Bjarney Gunnarsdóttir, alltaf kölluð Badda, fæddist í Reykjavík 3. júní 1935. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi 16. júní 2024. Foreldrar Böddu voru Helga Sigurðardóttir frá Þaravöllum, Hvalfjarðarsveit, f. 8. desember 1911, d. 6. apríl 2001 og Gunnar Bjarnason frá Sandhólaferju í Rangárvallasýslu, f. 13. júní 1895, d. 25. október 1950. Systir Böddu var Jóna Sigríður Gunnarsdóttir, f. 3. ágúst 1933, d. 3. október 2016.

Börn Böddu eru Karl Þorvaldur Jónsson, f. 16. mars 1959 og Lilja Jónsdóttir, f. 29. apríl 1961. Faðir þeirra var Jón Þór Karlsson, f. 22. apríl 1933, d. 28. febrúar 2018. Dóttir Lilju og Guðjóns Viðars Guðjónssonar er Bjarney Helga Guðjónsdóttir, f. 8. júní 2000 og er hún í sambúð með Axel Fannari Elvarssyni, f. 12. mars 1998, þau eiga von á sínu fyrsta barni nú í júlí.

Badda bjó til sjö ára aldurs í Reykjavík en flutti til Akraness með foreldrum sínum árið 1942 og bjó þar til æviloka, bjó á Skagabraut 28 frá árinu 1964.

Badda lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskóla Akraness, fór í húsmæðraskóla í Sorø í Danmörku og lauk einnig námi sem fiskmatsmaður. Hún vann ýmis störf yfir ævina, m.a. sem matráðskona í rafmagnsvinnuflokki, fór á vertíð í síldarsöltun en lengst af vann hún við fiskvinnslu, hjá HB og co. og Heimaskaga. Badda naut þess að vera með fólkinu sínu, lesa og gera handavinnu.

Útför Böddu fer fram frá Akraneskirkju í dag, fimmtudaginn 27. júní, og hefst athöfnin klukkan 13. Athöfninni verður streymt á mbl.is/andlat.

Elskulega mamma mín

mjúk er alltaf höndin þín.

Tárin þorna sérhvert sinn

sem þú strýkur vanga minn.

Þegar stór ég orðin er

allt það skal ég launa þér.

(Sigurður Júlíus Jóhannesson)

Mikið hefðum við viljað hafa þig lengur og dekra við þig, en því miður fengum við ekki að hafa þig lengur hjá okkur. Söknuðurinn og tómleikinn er mikill. Að heyra ekki í þér oft á dag og kíkja til þín og fylgjast með framleiðslunni á handavinnunni hjá þér, allir púðarnir sem þú saumaðir og gafst. Þá fáu daga sem þú lást á sjúkrahúsinu og varst orðin mjög veik, þá varst þú að útdeila hver ætti að fá hvaða púða.

Þú varst í dagvist á Höfða í tvö ár, þar líkaði þér vel og þegar þú varst að verða búin með handavinnuverkefnin fórstu oftar á vilja en getu til að fá nýjan púða eða verkefni.

Þú varst búin að slíta þér út í vinnu og var það gert til að við börnin þín hefðum það betra en þegar þú varst að alast upp. Þú misstir pabba þinn sem hafði verið veikur í mörg ár og amma ól ykkur systurnar upp ein og þið byrjuðuð snemma að vinna. Þú fórst á vertíðir, t.d. síldarsöltun, einnig varst þú matráður þegar verið var að leggja bæði rafmagnslínur og sjálfvirkan síma og oft fórum við systkinin með þér. Þó þú værir orðin slitin hin seinni ár og gætir lítið gengið þá varstu ótrúlega dugleg að koma með okkur og oft varstu slæm af verkjum og ekki heyrðist mikið kvart og kvein. Mamma, þú varst að verða langamma, hún nafna þín hún Bjarney Helga var flutt upp á Skaga með honum Axel sínum og búin að kaupa íbúð og nú bíða þau eftir sínu barni í lok júlí. Þið voruð búnar að plana saman veturinn að eyða tíma saman. Hennar sorg og söknuður er líka mikill eins og okkar, en Axel og við pössum hana og litla ófædda barnið. Það er ljós í sorginni að fá nýtt líf í líf okkar. Einnig yljar það okkur á þessum erfiða tíma og í sorginni hvað þú þekktir marga og hvað er talað vel um þig og hvað margir hafa sent kveðjur. Það er svo margs að minnast og við höldum minningunum á lofti um yndislega mömmu, vinkonu og hetjuna okkar sem þú varst.

