Afmælisbarnið Kristrún hefur haldið fjölmarga fyrirlestra um sjálfbærni.
Afmælisbarnið Kristrún hefur haldið fjölmarga fyrirlestra um sjálfbærni.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kristrún Tinna Gunnarsdóttir er fædd 27. júní 1984 í Reykjavík og ólst upp á Tómasarhaga í Vesturbænum til 5 ára aldurs og svo í Smáíbúðarhverfinu.

Kristrún Tinna Gunnarsdóttir er fædd 27. júní 1984 í Reykjavík og ólst upp á Tómasarhaga í Vesturbænum til 5 ára aldurs og svo í Smáíbúðarhverfinu.

Hún fór í fimm ára bekk í Ísaksskóla en gekk svo í Hvassaleitisskóla 1.-10. bekk. Þaðan lá leiðin í Verzló og svo í hagfræði í HÍ þaðan sem hún útskrifaðist með B.Sc. gráðu vorið 2007. Kristrún er einnig löggiltur verðbréfamiðlari.

Kristrún flutti til Svíþjóðar haustið 2009 og stundaði mastersnám í hagfræði við Stockholm School of Economics (SSE) 2009-2011 og hlaut þar verðlaun fyrir hæstu einkunn á sinni braut og fyrir besta lokaverkefnið. Kristrún er einnig með masters gráðu í alþjóðastjórnun (MiM) frá sama skóla og ESADE-háskólanum í Barcelona.

Að loknu námi hóf Kristrún störf hjá alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækinu Oliver Wyman í Stokkhólmi þar sem hún starfaði um árabil fyrir margar af helstu fjármálastofnunum heims – mest á Norðurlöndunum, en líka í verkefnum víðar í Evrópu, á Barbados í Karíbahafinu og í Barein í Mið-Austurlöndum.

Kristrún varð áberandi á Íslandi í kjölfar þess að hún var fengin til setu í starfshópi um Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið haustið 2018. Þar gegndi Kristrún lykilhlutverki í stefnumótun og vinnu við Hvítbókina sem gefin var út á vegum Fjármálaráðuneytisins og mikið hefur verið vísað til síðan.

Kristrún flutti heim til Íslands til að vinna að Hvítbókinni og hóf í kjölfarið störf hjá Íslandsbanka þar sem hún hefur verið forstöðumaður stefnumótunar og sjálfbærni frá 2019. Bæði hjá Íslandsbanka sem og í stjórnarstörfum hefur Kristrún getið sér sérlega gott orð og verið eftirsótt fyrir vinnu sína á sviði sjálfbærni en Íslandsbanki hefur verið í forystu í málaflokknum og hlotið ýmsar viðurkenningar á sviði sjálfbærni frá því að hún tók við stjórn á sjálfbærnimálunum. Sem dæmi má nefna þekkingarverðlaun Félags viðskipta- og hagfræðinga (FVH) fyrir árangur á sviði sjálfbærrar þróunar og Kuðunginn, viðurkenning á vegum umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins fyrir framlag til umhverfismála.

„Allan minn feril hef ég haft áhuga á fjármálakerfinu vegna þess að fjármagn getur verið svo sterkt hreyfiafl til góðra verka. Með öflugri fjármögnun gerast góðir hlutir einfaldlega hraðar og bankar spila þannig lykilhlutverk í grænu iðnbyltingunni sem mun umbreyta samfélaginu á næstu árum og áratugum og gera hagkerfið okkar sjálfbærara, skilvirkara og öflugra á sama tíma. Ég hef sér í lagi haft áhuga á og sérhæft mig í skapandi verkefnum þar sem stefnumótun og sjálfbærni koma saman og ég sé ótal tækifæri á því sviði.“

Kristrún hefur setið sem sjálfbærnisérfræðingur í stjórn sænska matvælaframleiðandans Vitamin Well frá 2022 sem m.a. framleiðir drykkinn Nocco sem er ófáum Íslendingum góðkunnur.

