Ólafur Stefánsson segir svo frá á Boðnarmiði: …

Ólafur Stefánsson segir svo frá á Boðnarmiði: „Það rakst hingað heim maður sem sagði aðspurður að hann hefði séð um garða í Reykjavík á sinni tíð. Ég spurði þá hvort hann þekkti vísu Jónasar Árnasonar um útskipti birkis fyrir barrtré við göngustíg í borginni. Hann kvað nei við, en vildi heyra.

Fella þeir tré er Guð oss gaf,
græt ég þá fögru hlyni.
Nær væri' að höggva hausinn af
Hákoni Bjarnasyni.

Hann fór ekki fyrr en hann var búinn að læra vísuna og tilefnið.“

Gunnar J. Straumland skrifar: „Þegar ekki er hægt að kalla hlutina sínum réttu nöfnum, - þá er krúttað ... Gunnar yrkir síðan og kallar „Blessuð skrauthvörfin …“:

Bráðum við munum fá ofgnótt í arð.
Við ætlum að rækta hér vindorkugarð.
Það mun svo gefa okkur gullsjóð í mund
ef græðlinga setjum í vindorkulund.
Bólgna mun indælis aflandasjóður,
einkum ef græða má vindorkurjóður.
Og hvað þó að landið við leggjum að veði
ef lausafé ráfar í vindorkubeði?

Og hér er staka eftir Gunnar:

Einhversstaðar er nú log-
andi sól að rísa.
Hér er komin hógvær og
heimspekileg vísa.

Limra eftir Kristján Karlsson:

Ef þú keyrir tónskáld í klessu
meðan konan hans er við messu
myndi Jóhannes Brahmsi
ekki hitna í hamsi
eða hverjum sem er, út af þessu?

Limran Æfingarleysi eftir Davíð Hjálmar Haraldsson:

Hólmfríður Heiðdal á Engi
hafði ekki gert það svo lengi
að er tók hún á löpp
Lambert á Klöpp
lá hún í viku með strengi.

Úr fálkafréttum 2006 eftir Pál Jónasson í Hlíð:

„Hann glókollur nýbúinn netti
í nös dugar ekki á ketti,
svo hann ætti að fara
heim til sín bara,“
sagði fálkinn á Fagrakletti.

Limra eftir Magnús Óskarsson:

Ég vaknaði við það að deyja
og vil af því tilefni segja
þessi andlátsorð
fyrst á annað borð
ég þarf héðan í frá að þegja.

Brúðhjónavers eftir Leirulækjar-Fúsa:

Verði ykkur báðum vært og heitt,
Venus gleðina magni.
Liggið þið bæði langt og gleitt
svo limirnir komi að gagni.

Sigluvíkur-Sveinn orti um sjálfan sig:

Ég er mæddur, báli bræddur,
blárri klæddur skyrtu líns,
kaffibelgur, ólánselgur,
einnig svelgur brennivíns.

Símon Dalaskáld kvað:

Gott er að eiga góðan vin
í grimmu lífs andstreymi;
það er guðlegt geislaskin,
gjöf frá æðra heimi.



Öfugmælavísan:

Grjótið er hent í góða löð,
úr glerinu nagla smíða,
í hörðum strengjum helst eru vöð,
hundi er skást að ríða.



Halldór Blöndal (halldorblondal@simnet.is)