Gunnlaugur Þórhallsson fæddist á Finnastöðum í Grýtubakkahreppi, S-Þing. 12. maí 1931. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Sóltúni 19. júní 2024.

Foreldrar hans voru Þórhallur Gunnlaugsson sjómaður og bóndi á Finnastöðum, f. 2. júlí 1889, d. 18. febrúar 1970, og Vigdís Þorsteinsdóttir húsfreyja, f. 13. október 1894, d. 23. janúar 1982. Gunnlaugur var yngstur 12 systkina, en hin voru: Jón Mikael, f. 1914, d. 1982, Þórlaug, f. 1915, d. 1978, Sigrún, f. 1916, d. 1994, Guðjón, f. 1919, d. 2020, Svava, f. 1921, d. 1922, drengur, f. 1922, d. 1922, Svavar Þorsteinn, f. 1924, d. 2014, Marta Helga, f. 1926, d. 1926, Jakobína Fanney, f. 1927, d. 2010, og Vilhjálmur Elías, f. 1929, d. 1981. Einnig átti hann samfeðra bróður, Ragnar Hörgdal, f. 1913, d. 1978.
Hinn 27. desember 1963 kvæntist Gunnlaugur lífsförunaut sínum, Ágústu Fanneyju Guðmundsdóttur frá Skipagerði, V-Landeyjum, f. 26. ágúst 1935, d. 26. sept. 2016. Hún var dóttir hjónanna Guðmundar Guðmundssonar bónda í Skipagerði og Guðleifar Gunnarsdóttur húsfreyju.

Gunnlaugur og Ágústa eignuðust tvö börn en þau eru: 1) Vigdís Arnheiður lífeindafræðingur, f. 1957, gift Guðmundi Inga Gíslasyni húsasmíðameistara, f. 1955. Börn þeirra eru: a) Valur verkfræðingur f. 1980, kvæntur Emily Claire Lawson, f. 1981, eiga þau tvo syni, Björn Benedikt og Óliver Emil. b) Fanney lyfjafræðingur, f. 1985, sambýlismaður Jósef Agnar Róbertsson, f. 1978, eiga þau eina dóttur, Vigdísi Fanneyju, fyrir á Jósef þrjú börn. c) Haukur leiðbeinandi, f. 1994. 2) Guðmundur Leifur húsasmíðameistari, f. 1961. Börn hans með fyrrverandi eiginkonu, Helgu Sigurðardóttur, f. 1965, eru: a) Júlía tómstunda- og félagsmálafræðingur, f. 1992. b) Gunnlaugur tölvunarfræðingur, f. 1994, sambýliskona Andrea Rún Halldórsdóttir, f. 1993 og eiga þau tvo syni, Eðvar Nóa og Maron Búa. Sambýliskona Guðmundar er Steinunn Hrafnkelsdóttir, f. 1972, og á hún þrjá syni.
Gunnlaugur gekk í barnaskóla í Grenivík frá 10 ára aldri fram að fermingu. Eftir það stundaði hann ýmiss konar vinnu til sjós og lands þar til hann hóf verslunarstörf hjá Kaupfélagi Reykjavíkur og nágrennis 1958 á Langholtsvegi, varð svo verslunarstjóri hjá þeim næstu 30 árin, fyrst á Tunguvegi, svo í Stakkahlíð, síðan í Stórmarkaðinum í Kópavogi sem var þá ein stærsta matvöruverslun landsins. Síðar stofnaði hann verslunina Gerðukaup við Tunguveg í Reykjavík sem hann rak til ársins 1991.
Hann kynntist eiginkonu sinni Ágústu Fanneyju þegar hann starfaði í byggingavinnu á Keflavíkurflugvelli og hún vann við fiskvinnslu í Keflavík. Þau trúlofuðust hinn 12. maí 1956. Lengst af bjuggu þau í Safamýri og Urriðakvísl í Reykjavík.
Gunnlaugur var mikill söngmaður og var í Karlakór Reykjavíkur í nokkra áratugi og söng meðal annars einsöng með kórnum á tónleikum í Háskólabíói. Einnig söng hann oft við jarðarfarir.
Útför Gunnlaugs fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 27. júní 2024, og hefst athöfnin klukkan 15.

