Sr. Lárus Þorvaldur Guðmundsson fæddist á Ísafirði 16. maí 1933. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð 4. júní 2024.

Foreldrar hans voru Guðmundur Guðni Kristjánsson frá Meira Garði í Dýrafirði, verkstjóri og skrifstofumaður, f. 23.1. 1893, d. 4.11. 1975, og Lára Ingibjörg Magnúsdóttir frá Sauðárkróki, húsmóðir, f. 19.7. 1894, d. 15.7. 1990. Börn þeirra voru: Magnús, f. 1916, d. 1918, Ólafur, f. 1918, d. 1982, Magnús, f. 1920, d. 1941, Kristján Sigurður, f. 1922, d. 2003, Páll Steinar, f. 1926, d. 2015, Haraldur, f. 1928, d. 1935, og Sigrún, f. 1929, d. 2017.

Lárus gekk í hjónaband 8.11. 1957 með Sigurveigu Georgsdóttur, f. 31.7. 1930, hún lést 4.3. 2018. Börn þeirra eru: 1) Georg Kristinn, forstjóri, f. 21.3. 1959. Maki hans er Vala Agnes Oddsdóttir, f. 1965. Börn Georgs og fyrrverandi eiginkonu hans Guðrúnar Hrundar Sigurðardóttur, f. 1960, d. 2021, eru: a) Hildur f. 1984, gift Ólafi Má Ægissyni, f. 1991, dætur þeirra eru Ragnhildur Katla og Edda Guðrún, b) Lárus Gauti, f. 1986, maki hans er Dannyela Torres, f. 1996. Dóttir Georgs og Völu Agnesar er Vala Kristín, f. 2009. Synir Völu Agnesar eru: Geir Legan, f. 1984, og Oddur Ólafur Howser, f. 1996. 2) Ragnheiður, ljóðskáld og kennari, f. 29.5. 1961. Börn hennar og fyrrverandi eiginmanns hennar, Helga S. Gunnarssonar, f. 1960, eru: a) Þorvaldur Sigurbjörn, f. 1991, b) Rögnvaldur Konráð, f. 1995, og c) Sigurveig Steinunn, f. 1997. 3) Özur, framkvæmdastjóri, f. 1.6. 1965. Giftur Margréti Ásu Sigfúsdóttur, f. 1971. Dætur þeirra eru: a) Guðrún, f. 1994, gift Úlfari Finnssyni, f. 1992, dætur þeirra eru Margrét Dögg og Elísabet Heiða, b) Ragnheiður, f. 1998, maki Helgi Már Vilbergsson, f. 1993, sonur þeirra er Özur Rafn.

Lárus varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1954. Útskrifaðist sem cand. theol. frá Háskóla Íslands 7. október 1963. Fór í framhaldsnám í guðfræði við guðfræðideild Kaupmannahafnarháskóla 1988-89. Lárus var vígður til prests í Skálholti árið 1963. Hann var skipaður sóknarprestur í Holtsprestakalli í Önundarfirði árið 1963 og starfaði þar til ársins 1988. Hann var prófastur í Ísafjarðarprófastsdæmi frá 1978 og kirkjuþingsmaður til ársins 1988. Árið 1989 var hann ráðinn sendiráðsprestur í Kaupmannahöfn. Þau hjónin bjuggu í Húsi Jóns Sigurðssonar þar sem Lárus var umsjónarmaður hússins. Þau fluttu aftur heim til Íslands árið árið 1998 og settust að í Grafarvogi.

Sem ungur maður var Lárus framkvæmdastjóri Alþýðuflokksins. Á Vestfjörðum starfaði hann að æskulýðsmálum. Hann stofnsetti sumarbúðir ásamt öðrum á Núpi í Dýrafirði og í Holti í Önundarfirði. Hann vann að náttúruverndarmálum og átti stóran þátt í gerð náttúruminjaskrár Vestfjarða. Lárus var gilwell-skáti og stofnaði ásamt öðrum skátafélag á Flateyri. Lárus var sáttasemjari í Vestur-Ísafjarðarsýslu. Hann var einn stofnenda Hjálms hf. útgerðarfélags á Flateyri og stjórnarformaður þess félags um árabil.

