Ragnar Eðvaldsson fæddist á Garðstöðum í Vestmannaeyjum 1940. Hann andaðist á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 10. júní 2024.

Foreldrar Ragnars voru Eðvald Valdórsson frá Reyðarfirði, f. 1912, d. 1942, og Ágústa Helga Jónsdóttir frá Vestmannaeyjum, f. 1917, d. 2008.

Ragnar kvæntist 19. nóvember 1960 Ásdísi Guðrúnu Þorsteinsdóttur frá Keflavík, f. 12. mars 1942. Börn Ragnars og Ásdísar eru: 1) Helga, f. 1961, gift Óskari Herberti Þórmundssyni, f. 1950. Börn Helgu eru Ásdís Ragna Einarsdóttir, f. 1979, sem á þrjú börn og Bjarni Þór Einarsson, f. 1982. Börn Óskars eru Hólmfríður Þóra, f. 1971, sem á þrjú börn, Þorkell Jósef, f. 1972, sem á þrjú börn, Þorbjörg Magnea, f. 1975, sem á einn son og Óskar Björn, f. 1989. 2) Steina Þórey, f. 1964, d. 2023, gift Helga B. Eðvarðssyni, f. 1957. Synir þeirra eru Ragnar Björn, f. 1985, sem á tvö börn, og Veigar Þór, f. 1993, sem á einn son. 3) Anna Margrét, f. 1966, í sambúð með Mark Goworowski. Dætur Önnu eru Stefanía Ósk Óskarsdóttir, f. 1999, og Una Kristín Óskarsdóttir, f. 2004. 4) Eðvald, f. 1977, kvæntur Guðrúnu Hrafnkelsdóttur, f. 1975. Börn þeirra eru Thelma Rún, f. 2002, Ragnheiður Steina, f. 2009, og Ásdís Bára, f. 2006. Sonur Guðrúnar er Helgi Bernódus Helgason, f. 1994, sem á eina dóttur. 5) Jóna Birna, f. 1978, gift Unnari Stefáni Sigurðssyni, f. 1975. Börn þeirra eru Eiður Snær, f. 1997, Rakel Rán, f. 2006, og Bóas Orri, f. 2008.

Ragnar fluttist með móður sinni til Keflavíkur eftir að faðir hans hafði farist með línuveiðaranum Sæborgu EA 383 haustið 1942. Árið 1948 giftist móðir hans Guðmundi Lúðvík Jónssyni, f. 1916, d. 2005, bifreiðarstjóra í Keflavík. Ragnar ólst upp í Keflavík hjá móður sinni og fóstra Lúðvík Jónssyni (Lúlla Dóru). Lúðvík var ekkjumaður og átti fyrir eina dóttur, Elísabetu, f. 1939. Helga og Lúðvík eignuðust einn son, Eðvald Jens, f. 1954. Ragnar gekk í skóla í Keflavík og síðan í Menntaskólann á Laugarvatni. Þá lá leiðinn í Iðnskólann í Reykjavík, þar sem Ragnar hóf nám í bakaraiðn og lauk sveinsprófi 1963 og meistarabréf fékk hann 1966. Ragnar lærði iðnina hjá móðurbróður sínum, Sigurði Jónssyni bakarameistara, en sótti síðan frekara nám í greininni til Sviss árið 1963.

Ragnar hafði mikinn áhuga á tónlist og spilaði meðal annars með skólahljómsveit Keflavíkur, lúðrasveit Keflavíkur, lúðrasveitinni Svan í Reykjavík og hljómsveitinni Tónum. Ragnarsbakarí var vettvangur hjónanna Ragnars og Ásdísar. Ragnar var brautryðjandi og frumkvöðull á mörgum sviðum bakaraiðnar á Íslandi og segja má að allir Íslendingar hafi þekkt hina vinsælu Ragnars-botna og rúllutertubrauð. Ragnar var virkur í félagsmálum og sat meðal annars í stjórn Björgunarsveitarinnar Stakks í Keflavík og var formaður Landssambands bakarameistara. Þá var hann einn af stofnendum frímúrarareglunnar Sindra í Keflavík.

