Björn Gíslason
Björn Gíslason
„Þá er tómt mál að tala um að hér ríki orkuskortur þegar við eigum tilbúna virkjun í Reykjavík, sem þarfnast örlítilla lagfæringa til gangsetningar.“

Á síðasta fundi Orkuveitu Reykjavíkur (OR) lagði undirritaður til að hafin yrði framleiðsla á rafmagni í Elliðaárvirkjun að nýju, með það fyrir augum að tryggja orkuöryggi heimila í Reykjavík. Innviðir sem nú þegar eru til staðar við Rafstöðina í Elliðaárdal verði nýttir, en fjárfest yrði í nýrri túrbínu sem gæti framleitt allt að sex til tíu megavött af rafmagni, en sú gamla annaði einungis rúmum þremur megavöttum. Með þeirri aðgerð einni verði hægt að tryggja orkuöryggi allt að 17 þúsund heimila í Reykja­vík, sem samsvarar um 34% heimila í höfuðborginni.

Lítið sem ekkert rask

Verði farið í framkvæmdina mun það kosta lítið sem ekkert rask. Skoðað verði að byggja 15 fermetra jarðhýsi, þar sem túrbínunni yrði komið fyrir, vestan megin við rafstöðvarhúsið í Elliðaárdal.

Þá er rörið (fallpípan) sem notað er til að leiða vatnsrennslið almennt nokkuð heillegt að sögn sérfræðinga. Til að koma virkjuninni í gang aftur er unnt að fóðra rörið (fallpípuna) með svokölluðum glertrefjum, en þannig gæti það enst næstu eitt hundrað árin.

Vaxandi þörf og möguleg eldsumbrot

Það eru einkum tvö atriði sem kalla á að ráðist verði í raforkuframleiðslu í Elliðaárdal á nýjan leik:
Annars vegar er það fyrirséður orkuskortur í landinu öllu, en sama er hvort við kjósum að horfa til grænbókar umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins eða spár Orkustofnunar um orkuþörf til ársins 2040 – ljóst er að vaxandi þörf er á raforku, þannig kallar orkuöryggi á aukna raforkuframleiðslu.
Hins vegar spila þar einnig inn í mögulegar jarðhræringar á Hengilssvæðinu, en eldsumbrotin á Reykjanesi og heitavatnsleysið sem fylgdi í kjölfarið varpa enn frekara ljósi á mikilvægi þess að hafa nægilegan aðgang að rafmagni.
Rétt er að rifja það upp að þar rofnaði heitavatnslögnin á versta mögulega tíma sem gerði það að verkum að heimili fólks lágu undir skemmdum. Í þessum aðstæðum og miklum kulda gátu íbúar svæðisins aðeins notað rafmagnsofna til húshitunar, en ekki var unnt að leyfa nema einn rafmagnsofn á heimili, þar sem raforkukerfið þoldi ekki meira álag.
Þetta sýnir okkur svo ekki verði um villst að allur er varinn góður. Þá er tómt mál að tala um að hér ríki orkuskortur þegar við eigum tilbúna virkjun í Reykjavík, sem þarfnast örlítilla lagfæringa til gangsetningar.

Borgar sig upp á 5-7 árum

Fjárfesting þessi tryggir ekki aðeins almannaöryggi, heldur myndi hún borga sig upp á 5-7 árum og yrði þar af leiðandi arðbær framkvæmd fyrir Orkuveitu Reykjavíkur og þar með borgarbúa alla, enda OR í eigu skattgreiðenda í Reykjavík að mestu.
Nú eru yfir eitt hundrað ár liðin frá því Elliðaárvirkjun tók til starfa. Hún var tekin í notkun á vormánuðum 1921 og var fyrsta vatnsaflsvirkjun Reykvíkinga. Virkjunin var starfrækt til ársins 2014 er aðrennslisrör (fallpípa) hennar gaf sig og var hún þá ein elsta virkjun í heiminum sem enn var í notkun. Elliðaárvirkjun á þannig stóran þátt í sögu Reykjavíkur, en það færi vel á því að gera sögu hennar og mikilvægi hátt undir höfði með því að gangsetja hana á nýjan leik.
Björn Gíslason

Höfundur er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Höf.: Björn Gíslason