Fögnuður Rúmenar fögnuðu vel í Stuttgart eftir að hafa tryggt sér sigur í E-riðlinum á Evrópumótinu.
Fögnuður Rúmenar fögnuðu vel í Stuttgart eftir að hafa tryggt sér sigur í E-riðlinum á Evrópumótinu. — AFP/Javier Soriano
Úkraínumenn enda í fjórða sæti með 4 stig og markatöluna 2:4. Þeir urðu þar með að sætta sig við að falla úr keppni þrátt fyrir sigur gegn Slóvakíu og jafntefli gegn Belgíu.

EM í fótbolta
Víðir Sigurðsson
vs@mbl.is

Einhver ótrúlegasta niðurstaða í riðlakeppni á stórmóti í fótbolta leit dagsins ljós í gær þegar flautað var til leiksloka í tveimur síðustu leikjunum í E-riðli Evrópumóts karla í Þýskalandi.

Rúmenía og Slóvakía gerðu jafntefli, 1:1, í Frankfurt og á sama tíma gerðu Belgía og Úkraína markalaust jafntefli í Stuttgart.

Þar með urðu liðin fjögur öll jöfn að stigum í riðlinum með fjögur stig hvert.

Rúmenar standa uppi sem sigurvegarar með 4 stig og markatöluna 4:3, og mæta fyrir vikið liði sem hafnar í þriðja sæti í sínum riðli.

Belgar eru í öðru sæti með 4 stig og markatöluna 2:1 og þeir mæta engum öðrum en nágrönnum sínum Frökkum í sextán liða úrslitum keppninnar.

Slóvakar enda í þriðja sæti með 4 stig og markatöluna 3:3 og þeir mæta einu af sigurliðunum úr riðlunum.

Úkraínumenn enda í fjórða sæti með 4 stig og markatöluna 2:4. Þeir urðu þar með að sætta sig við að falla úr keppni þrátt fyrir sigur gegn Slóvakíu og jafntefli gegn Belgíu.

Sigur Rúmena á Úkraínumönnum, 3:0, í fyrstu umferðinni var því leikurinn sem mestu réð um lokaniðurstöðuna í þessum einstaka riðli.

Ondrej Duda kom Slóvökum yfir gegn Rúmenum á 24. mínútu í Frankfurt í gær en Razvan Marin jafnaði úr vítaspyrnu þrettán mínútum síðar, 1:1.

Úkraínumenn ógnuðu Belgum verulega á lokamínútunum í Stuttgart en allt kom fyrir ekki. Belgíska liðið slapp fyrir horn og Úkraínumenn hafa lokið keppni.

Lokaumferðin í F-riðlinum hófst um það leyti sem blaðið fór í prentun í gærkvöld. Þar höfðu Portúgalir þegar tryggt sér sigurinn með 6 stig en Tyrkir með þrjú stig, Tékkar og Georgíumenn með eitt stig hvorir börðust um annað og þriðja sætið.

Endanleg niðurstaða um hverjir mæta hverjum í 16-liða úrslitum lá ekki fyrir fyrr en að leikjum F-riðilsins loknum en sjá má hana á EM-vef mbl.is.