Útför Ragnars fer fram frá Keflavíkurkirkju í dag, 27. júní 2024, og hefst athöfnin kl. 13.

Í sjálfum Bítlabænum ólst upp Eyjapeyi sem var fyrir okkur pabbi, afi eða tengdó. Í okkar minni er pabbi var ekki einungis bakari, heldur frumkvöðull. Hann kom með nýjungar í bakaraiðninni, innleiddi nýjar tegundir af ýmsu góðgæti sem við fengum reglulega að bragða. Mamma og pabbi unnu ávallt vel saman og hlutverk þeirra í bakaríinu skýr og vel skipulögð. Á okkar fullorðinsárum má segja að bakaríið hafi verið þeirra annað heimili eða Röstin fyrir pabba, að dunda í gráa trukknum.

Pabbi var ekki bara bakari og frumkvöðull, hann var vinur, ráðgjafi, sögumaður sem hafði djúpan skilning fyrir mikilvægi fjölskyldunnar, sem hann var svo óendanlega stoltur af.

Hann kenndi okkur mikilvægi þess að þora að takast á við stóru verkefnin í lífinu með elju og dugnaði að leiðarljósi. Hann sáði fræjum sem munu vaxa og dafna í hjörtum okkar, minning hans mun lifa áfram í hverri sögu sem við segjum um hann.

Hans hlýja bros bar vott um umhyggju, stutt í glens og gaman. Ógleymanlegar stundir í Dölunum með gítarinn við hönd, þar sem slegið var á strengi og gömul íslensk dægurlög sungin, sem gladdi börnin mikið. Raggi afi var ávallt tilbúinn að setjast niður og rifja upp sín æskuár, börnunum til ómældrar gleði. Sjá fyrir sér hina gömlu tíma í Keflavík, hvernig samfélagið hefur breyst með tímanum. Afagull, gleymist seint úr minningu okkar og mun lifa um ókomna tíð.

Við vitum að það verður tekið vel á móti þér handan þokunnar miklu. Kveðjum þig með þakklæti og virðingu. Þú varst ljós í lífi okkar. Hvíldu í friði elsku pabbi, afi og tengdó.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama.

En orðstír

deyr aldregi

hveim er sér góðan getur.

(Úr Hávamálum)

Jóna Birna Ragnarsdóttir og fjölskylda.

Það eru ekki allir svo heppnir að eiga stóra og samheldna fjölskyldu. Það var þér mikið í mun að allir væru sáttir og þú lagðir mikið upp úr því að rækta fjölskylduböndin. Þú spurðir mikið út í barnabörnin og fylgdist vel með því sem allir voru að gera. Þú hafðir einkar gott lundarfar og varst alltaf svo jákvæður. Það voru alltaf til lausnir við öllu.

Það er óhætt að segja að þú hafir verið mikill frumkvöðull og athafnamaður, langt á undan þinni samtíð enda rakst þú fimmta stærsta matvælafyrirtæki landsins á tímabili. Atorkusemin kom bersýnilega í ljós strax þegar þú kláraðir bakaranámið í Reykjavík hjá Sigga móðurbróður þínum, en þá hélduð þið mamma og Helga systir út til Sviss og Danmerkur þar sem þú aflaðir þér frekari menntunar og reynslu og kynntist þar nýjungum og vinnsluaðferðum sem voru lítt þekktar hér heima. Þú varst nýjungagjarn og ófeiminn við að framkvæma og láta hugmyndir þínar verða af veruleika.

Þið mamma voruð dugleg að ferðast allt frá því þið voruð ung enda er varla til sá staður á landinu sem þið hafi ekki ferðast til. Við systkinin nutum góðs af því og voru þeir nokkrir vetrartúrarnir sem þú tókst mig með í, þeir voru alltaf skemmtilegir og ævintýralegir.