Ó, mamma mín hve sárt ég sakna þín

sál mín fyllist angurværum trega.

Öll þú bættir bernskuárin mín

blessuð sé þín minning ævinlega.

Oft ég lá við mjúka móðurkinn

þá mildar hendur struku tár af hvarmi.

Oft sofnaði ég sætt við vanga þinn

þá svaf ég vært á hlýjum móðurarmi.

Ó, móðir kær, ég man þig enn svo vel

mikill var þinn hlýi trúarkraftur.

Þig blessun Guðs í bæninni ég fel

á bak við lífið kem ég til þín aftur.

(Jón Gunnlaugsson)

Þín elskandi börn,

Lilja og Karl (Kalli).

Ég hef svo margt fallegt um ömmu að segja en söknuðurinn er svo mikill og sár að ég er hálforðlaus.

Amma var alveg einstök, svo óendanlega hlý og brosmild en líka algjör dugnaðarforkur. Mér leið hvergi betur en heima hjá ömmu. Það var best í heimi að koma í heimsókn til hennar og sjá andlitið hennar ljóma. Okkur ömmu þótti allra skemmtilegast að baka saman nokkrar sortir og hlusta á tónlist eða spjalla um lífið og tilveruna. Ég er svo óendanlega þakklát fyrir sambandið sem við áttum, hún var mín besta vinkona og hafði alltaf endalausa trú á mér. Að segja ömmu gleðifréttir var það allra besta því hún samgladdist alltaf svo innilega. Hún tók það líka mjög inn á sig þegar öðrum leið illa, oft þegar mér leið illa grét hún með mér.

Amma var alltaf algjör skvísa, með fallegar lakkaðar neglur og alltaf með skartgripi og varalit. Hún var líka algjör sólarkona, elskaði að sitja úti í sólinni og var sólbrún og sæt allan ársins hring.

Amma verður alltaf efst í huga mér og ég lofa að dóttir mín og framtíðarbörnin mín munu alltaf þekkja ömmu og sögurnar hennar. Ég veit að við eigum eftir að hittast aftur en ég er viss um að þangað til mun hún vaka yfir og vera hjá okkur á bæði stórum og litlum augnablikum.

Amma kallaði mig alltaf engilinn sinn en núna er hún fallegasti engillinn minn og okkar fjölskyldunnar.

Bjarney Helga.

Er sárasta sorg okkur mætir

og söknuður huga vorn grætir

þá líður sem leiftur af skýjum

ljósgeisli af minningum hlýjum.

(HJH)

Mig langar að minnast elsku Böddu móðursystur minnar sem féll frá 16. júní síðastliðinn. Þær voru bara tvær systurnar, Badda og mamma mín hún Jóna, og bara tvö ár á milli þeirra. Voru þær því alla tíð mjög nánar og mikill samgangur milli fjölskyldna þeirra systra. Ég var svo heppin að fá að vera mörg sumur barnæskunnar í dekri og góðu yfirlæti hjá Böddu og ömmu Helgu á Skagabrautinni. Badda reyndist mér alltaf einstaklega vel og sinnti mér eins og væri ég hennar dóttir.

