Guðni Ágústsson
Guðni Ágústsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Starfið í Gunnarsholti er afrek og Sveinn gerir sögunni góð skil og kappkostar að koma bæði starfsfólki Landgræðslunnar að og velunnurum hennar í máli og myndum.

Út er gefin bókin Saga Gunnarsholts á Rangárvöllum. Sveinn Runólfsson fyrrverandi landgræðslustjóri til 44 ára skrifar bókina. Það er Bókaútgáfan Sæmundur sem gefur hana út Bjarni Harðarson á Selfossi. Bókin er mikil að vöxtum 470 blaðsíður og ekki "rúmvæn,” eins og Sveinn orðaði það á útgáfuhátíðinni í Sagnagarði í Gunnarsholti.

Saga Gunnarsholts er rakin í máli og myndum frá því að Gunnar Baugsson og Hrafnhildur Stórólfsdóttir afi og amma Gunnars Hámundarsonar á Hlíðarenda reistu þar bú í öndverðu. Bókin er gersemi og prýdd 1082 myndum um leið og sagan er rakin. Stærst verður sagan þegar sand- og landgræðslustjórarnir setjast að í Gunnarsholti og taka að berjast við svartan sandinn, uppblásturinn og óhætt er að segja að sigrarnir hafi verið unnir um allt land frá Gunnarsholti.

Sveinn segir: "Það er ógjörningur fyrir nútímafólk að setja sig í spor fyrsta skógræktarstjórans og yfirmanns sandgræðslumála. Viðhorf Íslendinga til skógræktar, svo ekki sé talað um landgræðslumála, voru ekki uppörvandi fyrir ungan og kappsaman mann. Örfáir menn höfðu áttað sig á mikilvægi þess að stöðva eyðinguna og ná landinu aftur til fyrra horfs en enn fleiri höfðu einfaldlega gefist upp á þeirri vegferð og töluðu um  afstöðu almættisins.”

Það var Agnar Francisco Kofoed Hansen sem hóf baráttuna og var eldhugi. Með elju stækkaði herdeildin sem sá að hann hafði lög að mæla. Enginn efast í dag um að Ísland er annað land og vistvænna og eyðingin var stöðvuð, þótt baráttan sé ævarandi. Gunnlaugur Kristmundsson tók við kyndli frumherjans. Bræður og feðgar tóku svo við baráttunni og höfðu eitt markmið: "Hvar á trúboðinn að vera annars staðar en meðal heiðingjanna?” Ekkert var mikilvægara en að fá bæði bændur landsins og stjórnmálamenn með að verki að berjast við svartan sandinn og klæða landið skógi á ný.

Gunnarsholt var ljós í myrkrinu

Starfsstöðin í Gunnarsholti var ljósið í myrkrinu og sandfokinu með Heklu í návígi. Þar hóf Runólfur Sveinsson sitt mikla landnám frá Gunnarsholti um alla Íslands eyðisanda. Kom trúboðinn frá skólastjórn á Hvanneyri og  vann stórvirki sem bróðir hans Páll Sveinsson hélt áfram með glæsibrag. Svo kom áratuga forysta Sveins Runólfssonar og saman ríktu þeir feðgar og bræður í 70 ár og kunnu það best að virkja landgræðsluherinn, bændur og búalið, áhugamenn, forstjóra og fyrirtækin í landinu. Með gömlu herflugvélina Pál Sveinsson og sjálfboðaliðana undir stýri.  Kjötsúpa og feitt lambakjöt í eldhúsinu í Gunnarsholti ræktað með skipulagðri beit í nánd við örfoka land. Því beit er hagabót og sé lögmálinu hlýtt, eru og voru bændur að læra af herforingjunum í Gunnarsholti.

Bændur urðu margir bestu liðsmenn landgræðslustarfsins og velunnarar Gunnarsholts. Enda vissu þeir frændur að ekkert var mikilvægara en að bændurnir yrðu landgræðslumenn. Fullyrða má að það var ætlan Runólfs, Páls og Sveins að efla landbúnaðinn í gegnum landgræðslustarfið.

Holdanautabúskapurinn í Gunnarsholti var mikilvægt frumkvöðlastarf og hefðu bændur fylgt eftir þeim boðskap væri íslenskur landbúnaður nú ekki bara kúa- og sauðfjárræktarland heldur einnig öflugt  í framleiðslu á holdanautakjöti.

Meira að segja tók Sveinn Runólfsson hestamennskuna í fangið og Stóðhestastöð ríkisins boðaði gæðinginn, reiðhallirnar og hrossabúgarðana sem nú eru prýði sveitanna. Í Gunnarsholti reið Einar skáld Benediktsson sýslumaður um garða og orti hið ódauðlega ljóð Menn og hestar á hásumardegi. Og í lokin gerði Sveinn Gunnarsholt að fyrirliða í landgræðslustarfi um víða veröld með stofnun  Landgræðsluskóla Sameinuðu þjóðanna  sem byggði á þingsályktunartillögu Ísólfs Gylfa Pálmasonar er samþykkt var á Alþingi árið 2006. Sá er þetta ritar þá landbúnaðarráðherra kom  að þessari stórmerku hugmynd ásamt Valgerði Sverrisdóttur utanríkisráðherra. Landgræðslustarfið var orðið útflutningsvara.

Bókin er Edda landgræðslustarfsins

Starfið í Gunnarsholti er afrek og Sveinn gerir sögunni góð skil og kappkostar að koma bæði starfsfólki Landgræðslunnar að og velunnurum hennar í máli og myndum. Þessi bók á að vera til á hverju því heimili sem ann landbúnaði, landgræðslu og skógrækt. Bókin er ný Edda landgræðslustarfsins enda gekk Snorri Sturluson um garða í Gunnarsholti með fóstra sínum Jóni Loftssyni í Odda eins og Ágúst Sigurðsson hinn nýi forstöðumaður Lands og skógar gat um á útgáfuhátíðinni í Gunnarsholti. Nú er Land og skógur eitt fyrirtæki og minnumst þess sem Vigdís Finnbogadóttir forseti Íslands sagði: "Skógrækt er landbúnaður,” og landgræðsla er það einnig um allan heim.

Ekkert er nú jafn verðugt verkefni eins og að sameining landgræðslu og skógræktarinnar takist og hið sameinaða afl Land og skógur megi um alla framtíð takast á við náttúruöflin og beitarstjórnunina á viðkvæmum svæðum. Tækifærin bíða bænda framtíðarinnar eins og Sveinn segir "Sunnlenskir sandar geta skipt miklu í matvælaframleiðslu komandi ára  en það tekur mörg ár að búa þá undir nýtt hlutverk. Stjórnvöld verða að taka sér tak og verja stórfé í baráttuna sem er nú bara goluþytur enn sem komið er.”

Ágúst Sigurðssonar er verðugur eftirmaður Sveins Runólfssonar, hans bíður mikið starf að sameina og efla krafta landgræðslu- og skógræktarstarfsins.  Ísland hefur á að skipa frábæru fólki, þekkingu og vélakosti til nýrra stórræða. Gunnarsholt er eitt mesta höfuðból Íslands með mikla sögu. Vilji er allt sem þarf.

Höfundur er fv. alþingismaður og ráðherra.