Skipulag Ákvörðun um Sundabraut mun hafa áhrif á framtíðarskipulag 
Sundahafnar, að mati Gunnars Tryggvasonar hafnarstjóra Faxaflóahafna.
Skipulag Ákvörðun um Sundabraut mun hafa áhrif á framtíðarskipulag Sundahafnar, að mati Gunnars Tryggvasonar hafnarstjóra Faxaflóahafna. — Morgunblaðið/sisi
Gunnar Tryggvason hafnarstjóri Faxaflóahafna segir skýrslu sem ráðgjafarfyrirtækið Portwise vann fyrir Eimskip um framtíðarskipulag Sundahafnar verða tekna til skoðunar. Ekki liggi á að taka ákvörðun fyrr en skipulagsyfirvöld taki ákvörðun um Sundabraut.

Baksvið
Andrea Sigurðardóttir
andrea@mbl.is

Gunnar Tryggvason hafnarstjóri Faxaflóahafna segir skýrslu sem ráðgjafarfyrirtækið Portwise vann fyrir Eimskip um framtíðarskipulag Sundahafnar verða tekna til skoðunar. Ekki liggi á að taka ákvörðun fyrr en skipulagsyfirvöld taki ákvörðun um Sundabraut.

„Þetta er málefnaleg skýrsla og annað sjónarmið en við höfum fengið hingað til. Hún er fínt innlegg í umræðuna og verður tekin til skoðunar,“ segir Gunnar.

Forsaga málsins er sú að árið 2022 birtu Faxaflóahafnir skýrslu sem ráðgjafarfyrirtækið Drewry vann varðandi skipulagskosti til framtíðar við Sundahöfn. Þar voru dregnar upp fimm sviðsmyndir framtíðarskipulags en sá kostur sem Drewry mat ákjósanlegastan var að eitt félag í eigu óháðs rekstraraðila fengi einokunarstöðu á höfninni.

Sú niðurstaða kom Eimskip spánskt fyrir sjónir og í kjölfarið fól félagið Portwise að yfirfara skýrslu Drewry og leggja sjálfstætt og hlutlægt mat á niðurstöður hennar út frá hagkvæmasta kosti fyrir Faxaflóahafnir og íslenskt samfélag.

Gagnrýna forsendur og aðferðafræði

Í skýrslu Portwise, sem Eimskip birti í síðustu viku, eru gerðar margvíslegar athugasemdir við forsendur Drewry og þá aðferðafræði sem þeir beittu við mat á skipulagskostum. Morgunblaðið fjallaði ítarlega um skýrslu Portwise og ræddi við ráðgjafa sem að henni unnu en þeir voru slegnir yfir því að ráðgjafarfyrirtæki sem þekkt er fyrir hagfræðirannsóknir kæmist að þeirri niðurstöðu að einokun væri hagkvæmara fyrirkomulag en samkeppni.

Ráðgjafarnir gera athugasemdir við þær forsendur sem Drewry byggja á, meðal annars hvað varðar eðli einokunar og svigrúm til þess að lækka verð hafnarþjónustu. Þeir gagnrýna sömuleiðis að matsþættir stigagjafar endurspegli margir hverjir ekki markmið Faxaflóahafna, þá séu matsþættirnir ekki vegnir eftir mikilvægi og stigakvarðinn aðferðafræðilega rangur og til þess fallinn að gefa skakka mynd í rannsókn sem þessari.

Yrði óháðum rekstraraðila veitt einokunarstaða við Sundahöfn telur Portwise að þjónustustig og sveigjanleiki í þjónustu við íslensk fyrirtæki í inn- og útflutningi myndi minnka, samkeppnishæfni virðiskeðjunnar til og frá Íslandi myndi minnka, auk þess sem það væri til þess fallið að hækka kostnað neytenda til lengri tíma litið.

Portwise lagði sjálfstætt mat á skipulagsvalkosti og er niðurstaða ráðgjafanna sú að núverandi fyrirkomulag hafnarþjónustu, sem felur í sér samþætta gámahöfn og vöruafgreiðslu í samkeppni tveggja fyrirtækja, sé ákjósanlegasta sviðsmyndin. Þeir benda á að alþjóðleg flutningafyrirtæki sækist eftir því að koma á sams konar fyrirkomulagi og nú er í Sundahöfn. Þá segir í skýrslunni að núverandi fyrirkomulag stuðli að styttri afhendingartíma fyrir ferskvörur, hagkvæmni í inn- og útflutningi ásamt því að fela í sér sveigjanleika til að mæta krefjandi aðstæðum sem gjarnan þurfi, ekki síst vegna veðurfars hér á landi. Ráðgjafarnir telja ólíklegt að slíkur sveigjanleiki og þjónustustig verði fyirr hendi ef þriðja aðila yrði falið að reka höfnina í einokunarstöðu.

Skipulag háð ákvörðun um Sundabraut

Skipulag Sundahafnar til framtíðar er skoðað í samhengi við löngu fyrirhugaða Sundabraut. Gunnar hafnarstjóri segir skipulag hafnarinnar enn vera á frumstigum stefnumótunar. „Við tökum okkur tíma í þessa vinnu. Stefnan hefur ekki verið mótuð enn sem komið er og við höfum því nægt svigrúm til að meta ólíka skipulagskosti. Þegar að því kemur að samgönguyfirvöld taka ákvörðun um Sundabraut breytist það en þá þurfum við að hafa hraðann á. En eins og staðan er núna einbeitum við okkur fyrst og fremst að því að viða að okkur upplýsingum til að geta tekið faglega ákvörðun þegar að því kemur að hana þurfi að taka.“

Í matsáætlun er gert ráð fyrir að Sundabraut tengi saman Sæbraut við Laugarnes eða Holtaveg og Vesturlandsveg á Kjalarnesi með vegi um Kleppsvík, Gufunes, Eiðsvík, Geldinganes, Leiruvog, Álfsnes og Kollafjörð (mynd 1). Tveir kostir eru til skoðunar fyrir þverun Kleppsvíkur; brú eða jarðgöng.

Málin flækjast einkum fyrir Faxaflóahafnir ef Sundabraut verður lögð sem lágbrú í framhaldi af Holtavegi. „Verði það niðurstaðan þurfum við að flytja Samskip og nýta svæðið betur sem verður fyrir norðan brú. Það er með það í huga sem við erum að skoða hvaða skipulagsfyrirkomulag sé best,“ segir Gunnar.

Samkvæmt nýjustu áætlunum er gert ráð fyrir að umhverfismati á Sundabraut ljúki á þessu ári, verkið verði boðið út árið 2026 og framkvæmdum ljúki 2031. Sundabraut hefur verið á teikniborðinu svo áratugum skiptir en hún hefur verið í aðalskipulagi Reykjavíkur allt frá árinu 1984 og undirbúningur hófst fyrst í desember 1995.

Höf.: Andrea Sigurðardóttir