Útför Lárusar fer fram í Digraneskirkju í Kópavogi í dag, 28. júní 2024, kl. 13.

Hann pabbi minn var töffari af Guðs náð, það kom fram í klæðnaði hans og viðhorfum til lífsins. Útivist, allskonar íþróttir, farartæki af öllum toga, skíðaganga, tónlist, bókmenntir, ljósmyndun og framköllun þeirra, skartgripagerð úr kopar, hvalbeini, tré, leðri, smíðar, hestamennska, golf og svo ótal margt annað fékkst hann við um ævina. Hann var alltaf að læra eitthvað nýtt sem hann kynnti sér í þaula og heltók huga hans. Það var aldrei nein lognmolla í kringum hann Lárus.

Pabbi stúderaði guðfræði alveg fram á grafarbakkann. Síðustu árin sín las hann alla Biblíuna aftur og allt sem hann náði í af skrifum Marteins Lúthers og ritum um hann. Hann fylgdist vel með bókmenntum, listum og stundaði tónleika hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands eins lengi og hann gat. Hann naut þess að vera prestur, vandaði sig mikið við að semja predikanir, las sér alltaf mikið til og aflaði heimilda til að vinna ræður sínar eftir.

Hann hafði sérstaka ánægju af því að vinna með ungu fólki, fermingarfræðslan var uppáhaldsverkefni og m.a. þýddi hann sjálfur bókina Upphaf til að nota í fermingarfræðslunni. Skemmtilegast þótti honum þó held ég að skíra börn og í hvert sinn sem hann kom heim brosandi út að eyrum frá því að skíra sagði hann af jafn mikilli sannfæringu: „Ég hef bara aldrei séð fallegra barn.“

Hann var skemmtilegur og góður pabbi, en hann gerði líka miklar kröfur til okkar barnanna. Við áttum að vera dugleg í námi og vinnu, hjálpa til á heimilinu, ganga vel um o.fl.

Messuferðir gátu verið ævintýralegar í snjó og ófærð fyrir vestan. Við fjölskyldan skiptumst á að fara með honum og oft fórum við öll í þessar ferðir út í Valþjófsdal og á Flateyri, Ingjaldssand, Núp og Mýrar í Dýrafirði og stundum til Þingeyrar, þegar hann þjónaði þar um tíma, í jeppa, vélsleða, hraðbát og flugvél. Þetta gat verið háskalegt og flest þau skipti sem ég hef lent í lífshættu voru í ferðum með pabba, en sem betur fer sluppum við alltaf með skrekkinn.

Pabbi og mamma voru mjög samhent hjón og unnu vel saman. Mamma aðstoðaði pabba í prestsstarfinu, vélritaði ræðurnar hans lengi vel og æfði með honum tónið, sérstaklega man ég eftir henni að spila með honum hátíðartón séra Bjarna Þorsteinssonar fyrir jólin.

Pabbi keyrði mömmu oft til vinnu út á Flateyri þar sem hún var hjúkrunarforstjóri á heilsugæslunni ef færðin var slæm, einnig þurfti hann oft að skutla henni þangað á bátnum ef ófært var fyrir fjörðinn á vetrum eins og gerðist mjög oft. Þau unnu líka vel saman að rekstri Sumarbúðanna í Holti sem þau stóðu fyrir ásamt öðrum í mörg sumur. Heimili þeirra í Holti og síðar í Jónshúsi stóð alltaf opið gestum og gangandi og þar voru ósjaldan dekkuð borð og uppábúin rúm fyrir fjölda gesta. Það var siður í Holti að taka á móti öllum kirkjugestum í kaffi og kökur að aflokinni messu og þar var margt spjallað og oft mikið fjör. Það var reyndar alltaf fjör í kringum hann Lárus og ég var og er stolt af pabba mínum og mömmu.

Ragnheiður Lárusdóttir.

