Afreksmaður Úlfar Jónsson var fyrst Íslandsmeistari 1986, þá 17 ára.
Afreksmaður Úlfar Jónsson var fyrst Íslandsmeistari 1986, þá 17 ára.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íslandsmót eldri kylfinga fer fram á Leirdalsvelli hjá Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar 27.-29. júní og eru samtals 125 kylfingar 50 ára og eldri skráðir til leiks. Þar á meðal er Úlfar Jónsson, sem var sex sinnum Íslandsmeistari.

Steinþór Guðbjartsson
steinthor@mbl.is

Íslandsmót eldri kylfinga fer fram á Leirdalsvelli hjá Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar 27.-29. júní og eru samtals 125 kylfingar 50 ára og eldri skráðir til leiks. Þar á meðal er Úlfar Jónsson, sem var sex sinnum Íslandsmeistari, fyrst 1986 á Hólmsvelli í Leiru, og keppir nú á Íslandsmóti eldri kylfinga í fyrsta sinn.

Landssamband eldri kylfinga, LEK, var stofnað 1985 og var Sveinn Snorrason fyrsti formaður. Gauti Grétarsson sjúkraþjálfari hefur verið formaður síðan 2020. „Um 24 þúsund spila golf innan Golfsambands Íslands og þar af eru yfir 12 þúsund 50 ára og eldri,” segir hann. Af þeim greiði tæplega eitt þúsund manns árgjald til LEK og styðji þannig við starfið.

Öflugt landsliðsstarf

Íslensk sveit tók í fyrsta sinn þátt í Evrópukeppni eldri kylfinga 1984, ári áður en LEK var stofnað, og hefur haldið uppteknum hætti síðan. Haldið er úti 50+ karla- og kvennalandsliðum, 55+ landsliði karla með og án forgjafar, 55+ landsliði kvenna og 65+ landsliði karla með og án forgjafar. Unnið er stofnun 65+ landsliði kvenna og 75+ landsliði karla.

Gauti segir að gengið hafi verið stígandi í erlendri keppni og minnir á að karlaliðið hafi orðið meistari á óopinberu Norðurlandamóti 50+ í apríl sem leið.

Mikil aukning hefur verið í fjölda golfiðkenda undanfarin ár. „Samfara sívaxandi fjölda hafa orðið miklar framfarir í greininni og það á líka við um eldri kylfinga,” segir Gauti. Í því sambandi bendir hann á að á stigamóti í Sandgerði um miðjan mánuðinn hafi níu eldri kylfingar spilað undir pari. „Það er besta skor á mótaröð eldri kylfinga frá upphafi,” segir hann.

Þess má geta að Gauti er 64 ára og með 1,5 í forgjöf, en hann hefur verið í A-liði 55+ undanfarin ár. „Menn æfa stöðugt meira og líkamlegt ástand eldri kylfinga fer batnandi,” leggur hann áherslu á, en Gauti hóf að starfa fyrir GSÍ sem tæknilegur ráðgjafi 2000.

Hópur eldri kylfinga er þverskurður af samfélaginu, að sögn Gauta. Sumir hafi verið í golfi frá barnsaldri og jafnvel verið landsliðsmenn. Margir hafi verið keppnismenn í öðrum íþróttum og snúið sér síðan að golfinu.

„Það er allur gangur á þessu en æ fleiri spila betur og lykillinn að árangrinum er líkamlegt atgervi og ástundun, gott mataræði og nægur svefn.”

Átta mót eru í mótaröðinni og er Íslandsmótið það fimmta í röðinni í sumar. 29. Júlí til 2. Ágúst heldur LEK Evrópumót 55+ á Korpuvelli og á golfvellinum í Mosfellsbæ. Keppt verður með og án forgjafar. „Við tökum á móti yfir 250 kylfingum og með fylgdarliði koma um 350 til 400 manns til landsins vegna mótsins,” segir Gauti.

Höf.: Steinþór Guðbjartsson