Fyrri kappræður forsetaefna háðar í kvöld

Fátt vekur nú meiri spennu í Bandaríkjunum þetta fimmtudagskvöld en fyrirhuguð kappræða milli þeirra Donalds Trumps og Joes Bidens, sem báðir hafa gegnt embætti forseta þessa mikla lands og reyna nú enn.

Donald Trump hafði þrýst mjög á um að kappræðurnar færu fram og Joe Biden tók þeim kröfum lengi vel illa. Trump sagðist þá mundu samþykkja hvaða fyrirkomulag sem Biden krefðist! Skilyrðin, sem sett voru af hálfu Bidens, voru að kappræðurnar stæðu í 90 mínútur samtals, og þegar forsetaefnin hefðu lokið fárra mínútna máli sínu, í hvert eitt sinn, þá yrði slökkt á tæki hans, til þess að tryggja að sá gæti ekki gripið fram í fyrir þeim, sem þá hefði orðið. Þriðja skilyrðið var að báðir spyrlarnir og um leið stjórnendur kappræðunnar kæmu frá CNN, sem lengi hefur lagt taumlitla fæð á Donald Trump og hvergi sparað sig! Þrátt fyrir að dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, í umboði forsetans, hafi stofnað til óteljandi málaferla gegn keppanda Bidens um forsetaembættið hefur fylgi kjósenda við Trump aukist dag frá degi uns svo er komið, að yfirburðir hans eru þegar taldir töluvert miklir. Þess vegna samþykkti Biden loks kappræðurnar, sem voru raunar, um svo margt, orðnar honum heppilegar.

Nú er því spáð að mikill fjöldi manna muni fylgjast með þessum kappræðum þá tæpu tvo tíma sem þær munu standa og gætu að mati fréttaspekinga haft veruleg áhrif á afstöðu almennings. Undirbúningur keppinautanna fyrir þessa snerru gæti ekki verið ólíkari. Joe Biden flutti sig til Camp David, sveitaseturs forsetans, og dvelur þar í heila viku með 26 sérfræðingum á ýmsum sviðum, á meðan Donald Trump þýtur á milli ríkja og talar þar til tugþúsunda manna. Segja má að hvor hinna ólíku aðferða frambjóðendanna tveggja hafi til síns ágætis nokkuð.

Stefnt er að annarri kappræðu í september nk. og telja margir að sú snerra muni hafa minna gildi en hin fyrri, því að þá verði aðeins tveir mánuðir til kosninga og  líklegt að mjög margir hafi þá gert upp hug sinn og mjög margt fólk þá þegar tekið til við að greiða atkvæði utan kjörfundar.