Hanna Katrín Friðriksson
Hanna Katrín Friðriksson
Viðreisn hefur lagt áherslu á það frá upphafi að áskorunum í heilbrigðiskerfinu verði að mæta af fullum þunga. Að leiðir til úrbóta verði að fara fram fyrir allt annað á forgangslistanum.

Það virðist vera sama hvert leiðin liggur; í matvörubúðina, saumaklúbbinn, ræktina eða á fund með kjósendum. Alls staðar er fólk að ræða biðlista og skort á sjálfsagðri heilbrigðisþjónustu. Nú ætla ég ekki að láta eins og þessi umræða sé ný af nálinni eða komi á óvart, heldur velta því upp hvort við séum mögulega farin að tala um þessi mál á annan hátt en við gerðum áður. Vegna þess að ástand sem við héldum að væri tímabundið er orðið viðvarandi.

Í stað þess að skiptast á dæmisögum úr kerfi sem gæti verið að springa, ræðum við nú tíu mánaða biðlista eftir nauðsynlegri þjónustu eins og það sé frekar vel sloppið og innan eðlilegra marka.

Í stað þess ærast yfir kerfi sem gengur út á að fólk finni leiðir til að brúa áralangt bil eftir hjúkrunarheimili erum við bara nokkuð fegin þegar biðin styttist úr fimm árum í fjögur. Við erum farið að venjast slíkri tilhugsun. Og þróa með okkur biðlistaónæmi.

Þessi aðlögunarhæfni er vissulega aðdáunarverð, en hún er á sama tíma óskaplega dapurleg. Við vitum alveg að við eigum ekki að sætta okkur við að börn í vanda bíði í mörg ár eftir nauðsynlegri greiningu, hvað þá eftir faglegri aðstoð. Við vitum líka að okkar fyrsta stopp í heilbrigðiskerfinu á ekki að vera margra mánaða bið eftir tíma hjá heimilislækni. Það er ekki í lagi.

Kannski er það einmitt svona sem við lærum að umbera úrræðaleysi. Með því að slaka á eigin viðmiðum og færa víglínurnar. Förum að sætta okkur við ástand sem í raun er óboðlegt í stað þess að leggja alla áherslu á að bæta stöðuna.

Viðreisn hefur lagt áherslu á það frá upphafi að áskorunum í heilbrigðiskerfinu verði að mæta af fullum þunga. Að leiðir til úrbóta verði að fara fram fyrir allt annað á forgangslistanum. Um þetta hefur reyndar verið breið samstaða allra flokka á Íslandi. Samt þokast allt of hægt í rétta átt.

Við stjórnmálamenn verðum að taka það alvarlega þegar fólkið í landinu er hætt að trúa því að lausnirnar séu í sjónmáli. Málið er ekki einfalt, en það má ekki vera afsökun fyrir aðgerðaleysi. Tími starfshópa er liðinn og nú er runninn upp tími ákvarðana og aðgerða. Þó miklu fyrr hefði verið. Viðreisn er flokkur sem hræðist það verkefni ekki.

Höfundur er þingflokksformaður Viðreisnar.