Badda frænka var góð manneskja, hún var glaðlynd, hjartahlý, ósérhlífin, örlát, vinnusöm og einstök dugnaðarkona. Hún var alltaf tilbúin að rétta hjálparhönd og aðstoða aðra allt sitt líf, en átti sjálf erfitt með að þiggja aðstoð. Badda hugsaði vel um sitt fólk og var góð heim að sækja. Hún tók vel á móti öllum og passaði upp á að alltaf væri boðið upp á eitthvað gott með kaffinu, enda var oft gestkvæmt á Skagabrautinni.

Missir elsku Kalla, Lilju og Bjarneyjar Helgu er mikill og samúð mín er hjá þeim. Þau, litla fjölskyldan, voru svo náin og áttu svo gott samband. Þau Kalli, Lilja og Bjarney Helga voru öll svo einstaklega dugleg að sinna mömmu sinni og ömmu. Hugsuðu svo vel og fallega um hana sem gerði henni kleift að búa heima þegar heilsan fór að gefa sig. Veit ég að fyrir það var Badda þakklát.

Þegar ég nú kveð Böddu mína er mér efst í huga þakklæti fyrir alla hlýjuna, væntumþykjuna, brosið og hjálpsemina. Takk fyrir allt elsku Badda frænka, minning þín er ljós í lífi okkar allra.

Helga María.

Badda var stór partur af mínu lífi og allrar minnar fjölskyldu alla tíð og fyrir það er ég afskaplega þakklát.

Hún var bara 12 ára þegar hún byrjaði að passa Möttu stóru systur mína á Vesturgötunni. Hún bjó með foreldrum sínum og Jónu systur sinni hinumegin við götuna – fyrst í Halldórshúsi sem stóð við hliðina á Bíóhöllinni og síðan í Frón.

Helga mamma Böddu og systurnar báðar – Badda og Jóna voru allar þrjár viðloðandi heimilið okkar árum og áratugum saman en Badda mest. Vegna mannkosta Böddu leituðu foreldrar mínir alltaf fyrst til hennar þegar eitthvað stóð til - og síðar þegar mamma og pabbi fóru í lengri eða styttri ferðalög var Badda fengin til að passa okkur börnin og sjá um stóra heimilið.

Badda reyndist mér sérstaklega vel þegar ég eignaðist kornung mitt fyrsta barn. Hún stóð með mér gegnum súrt og sætt og varð mér ómetanlegur stuðningur. Hún sem hugsaði oft um barnið þegar ég fór í skólann á morgnana.

Það má kannski segja að hún hafi reynst mér eins og önnur móðir eða fóstra. Hún kenndi mér að elda mat, baka, sauma, þrífa og svo margt fleira sem hefur nýst mér svo vel allt lífið.

Badda var vandvirk, svakalega dugleg og vinnusöm og starfaði við allt mögulegt á langri ævi. Hún fór í síldarsöltun á Siglufjörð og í Neskaupstað þegar hún var ung kona, og um tíma var hún með símakörlum á fjöllum, bjó í tjaldi og sá um mat fyrir vinnuflokkinn.

Hún eignaðist börnin sín tvö og ól þau upp að mestu ein með hjálp mömmu sinnar og vann í fiski stærstan hluta ævinnar.

Badda var skemmtileg og hafði ótrúlega góða nærveru. Það var alltaf meira gaman þegar Badda var nálægt.

Badda var yfir og allt um kring, fylgdi mér og mínum alla tíð – og Helga mamma hennar líka. Hún var okkur öllum í fjölskyldunni mjög kær og hennar er og verður sárt saknað.

Ég fékk að vera hjá elsku Böddu þegar hún kvaddi og fyrir það verð ég ævinlega þakklát.

Takk fyrir allt, þín

Rannveig (Ranný).