Ég er svo þakklátur fyrir allt sem þú hefur kennt mér, allt frá því að múra og mála yfir í að gera við hina ýmsu hluti svo ekki sé nú talað um vinnusemi og að koma almennt vel fram, bera virðingu fyrir náunganum og umhverfinu, sem þú gerðir ávallt enda vinamargur og vel liðinn af öllum. Við systkinin unnum öll í bakaríinu á einhverju tímabili, og þar lærðum við að bera okkur að og leggja okkur fram, reynsla sem ég bý að enn þann dag í dag.

Með þakklæti í hjarta kveðjum við þig, elsku pabbi. Þú varst okkur fyrirmynd í öllu sem þú gerðir og við munum ætíð geyma minningarnar um þig í hjörtum okkar. Þú gafst okkur styrk, kærleika og visku sem mun lifa áfram með okkur. Megir þú hvíla í friði.

„Í ljósi Guðs skal leiðin okkar liggja, og í faðmi hans skalt þú hvíla. Þar sem er enginn grátur, engin kvöl, bara friður og eilíf ást.“

Eðvald Ragnarsson.

Mig langar að þakka elsku pabba fyrir okkar samveru á þessari jörðu. Pabbi var mín fyrirmynd í svo mörgu. Ég byrjaði snemma að fá að hjálpa til í bakaríinu og vinna, þar kenndi hann mér að mæta á réttum tíma og vera rösk, engan roluskap þegar var verið að setja glassúr á snúðana, setja pulsubrauð í poka, taka til í pantanir og að vera vingjarnleg og kurteis við kúnnana þegar ég var að afgreiða í búðinni. Hann sagði oft "kúnninn hefur alltaf rétt fyrir sér“.

Þó pabbi hafi unnið mikið og ekki alltaf verið heima gat hann alltaf aðstoðað við heimalærdóminn. Þakka ég sérstaklega að vera alin uppi á fjöllum eins og ég segi oft. Jeppaferðirnar sem farnar voru fyrst á "Súðinni“, breyttum og bættum bíl að pabba hætti. Farið var á fjöll, yfir ár og vetrarferðirnar, maður minn, að fá að sjá landið, hálendið, í allri sinni dýrð. Á meðan vinkonurnar fóru til útlanda fórum við fjölskyldan um hálendið hvort sem var um vetur eða sumar. Á þessu græddu vinkonurnar líka og fengu gjarnan að fara með. Mér finnst í dag þetta hafa vera forréttindi að hafa upplifað landið á þennan hátt. Pabbi var frumkvöðull og ég sagði oft við hann: "Pabbi, af hverju varstu ekki uppfinningamaður, mamma græjar uppskriftirnar." Þau, reyndar í sameiningu, hönnuðu og gerðu margt. Sem dæmi voru rúllutertubrauðin mömmu hugmynd og pabbi útfærði brauðið og vélina til að skera þau. Því miður eignaði hann sér ekki þessa hugmynd né fékk einkaleyfi á henni en Ragnars-rúllutertubrauðið lifir enn.

Pabbi var alltaf í góðu skapi og alltaf til í geim, var hvers manns hugljúfi og alltaf mættur til að aðstoða okkur börnin þegar þess þurfti, við vorum honum allt, mamma náttúrulega í fyrsta sæti, hann dáði hana og dýrkaði enda dásamleg manneskja, talar fólk um þau í eintölu. Missir mömmu er mikill og munum við halda vel utan um hana og höldum áfram að koma saman í nafni þeirra sem farin eru.

Far í friði elsku pabbi með þökk fyrir að vera sá sem þú varst.

