Óttar Pálsson
Óttar Pálsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sparnaður ríkisins myndi endurspegla tap skuldabréfaeigenda, sem eru að langsamlega stærstum hluta lífeyrissjóðir og á endanum sjóðfélagar þeirra, þ.e. fólkið í landinu.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra og fyrrverandi ráðherra fjármála- og efnahagsmála, birti um síðustu helgi grein í sunnudagsblaði Morgunblaðsins undir fyrirsögninni „Augljósir almannahagsmunir“. Í greininni er fjallað um fjárhagsvanda ÍL-sjóðs sem áður hét Íbúðalánasjóður og rakið hvernig vandi sjóðsins er sögulega til kominn. Fyrir liggi að eignir sjóðsins hrökkvi ekki fyrir skuldum. Verulegur halli hafi verið á rekstri sjóðsins undanfarin ár en áætlað tap hans nemi um 1,5 milljörðum króna á mánuði eða 18 milljörðum á ári. Það muni kosta ríkissjóð 478 milljarða króna, miðað við áætlaða stöðu um síðustu áramót, að reka sjóðinn út líftíma hans. Núvirt sé sú fjárhæð um 200 milljarðar króna. Ráðherrann víkur síðan að ábyrgð Alþingis og skyldu gagnvart almenningi að bregðast við þeirri stöðu sem upp er komin. Hagfelldasta leiðin væri að ná samkomulagi við kröfuhafa um uppgjör.

Í skrifum ráðherrans er ekki dregin fjöður yfir að með frumvarpi því um slit ÍL-sjóðs sem nú er til meðferðar á Alþingi sé ríkinu búinn valkostur í samningaviðræðum við kröfuhafa. Þótt hreinskilni ráðherrans um þetta atriði kunni að þykja virðingarverð orkar tvímælis að lagasetningarvaldi skuli þannig beitt til að styrkja samningsstöðu ríkisins í viðræðum um fjárhagslegt uppgjör. Við bætist að forsendur sem liggja þessu viðhorfi til grundvallar standast ekki að öllu leyti. Þar skiptir mestu máli það sem segir um ábyrgð ríkisins á skuldbindingum ÍL-sjóðs, einkum kröfum fjárfesta skv. íbúðabréfum sem sjóðurinn er skuldari að. Bókfært virði íbúðabréfa í reikningsskilum sjóðsins nam ríflega 800 milljörðum króna um síðustu áramót. Í greininni segir að ríkið beri ekki ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins umfram þá sem tilgreind er í útboðsskilmálum skuldabréfanna. Það þýði að fjárfestar hafi ekki mátt gera ráð fyrir að ríkissjóður myndi leggja ÍL-sjóði til fjármagn umfram það sem leiðir af einfaldri ábyrgð bréfanna. Í þessum orðum ráðherrans endurspeglast alvarlegur misskilningur.

Íslenska ríkið ber ótakmarkaða ábyrgð á öllum skuldbindingum ÍL-sjóðs. Breytir engu í því sambandi þótt ábyrgðin sé einföld, líkt og tekið er fram í skrifum ráðherrans, enda hefur form ábyrgðarinnar að þessu leyti ekki áhrif á umfang hennar. Við vanefnd ÍL-sjóðs er skuldabréfaeigendum heimilt, en ekki skylt, að gjaldfella skuldina. Að undangenginni fullnustu gagnvart ÍL-sjóði er þeim jafnframt heimilt að beina kröfum sínum að íslenska ríkinu sem ábyrgðarmanni. Nefnd úrræði eru á forræði skuldabréfaeigenda skv. skilmálum skuldabréfanna. Á hinn bóginn eru þau hvorki á forræði skuldarans sjálfs, ÍL-sjóðs, né ábyrgðarmannsins, íslenska ríkisins. Með öðrum orðum á íslenska ríkið engan rétt á því, hvorki samkvæmt lögum né skilmálum skuldabréfanna, að gjaldfella skuldina og knýja fram uppgjör við skuldabréfaeigendur með greiðslu höfuðstóls og áfallinna vaxta miðað við þann tímapunkt sem gjaldfelling á sér stað.

Kröfur skuldabréfaeigenda til greiðslu höfuðstóls og vaxta út líftíma bréfanna mynda eignarréttindi sem njóta verndar bæði stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu. Þótt vísbendingar séu um að misskilnings um þetta atriði hafi gætt af hálfu stjórnvalda á fyrri stigum málsins er ekki um það deilt í dag. Enda er það beinlínis tekið fram í athugasemdum greinargerðar með frumvarpi til laga um slit ÍL-sjóðs. Af því leiðir að skuldabréfaeigendur verða ekki sviptir þessum eignarréttindum með lögum eða ákvörðun ráðherra um að krefjast þess að sjóðnum verði slitið nema að uppfylltum skilyrðum stjórnarskrár og mannréttindasáttmála. Mestu skipta þar skilyrði um almannaheill og að fullt verð komi fyrir þá eign sem tekin er eignarnámi.

Af skrifum ráðherrans má skýrlega ráða að hann líti svo á að Alþingi sé beinlínis skylt að bregðast við fjárhagsvanda ÍL-sjóðs með ráðstöfunum sem myndu spara ríkissjóði og þar með almenningi í landinu verulega fjármuni, jafnvel hundruð milljarða króna. Þess er hins vegar látið ógetið að verðmætarýrnun skuldabréfanna, sem leiddi af slitum ÍL-sjóðs á grundvelli fyrirliggjandi lagafrumvarps, næmi sömu fjárhæð. Með öðrum orðum: sparnaður ríkisins myndi endurspegla tap skuldabréfaeigenda, sem eru að langsamlega stærstum hluta lífeyrissjóðir og á endanum sjóðfélagar þeirra, þ.e. fólkið í landinu. Því væru það lífeyrissjóðir sem tækju á sig tapið af boðuðum ráðstöfunum ríkisins með tilheyrandi áhrifum á burði þeirra til lífeyrisgreiðslna til almennings í framtíðinni.

Grundvallaratriði málsins er þetta: Ákvæði stjórnarskrár og mannréttindasáttmáli Evrópu setja Alþingi og stjórnvöldum skorður í lögskiptum ríkisins við borgara þessa lands. Slitameðferð ÍL-sjóðs á grundvelli þess lagafrumvarps sem fyrir liggur fæli í sér að opinberum valdheimildum væri beinlínis beitt til að koma íslenska ríkinu hjá því að efna gildar skuldbindingar sínar. Engin þau skilyrði eru til staðar sem réttlætt geta slíka ráðstöfun.

Ákvæði stjórnarskrár ber að virða. Í því felast augljósir almannahagsmunir.

Óttar Pálsson er hæstaréttarlögmaður og einn eigenda LOGOS lögmannsþjónustu.  Róbert R. Spanó er lögmaður og einn eigenda Gibson Dunn, fyrrverandi forseti Mannréttindadómstóls Evrópu og lagaprófessor við Oxford-háskóla og Háskóla Íslands.

Höf.: Óttar Pálsson og Róbert R. Spanó