Elskulegur faðir minn varð fyrir því óláni að detta og hlaut hann óafturkræfan mænuskaða við fallið sem dró hann til dauða örfáum dögum seinna. Það er ómetanlegt að hafa náð að vera hjá honum og geta kvatt hann á síðustu stundum meðvitundar hans.

Hann var dagfarsprúður að eðlisfari með góða lund og skipti hann sjaldan skapi. Helst vildi hann alltaf vera fínn til fara í jakkafötum og með bindi eða slaufu og vel greiddur. Mildur og ljúfur var hann við okkur systkinin í uppeldinu.

Þegar móðir mín veiktist og var lögð inn á hjúkrunarheimilið Eir, þar sem hún dvaldi í átta ár, hugsaði hann um hana af mikilli umhyggju og heimsótti oft í viku hverri. Það var mikið áfall fyrir hann að missa hana í heim minnisleysis þegar hún var 72 ára.

Pabbi naut þess að fara í sund, tefla, spila og keppa í bridge, þar kom sér vel hvað hann var fljótur að hugsa og reikna í huganum en ég hef aldrei kynnst neinum sem var eins snöggur og hann í hugarreikningi.

Hann söng tenór í Karlakór Reykjavíkur stóran hluta ævinnar og einnig við jarðafarir með kórfélögum. Stundum söng hann einsöng á tónleikum með kórnum.

Margir af hans bestu vinum voru líka í Karlakór Reykjavíkur en flestir eru þeir horfnir yfir móðuna miklu, í gegnum árin ferðuðust þeir saman til margra landa, t.d. Ameríku, Kanada, Kína og fjölda Evrópulanda og sungu á tónleikum.

Fyrir u.þ.b. 30 árum fór ég á golfnámskeið og keypti golfsett, en lítið varð af spilamennsku hjá mér, pabbi var að hætta að vinna svo ég spurði hann hvort hann vildi fá settið mitt til að prófa að spila golfi. Hann varð fljótlega hugfanginn af íþróttinni og æfði sig vel enda mikill keppnismaður, þetta bar góðan árangur og hlaut hann mörg verðlaun í keppnum og viðurkenningarskjal fyrir að fara holu í höggi. Hann naut útiverunnar, göngunnar og spilamennskunnar út í æsar til 89 ára aldurs, en þá fékk hann heilaslag og var þá sjálfhætt.

Elsku pabbi ég kveð þig með trega í hjarta, minningarnar lifa. Hvíl í friði.

Þín dóttir,

Vigdís.

Elsku faðir minn er fallinn frá. Hann var traustur og hjartahlýr maður sem var alltaf til staðar fyrir fjölskylduna. Hann hafði yndi af söng og var mikill söngmaður sjálfur.

Ein af mínum elstu minningum um hann er þegar ég var sjö ára og fór í Háskólabíó með móður minni og systur að hlusta á hann syngja með Karlakór Reykjavíkur. Man ég vel hvað mér fannst söngurinn kraftmikill og fallegur. Faðir minn fór svo fram fyrir kórinn og söng einsöng lagið O sole mio og kröftugur tenórsöngurinn hljómaði hátt um allan salinn. Eftir sönginn voru bornir inn stærðarinnar blómvendir til heiðurs einsöngvurunum og kórnum en ég man vel hvað ég var stoltur af að ég skyldi þekkja þennan mann sem föður minn.

Hann hafði einnig mikinn áhuga á að spila á spil og tefla og fylgdist vel með boltaíþróttum. Þegar ég ólst upp í Safamýrinni kenndi hann mér mannganginn í tafli. Náði ég ágætis tökum á taflmennskunni og tefldum við oft næstu árin og höfðum gaman af. Hann var góður bridgespilari og æfði og keppti með Bridgefélagi Reykjavíkur í mörg ár.