Hann pabbi er dáinn og ég get aldrei talað við hann aftur. Það er sárt. Hann kunni allt og reddaði öllu. Hann kenndi mér svo margt. Hann gerði við bíla og báta og allt þar á milli. Hann þýddi bækur, hlustaði á sömu tónlist og ég og ég á hans. Veröldin fyrir vestan var svo ljúf en samt svo ólýsanlega hörð og við það glímdi hann pabbi meir og minna alla ævina, fyrst á Ísafirði og síðar í Önundarfirðinum. Honum dugði ekkert minna en að eiga þrjá bíla, vélsleða, traktor, bát og flugvél ásamt fullkomnu véla- og trésmíðaverkstæði. Þetta er nauðsynlegt ef á að komast hér af, sagði hann. Pabbi keypti sér mótorhjól þegar hann varð 75 ára þrátt fyrir áköf mótmæli fjölskyldunnar. Hann var mikið fyrir vandaða og fallega hluti og keypti því oft mikið af græjum, stundum aðeins of mikið. Svo rak hann sumarbúðirnar í skólanum, kartöflu- og rófurækt, kjúklinga- og gæsarækt á sumrin auk æðarvarpsins sem óx með hverju ári að ógleymdri rauðmaga- og silungsveiðinni í Vöðunum á vorin.

Fjölskyldan vorum við fimm og afi, hundarnir, hænurnar, hestarnir auk tilfallandi annarra húsdýra. Pabbi þjónaði fimm sóknum og sjö kirkjum. Til þess þurfti öll farartækin auk gönguskíða sem voru mikið notuð. Hann var afreksmaður. Gekk yfir heiðar, fór fjörur, fyrir ófærur fótgangandi eða á skíðunum og var oft marga daga í messuferðum. Það var ósjaldan sem snjóflóðin voru bæði fyrir aftan og framan Landróverinn og ekki annað að gera en moka. Hann var kaldur hann pabbi og stundum of. Með hálffullan bátinn af sjó í þreifandi byl í svartamyrkri og haugasjó á leið utan af Sandi. Þetta var töff. Það hefur ekki verið létt verk fyrir barnungan prestinn að takast á við afleiðingar sjóslysanna þegar Mumminn og Sæfellið fórust og með þeim átta menn úr þessu litla samfélagi en tveir komust af.

Pabbi fylgdist vel með heimsmálunum og var alla tíð áskrifandi að Newsweek og Der Spiegel. Hann starfaði ötullega að æskulýðsmálum, atvinnumálum er vörðuðu fiskvinnslu og sjávarútveg og var virkur í náttúruverndarmálum á Vestfjörðum svo fátt eitt sé nefnt.

Eftir 25 ára búsetu í Holti söðluðu pabbi og mamma um og fluttu til Kaupmannahafnar þar sem hann var ráðinn sendiráðsprestur og umsjónarmaður Jónshúss. Þar nutu þau sín vel. Ráku húsið og heimilið af miklum rausnarskap, þar var mikill gestagangur og gaman að koma. Á vissan hátt gerðust mamma og pabbi heimsborgarar og ferðuðust um Evrópu sem þau höfðu aldrei gert á árum sínum í Holti.

Pabbi naut þess að ferðast og fór meðal annars einn til Afríku og Kúbu. Á síðasta ári fórum við saman í viku siglingu á húsbáti um síkin í Bretlandi. Pabbi stóð sig vel og rifjaði upp siglingakunnáttuna frá því fyrir vestan. Þetta varð hans síðasta utanlandsferð.

Pabbi átti hamingjusamt og viðburðaríkt líf. Hann var duglegur, útsjónarsamur og óhræddur við áskoranir. Þó við söknum þá er hann sæll. Síðasta árið hans var erfitt. Hann, þessi mikli athafnamaður, átti ekki gott með að sitja kyrr.

Elsku pabbi, takk fyrir allt og hafðu það gott í þessu ferðalagi.

Georg Kr. Lárusson.

