Sigurður Ingi Jóhannsson
Sigurður Ingi Jóhannsson
Þegar öllu er á botninn hvolft þá er árangur eini mælikvarðinn á gæði ríkisstjórnar

Snemma aðfaranótt sunnudags var þingi frestað eftir mikla törn þar sem fjöldi mála var afgreiddur sem lög og þingsályktanir. Fjármálaáætlun, útlendingalög, lögreglulög, lög um listamannalaun, ferðamálastefna, lög um sölu eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka, fjáraukalög vegna kjarasamninga og málefna Grindavíkur, húsaleigulög og lög sem fela í sér miklar breytingar á örorkulífeyriskerfinu voru meðal þeirra mála sem Alþingi afgreiddi. Öll eru þessi mál mikilvæg fyrir íslenskt samfélag.

Mikil deigla í stjórnmálum

Það væri ofmælt að ríkisstjórnin nyti mikilla vinsælda þessa dagana. Er því líkt farið og með flestar ríkisstjórnir í norður- og vesturhluta Evrópu. Það er mikil deigla í stjórnmálum þessi misserin sem lýsir sér meðal annars í nokkru flugi stjórnmálahreyfinga á jöðrum stjórnmálanna, hægra og vinstra megin.

Eftirfaraldurstíminn reynist mörgum erfiður. Ofan á efnahagslegar áskoranir sem eru eftirköst þess að lönd heimsins skelltu í lás til að berjast við óværuna koma ógnvænleg átök í Úkraínu og fyrir botni Miðjarðarhafs. Sú ógn sem vofir stöðugt yfir lýðræðisríkjum í nágrenni Rússlands en hefur síðustu mánuði fallið í skuggann af átökunum á Gasa, átökum sem teygja sig inn í lýðræðisríki Vesturlanda í formi mikilla mótmæla. Á Íslandi hafa mótmælin að mestu leyti beinst gegn ríkisstjórn og Alþingi. Því sama Alþingi sem fyrst vestrænna þjóðþinga viðurkenndi sjálfstæði Palestínu og hefur, líkt og ríkisstjórnin, komið því skýrt á framfæri að krafan sé tafarlaust vopnahlé. Það er erfitt að sjá á hvaða hátt íslensk stjórnvöld ættu að beita sér frekar.

Sátt eða stolt?

Enginn þeirra þriggja flokka sem frá árinu 2017 hafa setið í ríkisstjórn getur verið sáttur við það fylgi sem þeir mælast með í skoðanakönnunum. Þeir geta hins vegar verið sáttir við þann styrk sem þeir hafa sýnt með því að leiða þjóðina í gegnum erfiða tíma, þeir geta ekki síst verið sáttir við að hafa á þessum tæpu sjö árum staðið að tvennum langtímakjarasamningum, þeir geta verið sáttir við að hafa náð saman um skynsamlega löggjöf í útlendingamálum og þeir geta verið stoltir af því að standa að yfirvegaðri stjórn efnahagsmála.

Sorrí

Það er skiljanlegt að þeir flokkar sem nú sitja fáliðaðir í stjórnarandstöðu og horfa á margfalt fylgi sitt í skoðanakönnunum fyllist óþreyju. Þeir vita sem er að það er ekki gott að toppa of snemma. Þeir vita sem er að sólargangur stjórnmálanna á Íslandi er fjögur ár. Þeir vita að þau fræ sem ný ríkisstjórn sáir í upphafi fjögurra ára kjörtímabils verða að blómum í lok þess. Þess vegna er skiljanlegt að forvígismenn þeirra og æsingamenn inni á fjölmiðlum vilji rjúfa það ferli sem kjörtímabilið er og fá kosningar. Ég verð að hryggja þá með því að ekkert bendir til annars en að ríkisstjórnin klári sitt tímabil og hún og þjóðin uppskeri eins og sáð var. Sorrí.

Árangur eini mælikvarðinn

Stjórnmál eru vinna. Þrotlaus vinna. Og eins og allir sem hafa unnið þekkja þá getur það verið helvítis maus að ná hlutum saman, láta allt ganga upp. Stjórnmál eru heillandi en þau eru ekki alltaf skemmtileg. Þau þurfa heldur ekki að vera skemmtileg. Þau þurfa að vera árangursrík. Og sama hvað má segja um skemmtanagildi ríkisstjórnarinnar þá hefur hún náð mikilvægum árangri fyrir íslenskt samfélag. Þegar öllu er á botninn hvolft þá er árangur eini mælikvarðinn á gæði ríkisstjórnar.

Höf.: Sigurður Ingi Jóhannsson