Það togast á sorg og gleði við fréttir af andláti Bjarneyjar Gunnarsdóttur, Böddu. Sorg að komið sé að leiðarlokum og gleði yfir kærleik og gestrisni sem ég naut af hennar hendi. Ég kynntist fólkinu á Skagabrautinni í gegnum þær frænkur Helgu Maríu og Lilju en vináttan teygði sig tryggt inn í fjölskyldur okkar líka og oft glatt á hjalla þegar leiðir lágu saman. Ég var svo heppin að eiga oft leið um Skagann vinnu minnar vegna hér áður fyrr og þá kom ekki til greina annað en að koma við á Skagabrautinni, þiggja kaffi og yfirleitt eitthvað miklu meira, bæði hjá Helgu á húsfreyjudögum hennar og síðar hjá Böddu og Kalla. Þótt vinnuferðirnar hafi lagst af hafa innlit á S26 alltaf átt sinn sess hvort sem leið lá upp á Akranes eða lengra vestur. Gestrisni fjölskyldunnar er ekki í neinu hlutfalli við húsrými því þótt fermetrarnir séu ekki margir vegur hjartarými það upp og alltaf pláss fyrir einn til. Badda er í mínum huga ímynd hinnar sterku íslensku konu, ól sín tvö börn upp ein með stuðningi Helgu ömmu, vann erfiðisvinnu og sinnti aukavinnu líka, kvartaði ekki og sinnti fólkinu sínu sem og óskyldum vel fram á síðasta dag. En það er ekki í anda Böddu að mæra hana endalaust, þótt ég búist nú við að fleiri hafi svipaða sögu að segja, svo að lokum sendi ég Kalla, Lilju, Bjarneyju Helgu, Axel og öðrum ættingjum og vinum innilegustu samúðarkveðjur og þakka Böddu góð og gefandi kynni.

Sigrún Björg Þorgrímsdóttir.

Fyrstu kynni okkar af Böddu voru þegar foreldrar mínir Helga Pétursdóttir og Páll Guðmundsson leigu íbúð í Fróni við Vesturgötu á Akranesi þegar pabbi réð sig sem skipstjóri á síldveiðibát frá Akranesi. Í íbúðinni á móti okkur bjó Badda með sína fjölskyldu. Þarna hófst ævilangt vinasamband sem dafnaði með hverju ári.

Eftir að við fluttum aftur til Reykjavíkur komu Badda, Kalli og Lilja oft í heimsókn til okkar á Meistaravelli og var það mikil tilhlökkun hjá okkur fjölskyldunni að fá þau í heimsókn og því fylgdi mikil gleði og gaman.

Þegar ég var á sjöunda ári leigðu pabbi og mamma ásamt Böddu íbúð í Neskaupstað, en á þeim tíma var síldin eingöngu veidd fyrir austan. Pabbi var á sjónum en Badda vann við að salta síld enda hörkudugleg til allra verka. Mamma með allan barnaskarann heima og því mikið að gera hjá henni. Ég minnist þessa mikla frjálsræðissumars sem fallegs og bjarts eins og þau gerast best á Austurlandi.

Árið 1981 fluttu ég og maðurinn minn Helgi Þórisson til Akraness, en hann hafði fengið vinnu sem útgerðarstjóri hjá Krossvík sem gerði út togara með sama nafni. Badda varð okkur mikill stuðningur og nutum við góðs af að eiga hana að þegar við kornung vorum að flytja í bæjarfélag sem við þekktum ekkert til. Við hjónin bjuggum á Akranesi í þrjú ár eða til ársins 1984.

Að heimsækja Böddu og fjölskyldu á Skagabrautina var alltaf mjög gaman og ýmis mál rædd, því hún hafði svo mikinn áhuga á öllu sem aðrir voru að gera. Hún tók ávallt vel á móti fólki og bar fram ýmsar kræsingar svo að minnti helst á fermingarveislu.

Nú er komið að leiðarlokum og minnumst við Böddu með miklum hlýhug og þökkum fyrir tryggð og alla aðstoð sem hún veitti okkur.

Elsku Kalli, Lilja, Bjarney Helga og Axel, við vottum ykkur okkar dýpstu samúð. Blessuð sé minning góðar konu.

Sigríður og Helgi.