Flugtak Eldri maður fylgist með eldflaug Norður-Kóreu á sjónvarpsskjá.
Flugtak Eldri maður fylgist með eldflaug Norður-Kóreu á sjónvarpsskjá. — AFP
Vísindamenn í Norður-Kóreu skutu á loft langdrægri eldflaug og sprakk hún á flugi yfir opnu hafi.

Vísindamenn í Norður-Kóreu skutu á loft langdrægri eldflaug og sprakk hún á flugi yfir opnu hafi. Talið er að norðanmenn séu með þessu m.a. að mótmæla heimsókn bandarísks flugmóðurskips til Kóreuskaga og sameiginlegri heræfingu þeirra og Suður-Kóreu.

Fréttaveita AFP greinir frá því að frá Pjongjang hafi að undanförnu svifið fjöldinn allur af blöðrum og loftbelgjum sem innihéldu rusl og annað drasl. Innihaldið féll svo yfir landsvæði sunnanmegin við landamæri Kóreuríkjanna. Loftbelgjaflug sem þetta er fjarri því að vera einsdæmi, norðanmenn hafa margsinnis sent drasl og annan úrgang flugleiðina yfir landamærin.

Stjórnvöld í Suður-Kóreu segja ruslsendingar Pjongjang svar einræðisherrans við áróðri sem sunnanmenn hafa lengi varpað úr lofti yfir landsvæði Norður-Kóreu. Er þá um að ræða bréfbæklinga sem fræða eiga almenning þar í landi um þá miklu harðstjórn sem þar ríki. Eins hafa sunnan- og norðanmenn lengi skipst á skoðunum með hljóðnemum yfir landamærin. Er þá hinu og þessu sem finna má í ríkjunum hampað.