„Ég hef ferðast mjög víða bæði tengt vinnu, sjálfboðastarfi og frístundum en ferðalög eru eitt mitt helsta áhugamál. Við fjölskyldan reynum að fara í a.m.k. eina ævintýraferð á hverju ári og þá helst til framandi landa. Í fyrra fórum við t.d. í frábærar ferðir til bæði Japan og Egyptalands og árið þar áður til Malaví, Sambíu og fleiri landa í Afríku sem var einstök upplifun. Mér reiknast til að ég hafi komið til yfir 60 landa og ég er þakklát fyrir að lifa á tímum þar sem er auðvelt og öruggt að ferðast næstum hvert sem er og kynnast fólki frá öllum heimshornum. Sú heimsálfa sem ég á þó alveg eftir er S-Ameríka en ég á eflaust eftir að kanna hana síðar.“

„Á árum áður spilaði ég fótbolta og ég hef verið dugleg að stunda hlaup og hef m.a. hlaupið Jökulsárhlaupið og ýmis víðavangs- og götuhlaup allt frá unglingsaldri. Segja má að hlaupin séu mín hugleiðsla og veit ég fátt betra til að hreinsa hugann.

Sjálfbærni og góðgerðarmál eru stór áhugamál hjá Kristrúnu og er hún virkur þátttakandi í sjálfboðastarfi því tengdu. Hún situr í stjórn Votlendissjóðs, ráðgjafaráði UN Global Compact á Íslandi og hefur tekið þátt í starfi samtakanna Áhrifarík umhyggja á Íslandi undanfarin ár, m.a. sem einn stofnenda og sem stjórnarmaður fyrsta starfsár félagsins.

„Ég er áhugakona um áhrifaríka umhyggju (e. effective altruism) – sem er alþjóðleg hreyfing sem beitir sér fyrir því að láta gott af sér leiða á sem skilvirkastan hátt. Ég hef í gegnum tíðina gefið bæði tíma og fjármuni til ýmissa góðra málefna og er t.d. mjög stolt af því að hafa, í samstarfi við sjálfboðaliða á Indlandi, stofnað, skipulagt og aflað fjármagns til örlánaverkefnis í Tamil Nadu héraði á Indlandi. Verkefnið, sem ber heitið Sunna, hefur veitt yfir 1.000 vaxtalaus lán til fátækra frumkvöðla og gert þeim kleift að fjárfesta í einföldum atvinnutækjum sem stórauka tekjur þeirra og hjálpa þeim að ná fjárhagslegu sjálfstæði. Yfir 80% lánþega Sunnu eru konur. Ég starfaði einnig sem sjálfboðaliði fyrir örlánafyrirtækið Kiva.org í San Francisco og Nairobi (Kenía) í 6 mánuði árið 2013 og byggði Sunnu-verkefnið að miklu leyti á þeirri ómetanlegu reynslu.“

„Ég hef líka mikinn áhuga á uppeldi en foreldrahlutverkið er í fyrirrúmi þessa dagana því ég nýt þeirra forréttinda að vera í fæðingarorlofi með þriggja mánaða son okkar Georgs, hann Huga Atlas sem er yndislegur í alla staði eins og stóru bræður hans þrír. Við fjölskyldan erum nýkomin heim úr vikufríi í Stokkhólmi þar sem við heimsóttum góða vini og héldum bæði upp á 17. júní og Midsommar, sem er hátíð sem Svíar hafa í hávegum og gaman er að upplifa í Svíþjóð.“

Fjölskylda

Eiginmaður Kristrúnar er Georg Lúðvíksson, f. 7.3. 1976, verkfræðingur og frumkvöðull, einn stofnenda Meniga. Þau eru búsett í Þingholtunum í miðbæ Reykjavíkur. Foreldrar Georgs eru hjónin Lúðvík Sigurður Georgsson, f. 19.12. 1949, verkfræðingur og fv. skólastjóri Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna, og Sonja Garðarsdóttir, f. 10.7. 1950, félagsráðgjafi. Þau eru búsett í Vesturbæ Reykjavíkur.

Börn Kristrúnar og Georgs eru Ari Lúðvík Georgsson, f. 22.2. 2020, og Hugi Atlas Georgsson, f. 29.3. 2024. Börn Georgs úr fyrra sambandi eru Ellert Kristján Georgsson, f. 30.10. 2001, verkfræðinemi í HR, og Valur Einar Georgsson, f. 21.2. 2006, nemi í MR.

Systkini Kristrúnar eru Jökull Viðar Gunnarsson, f. 26.11. 1989, viðskiptafræðingur, búsettur íReykjavík ásamt eiginkonu og tveimur börnum, og Elísabet Sunna Gunnarsdóttir, f. 6.4. 1999, verkfræðingur búsett í Stokkhólmi ásamt maka.

Foreldrar Kristrúnar eru hjónin Gunnar Viðar Bjarnason, f. 4.3. 1961, viðskiptafræðingur og framkvæmdastjóri, og María Elíasdóttir, f. 14.6. 1960, tannlæknir. Þau eru búsett í Ásunum í Garðabæ.