Afi minn sr. Lárus Þorvaldur Guðmundsson var alla tíð stór partur af mínu lífi. Fyrstu æviár mín í Kaupmannahöfn, þar sem við fjölskyldan bjuggum á meðan pabbi kláraði nám, dvöldum við mikið hjá afa og ömmu Systu í Jónshúsi sem var að mörgu leyti hjarta Íslendingasamfélagsins þar í borg. Ég á ekki margar minningar frá þessum tíma enda tæplega tveggja ára þegar við fluttum heim en ýmsar glefsur og sögur lifa í minninu. Eftir að afi og amma fluttu aftur til Íslands 1998 eru minningarnar þeim mun fleiri og stundirnar sem ég varði með þeim í Dofraborgum eða í útilegum eru ógleymanlegar. Að fara í mat til þeirra hjóna þar sem amma Systa eldaði dýrindis kræsingar og afi galdraði gjarnan fram nammi eftir matinn var fastur liður í minni barnæsku. Afi var alltaf að kenna manni eitthvað og gilti þá einu hvort um var að ræða andleg málefni, veraldlega þekkingu eða praktíska hluti eins og naglasnyrtingu, líklegast mun síðastnefnda lexían þó gleymast með minni kynslóð eftir þá eldskírn sem við barnabörnin máttum þola frá afa með naglaklippurnar og pinsetturnar.

Afi og amma gengu barnabörnunum meira að segja í kennarastað í kennaraverkfallinu haustið 2004 og innrituðu okkur í „Dofraskóla“ þar sem farið var yfir allar helstu námsgreinar. Afi Lárus var ekki bara stór nærvera í minni fjölskyldu heldur var hann líka mjög stór karakter. Sem afi var hann óendanlega hlýr, þolinmóður og stuðningsríkur og alltaf tilbúinn að ræða við mann eins og jafningja. Afi var frábær sögumaður og sögurnar sem hann sagði frá æsku sinni á Ísafirði, ævintýrum sínum sem sjómaður, sjoppueigandi, framkvæmdastjóri Alþýðuflokksins, prestur á Vestfjörðum og í Kaupmannahöfn voru sumar lyginni líkastar. Afi var séntilmaður fram í fingurgóma, alltaf óaðfinnanlega klæddur í þrískipt jakkaföt, með bindi, vasaúr og hatt nánast til dauðadags, enda keypti hann aðeins fínustu fötin og helst í nokkrum eintökum. Afi var líka algjör græjukall og ævintýramaður, flaug flugvélum og sigldi hraðbátum um alla Vestfirði þar sem hann var þekktur undir nafninu Lalli sport. Sem barn fannst mér afi merkilegasti maður í heimi. Eftir að ég fullorðnaðist kynntist ég fleiri hliðum á afa og þótt hann væri auðvitað breyskur eins og allir menn þá var hann samt alltaf ein af mínum helstu fyrirmyndum.

Nú er afi farinn og frændi minn Lárus orðaði þetta svo vel stuttu eftir andlátið: „Hann hefur einhvern veginn alltaf verið þarna.“ Það er líka dagsatt, afi var einhvern veginn alltaf þarna og því er svo skrýtið að nú sé hann það ekki lengur. En þótt afi Lárus sé genginn úr þessu lífi yfir í það næsta þá er hann ekki alveg farinn því hann lifir í okkur öllum sem kynntumst honum og í þeim hafsjó af minningum og sögum sem hann skilur eftir sig. Í óbirtu ljóði sem afi skrifaði á efri árum sem heitir „Hvað er lífið?“ orti hann svo: „Lífið er ekki lítil skrýtin skrýtla / heldur litríkt skrautlegt undur.“ Þannig var lífið hans afa, alls engin skrýtin skrýtla, heldur stórt og skrautlegt undur sem hafði áhrif á alla í kringum hann.

Þorvaldur Sigurbjörn Helgason.

