Jón Sigurgeirsson
Jón Sigurgeirsson
Þeir sem styrkja þessi samtök eru að höggva á rætur íslensks velferðarkerfis.

Stöðugur áróður forheimskar fólkið. Því er haldið fram að gróði útgerðarinnar stafi af því að henni hafi verið afhentur fiskurinn í sjónum án endurgjalds. Auðvitað átti ríkið þátt í þeirri hagræðingu sem gerir útgerðina hagkvæma. Íslendingar eru mjög framarlega í hagræðingu og tæknivæðingu í sjávarútvegi, m.a. með gjörnýtingu aflans og þróun véla í vinnslunni og öflugri skipa.  Það er tvennt, sem skapar gróða í sjávarútvegi, þ.e. þáttur útgerðar og iðnfyrirtækja að auka hagkvæmni og þáttur ríkisins með vísindalegri nýtingu, útfærslu landhelginnar o.fl. Þegar ég var ungur voru veiðar frjálsar og útgerðir sem bæjarfélög höfðu sett á laggirnar á hvínandi kúpunni.

Hér á landi eru niðurrifssamtök sem reyna að koma í veg fyrir allt sem eflir atvinnulífið. Þau eru sýnilega þeirrar trúar að peningarnir verði til í óþrjótandi ríkiskassa og við eigum barasta að lifa á honum. Þessi samtök stóðu m.a. fyrir því að vegalagning um sunnanverða Vestfirði tafðist um tugi ára. Þau standa á móti virkjunum og segja að það megi bara loka iðnfyrirtækjum til að hafa orku til orkuskipta. Þeim er sérstakleg uppsigað við Vestfirðina þar sem ekki má rækta lax, ekki virkja og ekki leggja vegi.

Forsprakki þessara samtaka söðlaði um og gerðist umhverfisráðherra. Gert hafði verið samkomulag sem kallast rammaáætlun um hvað mætti virkja og hvað ætti að vernda. Hann flýtti sér að friða það sem kom í verndarflokk og kom í veg fyrir að það sem lenti í nýtingarflokk yrði nýtt og auðvitað lenti þetta á Vestfjörðum. Það er dæmi um heiðarleika sem einkennir „þetta fólk“.

Því er haldið fram í síbylju að útgerðin skili ekki neinu til þjóðarinnar. Ég spyr: „Á hverju lifum við?“ Útgerðin  og iðnfyrirtækin skapa mikinn hluta þess auðs sem við lifum á og halda uppi atvinnu víða um land.

Dr. Gylfi Þ. Gíslason krati og ráðherra í Viðreisnarstjórninni sagði að það þyrfti sterkt atvinnulíf til að borga velferðina. Þeir sem styrkja þessi samtök eru að höggva á rætur íslensks velferðarkerfis sem er heilbrigðiskerfi, menntakerfi og almannatryggingar. Þau eru líka að ráðast að ávöxtun lífeyrissjóða og ég spyr: Hvar ætlið þið að fá aur í ellinni?

Höfundur er aldraður lögfræðingur.