Þórey S. Þórðardóttir
Þórey S. Þórðardóttir
Ríkið tók á sig ábyrgð gagnvart eigendum íbúðabréfanna sem það hleypur ekki frá án þess að baka sér skaðabótaskyldu.

Áform stjórnvalda um að slíta ÍL-sjóðnum með lagavaldi eru hvorki siðleg né lögleg og jafngilda eignaupptöku. Þetta er samt sú leið sem ríkið markar sér í frumvarpi um slit ógjaldfærra aðila. Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, þáverandi fjármálaráðherra og núverandi utanríkisráðherra, lagði frumvarpið fram á Alþingi í febrúar 2024. Markmið þess er að lögfesta heimild til handa ríkinu að slíta ÍL-sjóðnum, áður Íbúðalánasjóði.
Hér eiga lífeyrissjóðir gríðarmikilla hagsmuna að gæta enda eigendur um 80% íbúðabréfa sem námu um 96% eigna ÍL-sjóðs við stofnun hans 2004.
Í grein í Morgunblaðinu 23. júní 2024 kallar Þórdís Kolbrún það „augljósa almannahagsmuni“ að ríkið standi ekki við skuldbindingar sínar gagnvart eigendum íbúðabréfanna. Forystusveitir lífeyrissjóða svara þá í nafni almannahagsmuna frá sínum bæjardyrum og fallast ekki á að ríkið bjargi sér úr eigin vandræðum á kostnað sjóðfélaga sinna.
Þetta sjónarmið var ítrekað á aðalfundum Landssamtaka lífeyrissjóða 2023 og 2024. Á aðalfundi samtakanna á dögunum sagði formaður þeirra, Jón Ólafur Halldórsson, meðal annars í starfsskýrslu stjórnar:
Þreifingar hafa verið í gangi um mögulegt samkomulag í deilunni og ég get ekki annað fyrir hönd lífeyrissjóðanna en lýst von um farsæla lendingu en hún er enn ekki sjáanleg innan sjóndeildarhringsins.
Staða lífeyrissjóða er afar sterk, ríkið mun ekki komast upp með annað en að efna skuldbindingar sínar til fulls. Meginregla íslensks réttar er þekkt, viðurkennd og skýr, nefnilega að samningar skuli standa .“
Alþingi getur vissulega samþykkt lög sem heimila ríkisvaldinu að setja ÍL-sjóð í slitameðferð en ríkissjóður þarf eftir sem áður að ábyrgjast kröfur lífeyrissjóða og annarra sem hagsmuna eiga að gæta. Kjarni máls er nefnilega sá að ríkið tók á sig ábyrgð gagnvart eigendum íbúðabréfanna sem það hleypur ekki frá án þess að baka sér skaðabótaskyldu. Það er svo einfalt og augljóst sem mest má vera.
Deilan varðar fjármagn sem Íbúðalánasjóður sótti sér á markaði 2004 með gjalddaga 2024, 2034 og 2044. Kveðið var á um að greiða 3,75% vexti allt til ársins 2044 og rétt er að geta þess í leiðinni að skilmálarnir voru ákveðnir af ríkisvaldinu. Vextir íbúðalána lækkuðu síðan með þeim afleiðingum að þeir sem skulduðu Íbúðalánasjóði greiddu upp lán sín í stórum stíl. Eftir sat ÍL-sjóður með fjármagn sem gaf af sér lægri vexti en á honum sjálfum hvíldu.
Þarna var tekin stórfelld pólitísk og fjárhagsleg áhætta sem ríkið sýpur nú seyðið af. Þá áhættu tóku stjórnvöld og meirihluti Alþingis á sínum tíma með galopin augu. Sumum leist reyndar ekki á blikuna, svo það sé nú rifjað upp. Þingtíðindin varðveita til að mynda varnaðarorð Péturs Blöndal og Jóhönnu Sigurðardóttur á Alþingi í mars 2004.
Forystusveit lífeyrissjóða telur farsælast fyrir ríkið að semja sig frá þeim vanda sem það sjálft skapaði sér. Skyldur ÍL-sjóðs eru samkvæmt útboðsskilmálum þær að endurgreiða höfuðstólinn verðtryggðan með 3,75% vöxtum á tilsettum tíma. Þeim kröfum getur ríkið hvorki sagt upp né hlaupið frá.
Afar sérstakt er að ráðherra ríkisstjórnarinnar kalli áform um vanefndir gagnvart eigendum íbúðabréfa „augljósa almannahagsmuni“. Slíkar yfirlýsingar fela í sér vanvirðingu gagnvart eignum sjóðfélaga sem ætlaðar eru til greiðslu lífeyris.

Höfundur er framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða.