Ásgeir Trausti „Það er frábært að fara á alla þessa fallegu staði, kynnast landinu, hitta fólk og spila á tónleikum.“
Ásgeir Trausti „Það er frábært að fara á alla þessa fallegu staði, kynnast landinu, hitta fólk og spila á tónleikum.“
„Mig langaði til að gera þetta fyrst fremst vegna þess að þetta hefur verið svo gaman, en ég fór fyrst í tónleikaferð um landið árið 2018 og aftur í glufu sem gafst í covid-tíð árið 2020.“

Viðtal
Kristin Heiða Kristinsdottir
khk@mbl.is

„Mig langaði til að gera þetta fyrst fremst vegna þess að þetta hefur verið svo gaman, en ég fór fyrst í tónleikaferð um landið árið 2018 og aftur í glufu sem gafst í covid-tíð árið 2020. Þetta er gott tækifæri til að ferðast um landið og mér finnst alveg hægt að líta á þetta sem einhvers konar frí, það er frábært að fara á alla þessa fallegu staði, kynnast landinu, hitta fólk og spila á tónleikum á kvöldin,“ segir tónlistarmaðurinn Ásgeir Trausti, sem leggur í dag upp í tónleikaferðalag, en hann ætlar að spila á fjórtán tónleikum víðs vegar um landið. Ferðin hefst í kvöld með tónleikum á Landnámssetrinu í Borgarnesi. Yfirskrift ferðarinnar er Einför, enda verður Ásgeir einn á ferð.

„Í fyrri tónleikaferðunum var ég með annan gítarleikara og bakraddasöngvara með mér, svo það er nýtt að ég fari alveg einn, en ég verð með alls konar hljóðfæri með mér og ég met það á hverjum stað fyrir sig hvernig ég geri þetta. Mér finnst dýrmætt að spila á litlum stöðum og vera í þeirri nánd við tónleikagesti sem það skapar. Það skiptir gríðarlegu máli að sinna landsbyggðinni, en sjálfur ólst ég upp í mjög litlum bæ, á Laugarbakka í Húnaþingi, svo ég veit hversu þakklátt fólk er þegar tónlistarfólk heldur tónleika á fámennum stöðum, flestir í bænum mæta. Mér finnst mikilvægt að sinna landsbyggðinni, ekki aðeins fyrir fólkið sem þar býr, heldur líka fyrir mig og menningarstarf almennt, að tónleikahald sé ekki aðeins í Reykjavík,“ segir Ásgeir Trausti sem ætlar að sjálfsögðu að spila í sínum gamla heimabæ í þessari ferð, hann verður í félagsheimilinu Ásbyrgi á Laugarbakka þann 20. júlí. Einnig verður hann í þessari ferð með tónleika í fyrsta sinn í Básum í Þórsmörk.

„Það verður gaman, flott stemning sem myndast þarna, sýnist mér á myndum frá þeim sem hafa verið með tónleika þar. Ég mun líka spila á Hótel Flatey í Flatey á Breiðafirði, en þar verður frítt inn því staðarhaldarar standa fyrir tónleikahelgum allt sumarið og venjan hjá þeim er að rukka ekki inn, sem er frábært.“

Ætlar líka að frumflytja ný lög

Þegar Ásgeir er spurður hvaða lög hann ætli að spila í þessari tónleikaferð segist hann vera með um 25 lög sem hann velji svo úr hverju sinni sem hann komi fram.

„Ég hef lagt það í vana minn að syngja á íslensku á tónleikum hér heima, en reyndar eru örfá laga minna einvörðungu til á ensku og aldrei að vita nema ég grípi til þeirra. Ég verð með svipað lagaval og ég hef haft undanfarið, en ég fór á síðasta ári einn í tíu daga tónleikaferð um Norðurlöndin. GDRN hitaði upp með mér og við vorum með tónleika í Danmörku, Svíþjóð og Noregi. Síðan fór ég einn til Færeyja og tók þrjú gigg þar, sem var mjög gaman, en þetta var í fyrsta skipti sem ég spila mína eigin tónleika í Færeyjum, en ég hef spilað þar á tónlistarhátíðum áður. Í framhaldinu fór ég til Berlínar og spilaði í upptöku hjá sjónvarpsstöðinni ARTE, og í desember fór ég í Evróputúr. Ég hef því verið á flandri, en á þessu ári hef ég mest verið að vinna í stúdíói að nýju efni, sem er á íslensku. Ég mun klárlega frumflytja nokkur þeirra laga í tónleikaferðinni núna.“

Í góðu samstarfi við pabba

Þegar Ásgeir Trausti er spurður að því hvort pabbi hans, Einar Georg Einarsson, skrifi enn fyrir hann söngtextana segir hann svo vera, þótt í breyttri mynd sé.

„Okkar samstarf hefur aðeins breyst, en við erum í mjög góðu sambandi og erum bestu vinir. Við vinnum ennþá saman en þó í breyttri mynd. Oft sem ég núna lög við texta og ljóð eftir hann sem ég finn, en áður fyrr samdi ég alltaf lögin fyrst og hann textana eftir á. Svo er ég farinn að semja töluvert af textum sjálfur, en vinn líka ennþá með Júlíusi Róbertssyni,“ segir Ásgeir Trausti og bætir við að fram undan sé að gefa út um það bil tíu laga plötu á íslensku og aðra plötu á ensku, með öðrum lögum.

Einför

Ásgeir Trausti verður á eftirtöldum stöðum með tónleika í ferð sinni um landið í sumar:

27.6.: Landnámssetrið Borgarnesi

28.6.: Frystiklefinn Rifi

29.6.: Bíóhöllin Akranesi

30.6.: Básar Þórsmörk

01.07: Humarhátíð, hlaðan á Hala

02.7.: Bláa kirkjan Seyðisfirði

04.7.: Egilsbúð Neskaupstað

05.7.: Húsavíkurkirkja

07.7.: Félagsheimilið Blönduósi

09.7.: Edinborgarhúsið Ísafirði

11.7.: Hótel Flatey Flatey

19.7.: Sviðið Selfossi

20.7.: Ásbyrgi Laugarbakka

14.9.: Háskólabíó Reykjavík

Miðar fást á Tix.is

Höf.: Kristín Heiða Kristinsdótir