte, verðandi framkvæmdastjóri NATO.

Leiðtogar aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins skiptast nú á að bjóða Rutte velkominn og segja hann vera „rétt val“ fyrir bandalagið og góðan varðmann fyrir „frelsi og öryggi“ Evrópu. Eru það m.a. forsætisráðherra Bretlands og Þýskalandskanslari sem hafa komist svo að orði.

Viðbrögð hafa einnig borist úr austri, þ.e. frá Kremlverjum. Segja þeir fátt eiga eftir að breytast með nýjum framkvæmdastjóra. NATO er og verður áfram „óvinur“ Rússlands.

Þarf að halda mönnum við efnið

Sem forsætisráðherra Hollands hefur Mark Rutte staðið þétt við bakið á Úkraínu og talað fyrir aukinni hernaðaraðstoð til að hindra framgang innrásarliðs Rússlands. Hefur hann m.a. talað fyrir afhendingu á orrustuþotum af gerðinni F-16, en þotur þessar eru sagðar afar fjölhæft vopnakerfi og henta jafnt til árása gegn öðrum loftförum sem og gegn skotmörkum á jörðu niðri. Gætu þoturnar því átt þátt í að stórauka loftvarnir Úkraínumanna.

Mjög hefur mætt á Atlantshafsbandalaginu frá upphafi árásarstríðs Moskvuvaldsins í Úkraínu árið 2022. Komst snemma á mikil samstaða innan bandalagsins og einhugur um að styðja Úkraínuher í vörnum sínum og sókn. Stjórnmálaflokkar í Evrópu eru þó sumir efins um þann mikla kostnað sem fylgir aðstoðinni og hafa viljað snúa baki við Úkraínu. Fastlega má búast við því að Rutte þurfi í störfum sínum sem framkvæmdastjóri NATO að halda leiðtogum aðildarríkjanna við efnið – ekki megi draga úr hernaðaraðstoð Vesturlanda. Mun frekar ættu aðildarríkin að gefa í og stórauka aðstoðina á komandi vikum og mánuðum.

Vilja klófesta Kremlverja

Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn (ICC) vill koma böndum yfir Valerí Gerasímov, yfirmann rússneska herráðsins, og Sergei Shoígú varnarmálaráðherra. Eru þeir sakaðir um stríðsglæpi gegn almenningi í Úkraínu og sagðir hafa lagt blessun sína á hömlulausar árásir Rússlands gegn borgaralegum innviðum. Áður hefur sakamáladómstóllinn sakað Vladimír Pútín Rússlandsforseta um sambærilega glæpi gegn saklausu fólki.

Kremlverjar gefa lítið fyrir þessar ásakanir dómstólsins, hann sé ekki viðurkenndur af Moskvuvaldinu og hafi því í raun engin réttaráhrif gagnvart ríkisborgurum Rússlands. Þetta segir Dmitrí Peskov talsmaður Rússlandsforseta.

„Og það sem meira er: þessar ásakanir eru að okkar mati algerlega fáránlegar. Það á einnig við um fyrri ásakanir,“ segir hann og vísar til meintra stríðsglæpa Pútíns Rússlandsforseta og handtökuskipunar ICC á hendur Maríu Lvova-Belova, en hún er fulltrúi forsetans varðandi réttindi barna. Tengist meint brot brottflutningi Rússa á úkraínskum börnum til Rússlands.

Rannsókn á ólöglegu brottnámi barna frá hernumdum svæðum í Úkraínu er í forgangi hjá dómstólnum, en óttast er að rússneskt innrásarlið hafi rænt tugum þúsunda barna.