Eitt af gullunum þínum

Helga Ragnarsdóttir

Elsku yndislegi pabbi, ótrúlegt að þú ert farinn svona snöggt. En þú varst dýrlingur af manni að vera, alltaf geðgóður, réttsýnn og alltaf hægt að leita ráða hjá þér. Þú hlustaðir alltaf, sagðir aldrei að maður gæti ekki gert hitt eða þetta sem maður bar upp við þig. Framan af varstu náttúrulega mikið að heiman þar sem bakaríið var í fullum gangi en þú varst líka iðinn við að endurbyggja bíla og vera í ferðalögum í þínum frítíma þar sem við fengum náttúrulega að koma með og eyða tíma saman sem fjölskylda í ferðalögunum yfir hálendið, sem fáir komust á þeim tíma, sem er hreinlega ógleymanlegt. Og alls kyns ævintýrin sem lent var í og oft eru rifjuð upp.

Þú varst foringi og frumkvöðull mikill, einnig varstu mjög listrænn og kom það fram í skreytingum á kökunum þínum. Þú varst alltaf svo ánægður með þína og sagðir alltaf þegar allir voru saman komnir hvað þú værir þakklátur og sagðir alltaf að þetta væri þitt fólk, ef það væri ekki vegna hans þá væri þessi hópur ekki til.

Alltaf varstu ánægður þegar ég kom í heimsókn frá USA, Arizona, með litlu stelpurnar mínar og vildir alltaf að við stoppuðum lengur við. Ég er líka þakklát fyrir hvað þú tókst mínum nýja manni vel, enda eruð þið líkir á margan hátt.

Elsku pabbi hvíl í friði, þó svo þetta var snöggt, þá var líkaminn þinn orðin lúinn. Kveðja frá okkur, börnunum þínum, í Arizona.

Anna og fjölskylda.

Með þessum fáu orðum kveð ég kæran tengdaföður minn, Ragnar bakara, eins og hann var ávallt kallaður. Hvar á að bera niður í minningunni um einstakan mann? Bakarann, jeppamanninn, eldhugann, hugvitsmanninn, frumkvöðulinn, tónlistarmanninn, flugáhugamanninn, já eða fjölskyldumanninn. Fjölskyldan var honum mikils virði og varla leið svo dagur að hann nefndi ekki hvað hann væri stoltur af öllum sínum stóra barnahópi, sem hann kallaði gullin sín.

Með Ragnari er genginn merkur Keflvíkingur og Suðurnesjamaður sem setti mark sitt á samfélagið bæði sem einstaklingur og atvinnurekandi. Heiðarlegur, traustur og skemmtilegur maður, en hans verður samt ekki minnst án þess að nefna tengdamóður mína hana Ásdísi á nafn, því svo samrýmd voru þau bakarahjónin. Missir tengdamömmu er mikill.

Það er ótrúlegt hvað Ragnari var margt til lista lagt og ber þá að nefna hin vinsælu Ragnars-rúllutertubrauð sem hann hannaði og bakaði og Íslendingar þekkja svo vel. Einnig hannaði hann vélar, bíla, tæki og tól og allt lék í höndunum á honum.

Hann var hrókur alls fagnaðar með gítarinn í fjalla- og útileguferðum. Hann var léttur í lund, en ákveðinn þegar þess þurfti, enda í mörg horn að líta við rekstur stórs vinnustaðar, sem Ragnarsbakarí var. Takk fyrir samfylgdina kæri tengdó.

Þinn tengdasonur,

Óskar Herbert Þórmundsson.

Elsku afi, við munum alltaf halda mikið upp á allar æskuminningarnar í bakaríinu og heimsóknirnar til ykkar ömmu þar sem þú sagðir okkur frá öllum ferðalögunum sem þú elskaðir að fara í á húsbílnum á sumrin, bransasögurnar og að spjalla um lífið og tilveruna. Áhugasemin sem þú sýndir alltaf var það sem einkenndi þig og stoltið þitt af okkur sem þú varst óhræddur við að tjá við okkur, gullin þín.