Þegar ég var unglingur vann ég oft hjá honum með skóla í matvöruverslun K.R.O.N. í Stakkahlíðinni. Það var gott að vinna hjá honum og starfsfólkinu líkaði vel að vera undir hans stjórn og vann sama fólkið hjá honum ár eftir ár. Hann var oftast léttur í lund, snöggur að gera hlutina og enn sneggri að leggja saman og reikna hinar flóknustu tölur í huganum.

Hann hafði mikinn áhuga á að byggja sér einbýlishús og sótti um lóðir hjá Reykjavíkurborg í nokkur ár. Loksins árið 1982 fékk hann úthlutaða lóð í Ártúnsholtinu og fékk mig til liðs við sig að smíða húsið en þá var ég nýlega útskrifaður sem húsasmiður og fannst mér það mjög spennandi verkefni. Fyrsta sumarið vorum við feðgar flestar helgar að slá upp sökklum og kjallara. Næsta ár fór ég ásamt Guðmundi Ingi mági mínum á fullt í að smíða glugga og slá upp restinni af húsinu og klára smíði þess. Var faðir minn öllum stundum með okkur ef hann komst frá verslunarrekstrinum, hvort sem var um helgar eða á virkum degi.

Þegar ég stofnaði fjölskyldu var hann áhugasamur um að við eignuðumst okkar eigið húsnæði og þegar við hófum að byggja okkur hús var hann mættur allar helgar að hjálpa til við smíðina og handlangið. Mér þótti afar vænt um að hafa hann með mér og áttum við góðan tíma saman við

þessar framkvæmdir.

Hann var einstaklega ljúfur maður og alltaf tilbúinn að hjálpa fjölskyldunni ef eitthvað var. Ég er þakklátur fyrir allar stundirnar sem við áttum saman elsku pabbi minn, hvíl í friði. Þinn sonur,

Guðmundur Leifur.

Elsku afi.

Þú varst svo glæsilegur og snar í snúningum enda alltaf spilandi golf eða í sundi.

Ég man þegar ég var lítil hvað mér fannst alltaf gaman að gista hjá ömmu og afa. Ég heyrði sögur af því hvernig þú röltir um og söngst fyrir okkur barnabörnin þegar komið var að háttatíma.

Mér verður mikið hugsað til þess hversu náin við vorum og til þessara einlægu góðu stunda sem við áttum saman. Takk fyrir allt afi minn, allar þær stundir sem við áttum saman og allt það sem þú gerðir fyrir mig.

Ég er svo þakklát fyrir að þú og dóttir mín fenguð að hitta hvort annað. Það var svo yndislegt að sjá hvað þú ljómaðir allur þegar hún kom í heimsókn. Ég mun segja henni sögur af langafa sínum og sýna henni myndir af ykkur saman.

Nánast öll jól höfum við verið saman svo þessi jól verða svo sannarlega skrítin án þín en þú munt vera með okkur í hjarta okkar og við munum kveikja á kerti í minningu um þig. Elsku afi minn, núna fáið þið amma að sameinast á ný.

Í hjarta mér þú verður

þaðan aldrei hverfur.

Ég minningu þína geymi

en aldrei gleymi.

Elsku hjartans afi minn

nú friðinn ég finn.

Þá kveð ég þig um sinn

og kyssi þína kinn.

(Ágústa Kristín)

Þín afastelpa,

Fanney.

Elsku afi minn, ég var svo heppinn að eiga heima í göngufæri frá ykkur ömmu þegar ég ólst upp. Kom ég þá oft til ykkar í heimsókn þar sem alltaf var til staðar bakkelsi og margt að gera. Ef smá sól var þá var öruggt að þú værir í sólbaði. Ef ekki var sól þá gerðum við ýmislegt saman eins og að tefla og æfa golfsveifluna. Ég man eftir að einn daginn kom ég hlaupandi til þín og var móður og másandi. Þú sagðir að ekki væri gott að vera svona þreyttur eftir smá hlaup og var mér sagt að mæta í æfingar til þín þar sem ég hljóp upp hitaveitustokk í nágrenninu og þú tókst tímann þangað til ég var í nógu góðu formi.