Elsku afi, ég er svo heppin að eiga ótal margar minningar með þér og ömmu. Ein uppáhaldsminning mín er þegar ég dvaldi hjá ykkur ömmu í Kaupmannahöfn. Mér finnst eins og það hafi verið margir mánuðir enda hver dagur ævintýri. Sú minning sem er sterkust er þegar þú hljópst á eftir mér um götur nágrennis Jónshúss að kenna mér á hjólaskauta. Svo gafstu mér mína fyrstu Barbie-dúkku sem ég á enn. Það skemmtilegasta var þó þegar við fórum tvö í ótrúlegt bakarí sem seldi alls kyns kræsingar úr marsípani. Þar mátti ég velja hvað sem er og við enduðum á að kaupa alltof mikið og amma var ekki kát með okkur. Þetta eru dýrmætar minningar sem ég er þakklát fyrir.

Mér finnst ég heppin að hafa átt þig að í 40 ár og að dætur mínar eigi góðar minningar um þig.

Afi var töffari sem átti allar nýjustu græjur og stundaði íþróttir og hreyfingu af miklu kappi. Hann var alltaf flottur til fara og kunni að velja gjafir fyrir langafabörnin sem hittu í mark. Umfram allt var hann blíður og góður afi sem studdi við sitt fólk.

Takk fyrir allt elsku afi, amma verður glöð að fá þig til sín.

Hildur Georgsdóttir.

Elsku afi minn er látinn eftir gott líf, 91 árs að aldri. Minningarnar hrannast upp - af sumrunum í Jónshúsi í Köben - þar sem afi og amma bjuggu þegar ég var krakki, og öllu hinu í gegnum árin, sem gott er að geyma í hjartanu. Vinátta okkar afa var dýrmæt. Við vorum duglegir að sækja saman í gegnum árin ótal viðburði, hvort sem það var sinfó, djass eða bíó, enda var hann mjög opinn og víðsýnn um listir og menningu, þótt hann gæti líka verið þröngsýnn á köflum! Ég á honum að mörgu leyti að þakka tónlistarlegt uppeldi sem ég er þakklátur fyrir.

Afi var allur skalinn – með elegans – mættur í skreðarasaumuðum fötum (eins og hann orðaði það) með Bogart-hatt, en var jafnframt þúsundþjalasmiður í vinnugalla, sem gat gert við bíla og flugvélar (og flogið þeim). Sögurnar af svaðilförunum í messuferðum fyrir vestan, þar sem hann var prófastur í Holti í Önundarfirði um árabil, var alltaf gaman að hlusta á. Þótt amma hefði alltaf sagt glottandi að hann hefði bara verið glanni. Óteljandi eru líka stundirnar þar sem við sátum og spjölluðum um allt á milli himins og jarðar. Þá var hann alltaf haldinn einlægum áhuga á því sem væri í gangi í lífi mínu og á fólkinu í kringum mig. Þegar allt kemur til alls er fyrst og fremst þakklátur fyrir að njóta þeirra forréttinda að fylgja afa öll þessi ár. Ég skála í Gammel Dansk fyrir honum. Hvíldu í friði elsku afi.

Lárus Gauti Georgsson.

Afi minn var hraustasti maður sem ég hef kynnst og alger töffari og var á gönguskíðum fram að níræðisaldri og gekk sömuleiðis daglega á Esjuna á morgnana fyrir allar aldir. Við afi vorum bæði skíðagöngufólk. Hann byrjaði á skíðum á Ísafirði fyrir rúmum 75 árum. Hann fylgdist vel með skíðagöngu og alveg sérstaklega mér og mínum árangri. Hann gladdist yfir hverri medalíu, hverjum bikar og hverri Fossavatnsgöngu. Auk þess að vera svona hraustur var hann líka hjartahlýjasta manneskja sem ég hef þekkt og var alltaf til staðar fyrir mig. Það var aldrei leiðinlegt að fara í heimsókn til afa því hann hafði alltaf einhverjar skemmtilegar sögur að segja. Það fyrsta sem hann gerði í hvert skipti sem ég hitti hann var að taka utan um fæturna mína og segja „þér er ískalt á litlu fótlunum“ og nudda í þá hita. Uppáhaldið mitt var að gista með afa í herbergi þar sem við fórum með ótal bænir saman og svo sagði hann mér alls kyns sögur. Sérstaklega man ég eftir góðum stundum á loftinu í Djúpafirði en þar fórum við yfir margar bænir og þessa lærði ég þar:

Áður dagurinn endar skær,

alvaldi Guð, þig biðjum vær;

náð þín, sem ein oss frelsað fær,

fögnuð veitandi sé oss nær.