Vertu nú yfir og allt um kring með eilífri blessun þinni, elsku afi.

Helgi B. Helgason, Thelma Rún Eðvaldsdóttir, Ásdís Bára Eðvaldsdóttir, Ragnheiður Steina Eðvaldsdóttir.

Fyrir 27 árum breyttist líf mitt þegar ég kynntist eiginmanni mínum og honum fylgdi stór fjölskylda. Hjónin Ásdís og Ragnar hafa búið börnum sínum einstaklega gott og kærleiksríkt uppeldi. Fjölskyldan er samheldin og nýtir hvert tækifæri til að sameinast. Ragnari þótti einstaklega vænt um það hve allir voru góðir vinir og hann var svo stoltur af sínu fólki.

Það sem hjónin gera einstaklega vel er að allir fá alltaf jafnt hjá ömmu og afa, enginn skilinn út undan og enginn fær meira en hinir. Ragnar kallaði mig uppáhaldstengdadótturina, en það var í lagi, þar sem ég var jú eina tengdadóttirin. Við áttum náið og gott samband og ófá símtölin sem ég fékk til að laga hin og þessi mál tengd tækninni.

Barnabörnunum sýndi Raggi mikinn áhuga, vildi vita hvernig gekk í skóla, vinnu og lífinu almennt. Afi sagði líka sögur úr æskunni, sem börnunum þótti gaman að heyra. Alltaf gaf hann sér tíma til að spjalla um lífið og tilveruna.

Ég er þakklát fyrir tímann og samveruna, spjallið og þögnina, húmorinn og alvarleika lífsins. Ég verð Ragga alltaf þakklát fyrir allt það sem hann gaf okkur.

Hér við skiljumst

og hittast munum

á feginsdegi fira;

drottinn minn

gefi dauðum ró,

hinum líkn, er lifa.

(Úr Sólarljóðum)

Þar til við hittumst aftur ... hafðu þakkir fyrir allt og allt. Við pössum upp á Ásdísi þína fyrir þig.

Guðrún Hrafnkelsdóttir.

Maður veit ekki hvar maður á að byrja en það er einhvers staðar uppi á fjöllum. Kannski í leit uppi í Bláfjöllum ásamt Árna Óla eða í brjáluðu veðri austur í Öræfasveit um páska en það skiptir ekki máli því að minningarnar eru þarna sama hvert litið er.

Við Raggi kynntumst í gegnum sameiginleg áhugamál, bíla og fjöll. Við rákum einnig sameiginlega sendibíl um tíma, skreyttan af Sævari Helga, merktan Ragnarsbakaríi á annarri hlið og Garðarshólma á hinni. Báðir fórum við snemma út í fyrirtækjarekstur innblásnir af bjartsýni og orku hins unga manns og báðir máttum við reyna erfiða glímu við umhverfi hafta og þröngsýni. Ragnarsbakarí varð þjóðþekkt fyrir gæðaframleiðslu og nýjungar í markaðssetningu. Ragnar og Ásdís stýrðu því með glæsibrag til fjölda ára. En það fer ekki allt eins og maður vildi helst og þá reynir á gæði manneskjunnar. Ragnar var gæddur jákvæðni og bjartsýni hins duglega manns sem bognaði en brotnaði ekki við mótlæti svo að hann og Ásdís fundu sinn sess á nýjan leik. Er ég ferðaðist með Hringförunum á Víponinum mínum um fjöll og firnindi eignaðist Raggi frambyggðan rússajeppa sem hann nýtti vel til fjallaferða með Gunna Matt og Kalla Sævar og þar lágu leiðir okkar snemma saman. Svo datt okkur í hug að stofna björgunarsveit árið 1968 sem lifir enn.