Ég hugsa oft um þá góðu tíma sem við áttum saman, megir þú hvíla í friði.

Valur.

Elsku afi, ég vil þakka þér fyrir alla þá einstöku hlýju og umhyggju sem þú hefur sýnt mér alla tíð. Þú sýndir mér alltaf þolinmæði þrátt fyrir hve orkumikil ég gat verið sem barn. Þú varst alltaf tilbúinn í að spila með mér og spjalla. Ég á einungis hlýjar minningar um þig. Ég minnist þess þegar þú kenndir mér að tefla og hvernig ég hlakkaði til að koma heim til þín og tefla við þig og læra eitthvað nýtt í taflinu. Ég minnist þess að hafa verið um jólin hjá þér og ömmu í bernsku og þess þegar þú kenndir okkur Gulla hvernig ætti að halda í golfkylfuna og að leggja kapal. Það má segja að áhugi minn á að spila og tefla hafi hafist hjá þér.

Einnig á ég margar góðar minningar af þér og ömmu í sólinni í sólbaði að spjalla og gæða okkur á kanilsnúðunum hennar ömmu. Ég minnist þess mest hve gott það var að koma í heimsókn til þín og ömmu. Þú varst alltaf til staðar og maður gat fundið það alltaf hversu annt þér var um fólkið þitt og hve vel þú hugsaðir um okkur öll.

Þú varst duglegur maður, áttir þér mörg áhugamál og varst duglegur að sinna þeim. Þú hugsaðir vel um þína líkamlega heilsu fram á gamals aldur og varst alltaf vel tilhafður. Þú varst maður sem alltaf gaf mikið af sér. Ég leit upp til þín og ömmu, þið áttuð fallegt og innihaldsríkt líf saman og ég vona að þú hafir það gott í hennar örmum núna.

Júlía Guðmundsdóttir.

Kær frændi minn og vinur, Gunnlaugur Þórhallsson, er látinn 93 ára.

Gunnlaugur fæddist á Finnastöðum á Látraströnd í Suður-Þingeyjarsýslu. Hann var sonur Þórhalls Gunnlaugssonar, útgerðarmanns og bónda, og konu hans, Vigdísar Þorsteinsdóttur.

Gunnlaugur var yngstur í stórum barnahópi. Á Finnastöðum var tvíbýli og þar bjó einnig Jón Þorsteinsson bóndi, bróðir Vigdísar, ásamt konu sinni, Elísu, og börnum. Var því fjölmenni mikið á þessum bæjum og oft líf og fjör. Ég var svo heppin að eiga heima þarna sem lítil stúlka.

Gunnlaugur gekk í barnaskóla á Grenivík og um fermingu fór hann að taka til hendinni, bæði til sjós og lands. Nóg var að gera á stóru heimili. En hann var ekki lengi í foreldrahúsum, fór um tvítugt suður til Reykjavíkur.

Ég man það eins og gerst hefði í gær þegar hann kom einn fagran sumardag í heimsókn í sveitina. Með honum í för var gullfalleg stúlka, hún Ágústa, sem síðar varð eiginkona hans. Þau bjuggu alla tíð í Reykjavík, eignuðust tvö börn, Vigdísi Arnheiði og Guðmund Leif, auk barnabarna og barnabarnabarna. Það var alltaf yndislegt að koma á þeirra heimili.

Gunnlaugur vann við verslunarstörf nánast allan sinn starfsaldur. Hann var líka mikill söngmaður, söng með Karlakór Reykjavíkur í fjölda ára og seinna með eldri félögum kórsins. Síðustu árin átti golfið hug hans allan.

Nú þegar komið er að leiðarlokum kveð ég Gunnlaug með söknuði en líka með þakklæti fyrir vináttu hans alla tíð.

Sigríður C. Victorsdóttir.