Vilhjálmur Bjarnason
Vilhjálmur Bjarnason
Skrattinn þekkir sína, hirðir sitt og hefur alltaf sigur ef vitsmunir eru ekki notaðir til að koma í veg fyrir sigrana.

Það hefur löngum verið umfjöllunarefni í minningargreinum hvernig hinn framliðni bróðir hélt sjálfstæði sínu með sjálfstæðri búsetu. Hitt er sjaldan nefnt að hinn framliðni vildi einnig halda reisn sinni og eiga fyrir útför sinni.

Í því sjálfstæði er við ramman reip að draga. Löggjafinn skerðir bætur almannatrygginga vegna fjáreignatekna, sem eru að mestu verðbætur vegna óstjórnar í efnahagsmálum og heitir sú óstjórn verðbólga. Í raun færist sá, er reynir að eiga fyrir útför sinni, fjær markmiði sínu um sjálfstæði fram yfir gröf og dauða með skerðingum vegna vitskertrar skattlangingar á fjáreignatekjum.

Þannig getur myndast skuld við skrattann vegna útfararkostnaðar.

Önnur skuld æðri máttarvalda við skrattann

Í VI. kafla stjórnarskrárinnar er fjallað um þjóðkirkju og trúfrelsi. Þar segir:

· „Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.“

Löggjafinn hefur áskilið sér rétt til að standa að þessum stuðningi og vernd með því að leggja á sóknargjöld, sem er nefskattur. Með því að það er einnig fjallað um trúfrelsi, þá er heimilt að starfrækja önnur trúfélög: „Allir eiga rétt á að stofna trúfélög og iðka trú sína í samræmi við sannfæringu hvers og eins.“

Ríkisvaldið tryggir þjóðkirkjunni og öðrum viðurkenndum trúfélögum og lífsskoðunarfélögum hlutdeild í sóknargjöldum, en ekki öllum sóknargjöldum. Afgangurinn fer í ríkishítina.

Það er alveg óljóst hvernig ríkisvaldið styður og verndar þjóðkirkjunna. Það ætlast allir til þjónustu af þjóðkirkjunni, hver svo sem staða viðkomandi hefur verið í skráningu í trúfélög. Utantrúfélagafólk á að greiða til Háskóla Íslands, en það er alls óljóst hvort þau „sóknargjöld“ gangi til vísinda.

Þjóðkirkjan hefur innan sinna vébanda fámenna söfnuði, sem er um megn að sjá um og viðhalda kirkjum, sem að auki eru verndaðar með húsfriðunarlögum.

Það var alveg augljóst til hvers var ætlast þegar dómsmálaráðherra afhenti þjóðkirkjunni Skálholtsstað við vígslu dómkirkjunnar í Skálholti 1963. Við fyrirheit kirkjumálaráðherra hefur aldrei verið staðið.

Fámennum söfnuði kirkjunnar er um megn að rækja þær skyldur, sem dómkirkjan í Skálholti hefur, og ekki ætlast til. Velunnarar kirkjunnar hafa reynt að bæta úr. Þó hefur ekki tekist að koma í veg fyrir hrútakofa við kirkjugaflinn, til mikilla lýta fyrir ásýnd kirkjunnar. Sannkölluð sjónmengun.

Vanræksla í varðveislu og verndun menningarminja er aðeins skrattanum til dýrðar.

Ef til vill að það svo að fjandinn freistar aldrei þeirra, sem hann telur sig eiga vísa. Þannig styður fjandinn aðferðafræði ríkisvaldsins gagnvart þjóðkirkjunni og nær árangri með afsiðun þjóðarinnar með tímanum.

Myglan og skrattinn

Önnur leið skrattans til að ná árangri í verkum sínum er mygla í húsum. Orsakir myglu eru af mörgum toga. Ein er lélegur frágangur við nýbyggingu húsa og aðrar eru skortur á loftræstingu og viðhaldi.

Mygla er með öðrum orðum skuld við skrattann. Rekstur skóla og stofnana frá degi til dags er meginmarkmið en langtímamarkmiðið er falið skrattanum til úrlausnar. Lausn skrattans er ávallt eyðilegging. Læknisfræðin hefur gengið í lið með þolendum myglu og sagt myglu sjúkdómsvaldandi. Lausnin kemur aldrei fyrr en vandinn er augljós. Og þá eru lausnir kostnaðarsamar. Lausnirnar byggjast oftar en ekki á að leigja húsnæði í langtímaleigu. Sú lausn er skuldbinding en færist ekki í ríkisreikning fyrir en við greiðslu. Lausnin lagar skuldahlutföll ríkisins en breytir engu um greiðsluskuldbindingu. Skrattinn skilur það.