Við vorum saman í lúðra- og danshljómsveit en í seinni tíð höfum við aðallega leikið á gítar í kvöldvökum til fjalla. Þegar Raggi eignaðist Chevy Suburban fékk ég einn slíkan, en síðan fékk Raggi einn flunkunýjan og það var á þeim bílum sem við fórum í ökuferð til Grunnavíkur í Jökulfjörðum, næst voru það „Travelall“ scout-jeppar og svo komu Fordarnir okkar. Í fyrstu vetrarferðinni var Raggabíll í spotta allan túrinn sem var óviðunandi, punktur. Bíllinn tekinn í nefið og ekki hætt fyrr en kominn var flottasti fjallabíll þeirra tíma með öllu tilheyrandi. Ekki má gleyma að í millitíðinni, svona inn á milli bíla, eignuðumst við Raggi ásamt nokkrum félögum okkar tvo snjóbíla til vetrar- og jöklaferða meðan þeirra naut við.

Leiðir okkar lágu einnig saman er hann keypti ásamt Karli Sævari húsgagnaverslun mína í Keflavík. Ég minnist þorrablótanna árum saman í Básum eða Hólaskógi og 1313-ferðahópsins sem starfaði í 40 ár þar sem Ragnar og Ásdís voru fremst í flokki. Mér finnst erfitt að rita kveðjuorð um mann sem ég hef átt svona langa og ánægjulega samleið með. Ég er þakklátur fyrir þau áhrif sem hann og félagar hans þeir Gunni Matt og Kalli í street höfðu á mig um ferðalög til fjalla en þau vara enn. Ég er einnig þakklátur honum og Ásdísi fyrir að hafa reynst mér, Huldu og Öllu svona góðir vinir í gegnum lífið og tekið þátt í gleði okkar og sorg. Ég ætla einnig að leyfa mér að þakka Ragga fyrir hönd eldri félaga í Björgunarsveitinni Stakk fyrir starfið og gleðina sem við upplifðum með honum og svo erum það við gamlingjarnir í 1313-ferðahópnum, hvar hefðum við verið án þín Raggi?

Við Alla sendum Ásdísi og börnum innilegar samúðarkveðjur.

Garðar Sigurðsson og Aðalheiður Jónsdóttir.

Þegar við systur minnumst Ragnars frænda þá er það efst í huga okkar hvað hann var alltaf elskulegur við okkur. Það var alltaf gott að koma til þeirra heiðurshjóna Ragnars og Ásdísar og kom maður aldrei að tómum kofanum hjá þeim, alltaf tekið svo vel á móti okkur svo við tölum nú ekki um bakkelsið sem bakarahjónin voru rómuð fyrir. Ragnarsbakarí á stóran sess í huga okkar systra þar sem við stigum okkar fyrstu skref á vinnumarkaðnum og hefur sú reynsla nýst okkur vel út í lífið.

Ragnari frænda var margt til lista lagt, snilldarbakari og ekki var veisla í fjölskyldunni án þess að leitað væri til þeirra hjóna. Hann var liðtækur á gítarinn og var alltaf glatt á hjalla á mannamótum þegar gítarinn var með í för og ekki skemmdi fyrir ef „Bragakaffi“ var við höndina, þá var mikið sungið og skemmt sér. Einnig var hann liðtækur á hljómborð og spilaði fyrir okkur á það þegar dóttir einnar okkar var skírð. Við minnumst einnig að hafa heyrt hann spila á harmonikku, já honum var sko margt til lista lagt. Þau hjónin voru alltaf boðin og búin að hjálpa í einu og öllu og viljum við systur þakka kærlega fyrir það.

Elsku frændi, við systur minnumst þín með hlýju í hjarta og yljum okkur við góðar minningar.

Elsku Ásdís, börn, tengdabörn, barnabörn og barnabarnabörn, ykkar missir er mikill og biðjum við algóðan guð að styrkja ykkur á þessum erfiðu tímum.

Ástarkveðja,

Guðrún, Jenný og Helga Ágústa Eggertsdætur.