Afi mætti á alla tónleika sem ég spilaði á og það kunni ég vel að meta og ég mun sakna hans þar. Hann var góður afi. Ég á ótal minningar með afa þar sem við gerðum svo margt saman þessi 15 ár sem við vorum hér saman. Við fórum síðast saman í útilegu á Strandir og tjölduðum í Norðurfirði, hann með sitt göngutjald og ég með mitt. Eitt af okkar síðustu ævintýrum saman var þegar við fórum saman til Englands og áttum þar yndislega daga þar sem við sigldum um á kanölum. Það er erfitt að sætta sig við það að þú sért farinn frá okkur en ég veit að þú ert á betri stað og að þér líður vel með ömmu Sigurveigu. Ég sakna þín og þú átt stóran stað í hjarta mínu að eilífu.

Guð geymi þig og varðveiti þig.

Þín afastelpa,

Vala Kristín Georgsdóttir.

Afi minn var svo góð fyrirmynd og sýndi öllum virðingu. Afi stundaði líkamsrækt á hverjum degi og var að auki hlaupandi upp á fjöll og á skíðum fram á gamals aldur. Hann sýndi öllu því sem fólkið hans gerði einlægan áhuga og lét mig alltaf finna hvað hann hafði mikla trú á mér. Þegar einhver í fjölskyldunni var í prófatörn svaf afi lítið næturnar fyrir próf af prófstressi fyrir hönd próftakans, hann bað fyrir viðkomandi allt prófið og var svo fyrstur til að hringja og spyrja hvernig hefði gengið, svo mikill var áhuginn.

Sama ár og ég hóf grunnskólagöngu mína hófst kennaraverkfall svo að afi tók það á sig að kenna mér að lesa, skrifa og reikna, mér til mismikillar ánægju á þeim tíma þó svo að í dag sé ég þakklát fyrir þann tíma. Afi hefur svo í gegnum tíðina kennt mér svo margt annað.

En „áfram liggja sporin“, eins og afi sagði alltaf, en hann kunni að hughreysta mann og hvetja mann áfram. Hann kunni líka að njóta lífsins og lét sér aldrei leiðast.

Takk fyrir allt elsku afi, þín verður alltaf saknað.

Ragnheiður Özurardóttir.

Góður vinur okkar og samstarfsmaður áður, sr. Lárus Þ. Guðmundsson, er fallinn frá í hárri elli. Við minnumst hans með þaklæti fyrir einstaka prúðmennsku og skyldurækni og vinsemd í okkar garð.

Séra Lárus var skipaður prestur Íslendinga í Kaupmannahöfn árið 1987 og þjónaði þar og víðar í Danmörku, svo og Svíþjóð. Hann hafði yfirleitt messu einu sinni í mánuði í Skt. Pálskirkju, í göngufjarlægð frá Jónshúsi.

Prestsbústaðurinn var í Jónshúsi og þar bjuggu sr. Lárusar og Sigurveig Georgsdóttir, kona hans, meðan þau dvöldust í Kaupmannahöfn, allt til starfsloka hans árið 1998. Mörgum athöfnum, giftingum, skírnum o.fl. sinnti sr. Lárus í vinustofu Jóns Sigurðssonar sem var þá að mestu í upphaflegri mynd og er enn.

Hluti af starfi prestsins var enn fremur að veita forstöðu Jónshúsi og margþættu félagsstarfi þar. Að formi var presturinn starfsmaður sendiráðs Íslands í borginni.