Samgöngur og skrattinn

Sennilega hefur skrattanum hvergi orðið eins ágengt og í samgöngumálum á Íslandi. Samgöngur voru álitnar vera ofrausn. Fólk átti ekki að fara út fyrir sína heimabyggð og hollur var heimafenginn baggi. Viðskipti milli héraða eru ekki ómerkari viðskipti en viðskipti á milli landa. Verkaskipting er undirstaða velfarnaðar eins og fram kemur í ritum Adams Smiths. Kenning hagfræðingsins Davids Ricardos um hlutfallslegan hagnað er sennilega ein merkilegasta kenning hagfræðinnar, þótt henni hafi verið hafnað í verndarstefnu stjórnvalda á síðustu öld. Stefna í fríverslun byggðist á kenningu um Ricardo. Kann að vera að kenningu Ricardos sé ógnað með undirboðum frá alræðisríkjum.

Til þess að framleiðslustarfsemi verði stunduð utan við sunnanverðan Faxaflóa þarf vegakerfi, sem ber þungaflutninga, og vegi sem eru færir sem næst allt árið.

Það var talið hernaðarlega mikilvægt að hafa góðar samgöngur milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar. Minnisvarði um samgöngur þar á milli er í kvikmyndinni „79 af stöðinni“.

Hinn hernaðarlega mikilvægi vegur tók sinn toll, skrattanum til dýrðar. Á veginum urðu 52 banaslys áður en hann var breikkaður.

Aðrar skuldir í vegakerfinu eru einbreiðar brýr á þjóðvegi 1, en þjóðvegurinn er að mestu leyti „1 + 1“-vegur.

Sennilega versnar vont þegar þingmenn án fegurðarskyns hafa afskipti af vegamálum. Kúltúrsnauðir menn geta aldrei fjallað um samgögnumál. Samgöngur eru menning.

Merkur þingmaður sagði einfalt að lagfæra framúrkeyrslu í útgjöldum til vegamála umfram fjárveitingar. Það væri að skipta um yfirstjórn vegamála. Þó held ég að Vegagerðin hafi aldrei gert annað en að rækja þjónustusamninga og sinna lágmarksviðhaldi til að hægt sé að komast skaðlaust á milli sveita.

Adolf Hitler hafði betri skilning á samgöngum en þessi þingmaður. Adolf taldi að góðar samgöngur væru forsendur útþenslu ríkisins, en honum urðu á margvísleg önnur mistök í sinni bilun.

Það er sennilega hægt að reikna skuld við skrattann í vanrækslu í vegamálum.

En skrattinn hefur aldrei náð tökum í vanrækslu í flugvélaviðhaldi. Þó eru til flugfélög á bannlistum til samgangna til Evrópu. Einhver tíma hef ég lesið um að lággjaldaflugfélög haldi rekstarkostnaði niðri með því að starfrækja ekki viðhaldsdeildir!

Hvað er til að koma í veg fyrir valdatöku skrattans?

Sennilega er hægt að koma í veg fyrir að skrattinn nái tökum á mannfélaginu með því að efla frjálsan sparnað einstaklinga. Að löggjafarvaldið efli frjálsan sparnað en komi ekki í veg fyrir frjálsan sparnað með skerðingu á örorkubótum og lífeyrisgreiðslum og ofurskattlagningu.

Á sama veg þarf löggjafarvaldið, sem jafnframt hefur fjárvetingarvald, að skilja sitt hlutverk. Hlutverk löggjafarvaldsins er að vernda þegna sína, en ekki að herða sultarólar þegna og stofnana, sem eiga að þjóna samfélaginu.

Oftar en ekki verður saga stjórnvalda eins og saga sjálfstæðs manns, sem flýgst tómhentur á við forynju með nýju og nýju nafni. En ekkert er eins dásamlegt á jörðinni og að hafa verið í dýflissu og frelsast.

Skrattinn þekkir sína, hirðir sitt, og hefur alltaf sigur ef vitsmunir eru ekki notaðir til að koma í veg fyrir sigrana.

Skuldin við skrattann verður greidd ef varðstöðunni er eytt. Best er þó að skulda sjálfum sér.

Höfundur var alþingismaður.