Frá upphafi fólst starf prestsins í Jónshúsi m.a. í umsjón með húsinu, Austurvegg 12, og þá ekki síst að gæta þess að allt væri í besta lagi, reksturinn og ástand sjálfs hússins. Að mörgu þurfti að hyggja varðandi tæknilegt viðhald. Húsið er gamalt og þarf sífellt að sinna viðhaldi þess, utan sem innan. Þar var sr. Lárus í essinu sínu, slíkur reglu- og reiðumaður sem hann var, auk þess sem hann hafði með öðru menntun sem vélstjóri. Undir leiðsögn Lárusar var unnið að mikilvægum viðgerðum og tæknilegum breytingum í húsinu, sem hafa haldið sér vel.

Þegar sr. Lárus og Systa komu fyrst í Jónshús var starfsemin þar á ábyrgð Íslendingafélagsins í Kaupmannahöfn og félags námsmanna. Þótti sr. Lárusi stundum sem hálfgert stjórnleysi ríkti í húsinu. Hann vildi að sem best skipulag væri á öllu, ekki síst félagsstarfsemi og veitingasölu. Gamla stjórnskipulagið virkaði ekki sem skyldi. En með góðu samráði milli eigandans, Alþingis og skrifstofu þess, félaga Íslendinga og umsjónarmannsins, sr. Lárusar, tókst að koma nýju traustu skipulagi á starfsemina sem svo var staðfest í forsætisnefnd Alþingis árið 1996. Hefur síðan ríkt góð sátt allra félaga sem halda fundi sína í Jónshúsi og rækja starf sitt þar.

Samskipti sr. Lárusar við skrifstofu Alþingis og þá sérstaklega okkur sem þessi orð ritum voru ávallt einstaklega ánægjuleg og snurðulaus. Það var jafnan gott að vita af húsinu í traustum höndum hans.

Sr. Lárus var einarður og einlægur samstarfsmaður. Elskuleg eiginkona hans, Systa, studdi hann í starfi og lagði margt af mörkum sjálf. Þau tóku á móti gestum með höfðingsskap og sóma. Þar voru þau hjón sem einn maður. Við áttum margar notalegar stundir hjá þeim sr. Lárusi og Systu þar sem rætt var um lífið og tilveruna og líka það sem áþreifanlegra var, starfið í húsinu og svo annað sem var á döfinni í dönsku þjóðlífi það sinnið.

Við kveðjum sr. Lárus með innilegu þakklæti fyrir störf hans í þágu Jónshúss og þökkum honum og Systu fyrir óbrigðula gestrisnina sem við nutum hjá þeim margoft í gegnum árin.

Karl M. Kristjánsson og Helgi Bernódusson.

„Ævinlega fagnandi og blessaður.“ Þannig heilsaði séra Lárus í Holti fólki við kirkjudyr og á förnum vegi, glaður í viðmóti, fínn í tauinu og alltaf með eitthvað á prjónunum. Hann gekk heils hugar að öllu sem hann tók sér fyrir hendur, og kláraði það til enda. Það átti jafnt við um hans fjölbreyttu áhugamál og verkefnin, sem honum voru falin á vettvangi kirkjunnar og samfélagsins.

Það var gæfa okkar ungu og óreyndu prestanna, sem komu vestur í byrjun níunda áratugar seinustu aldar, að hafa séra Lárus í Holti sem prófast. Hann gekkst upp í því embætti eins og öllu sem hann tók sér fyrir hendur, og gekk að því brennandi af áhuga og eljusemi. Þau hjónin, frú Sigurveig Georgsdóttir og sr. Lárus, létu sér annt um velferð okkar, enda vorum við flestir á aldur við börn þeirra. Þau buðu okkur heim, veittu af rausn og elskusemi og létu okkur finna að vera okkar og störf í prófastsdæminu skiptu miklu máli.

Lárus var afar vandvirkur í prófastsstörfum sínum og vildi veg kirkjunnar sem mestan jafnt í heimabyggð og á landsvísu. Hann vildi að kirkjan léti til sín taka og sýndi að hún væri þjóðfélagsafl og að sjónarmið hennar ættu erindi á öllum sviðum þjóðlífsins. Kirkjan átti, að hans dómi, að hafa frumkvæði í samfélagsmálum, víkka rammana og ekki láta önnur öfl en fagnaðarerindið segja fyrir um verksvið hennar og framgöngu.

Séra Lárus beitti sér hvar sem hann kom að málum og var m.a. ötull fulltrúi Vestfjarða á kirkjuþingi. Hann bar djúpa virðingu fyrir kirkju aldanna og var mjög meðvitaður um áhrif kristninnar á farsæla mótun vestrænna og norrænna samfélaga. Hann vildi byggja á rótgrónum kirkjuhefðum í siðum og helgihaldi, en var alltaf opinn fyrir því sem var að gerast í samtíðinni, forvitinn og fús til að taka upp ný vinnubrögð og nýja tækni til að koma erindi kirkjunnar á framfæri við fólk.

Hann mat mikils fólkið sem hélt uppi kirkjum og starfi í sóknunum, vísiteraði ítarlega, hélt fundi með kirkjufólkinu, og það var lærdómsríkt að þjóna með honum við margvísleg tækifæri og athafnir. Hann hélt vel utan um prestana, stefndi okkur til samveru vor og haust, þegar ófærð og illviðri hömluðu ekki samgangi, bæði til að ræða og skipuleggja starfið í prófastsdæminu, og ekki síst til að næra félagsandann okkar á meðal. Hann efndi með okkur til árlegra guðfræðidaga í tengslum við héraðsfundinn, okkur til uppbyggingar, þar sem við fengum lærðustu menn guðfræðideildar Háskólans til að hafa með okkur fræðasamfélag.

Séra Lárus var margt í senn; íslenskur sveitaprestur og náttúrubarn, ævintýramaður og heimsborgari. Hann hafði á sér meðfætt hefðarsnið, yfirlætislaust og elskulegt. Hann var á heimavelli jafnt í Holtsoddanum með byssuna um öxl að verja varpið fyrir varginum, fyrir altari sóknarkirkjunnar, myndugur kirkjuleiðtogi í héraði, eða sem sendiráðsprestur meðal diplómata í höllu drottningar.

Fyrir mína hönd og Félags fyrrum þjónandi presta og maka vil ég þakka séra Lárusi samfylgdina. Hann sé Guði falinn og minning hans ævinlega blessuð.

Jón Ragnarsson.

Séra Lárus hefur nú lokið lífsgöngu sinni. Hún varð löng og lengst af gekk við hlið hans hún Systa, Sigurveig Georgsdóttir.

Við urðum nágrannar og hann minn prófastur eftir að ég kom á Ísafjörð. Við Auður komum oft til þeirra hjóna og nutum frábærrar gestrisni.

Sr. Lárus var nákvæmur embættismaður og virkur í hirðisstörfum sínum. Hann lét sig málefni byggðarinnar varða með ýmsum hætti. Hann var ætíð vel heima í fræðunum og mátti á heyra í prédikunum hans. Það kom m.a. fram í ræðu sem hann hélt þegar við Vestfirðingar héldum kristniboðsafmælishátíð á Patreksfirði 1984. Páll föðurbróðir minn heyrði og sagði að þessa ræðu þyrfti öll heimsbyggðin að heyra.

Sr. Lárus hafði ásamt sr. Bernharði Guðmundssyni þá í Súðavík efnt til sumarbúða í barnaskólanum í Holti fyrir börn af öllum Vestfjörðum. Það framtak var til mikillar fyrirmyndar og eiga margir sem komu sem börn í þær góðar minningar um það ævintýri.

Ég kynntist honum fyrst af afspurn meðan ég var enn við nám. Það voru vekjandi sögur af tækjaeign sr. Lárusar, sem urðu til þess að ég gerði mér við hentugt tækifæri ferð til hans að sjá sönnur á sögunum. Jú, allt stóð heima. Í hlaðinu stóð nýlegur Saab, að húsabaki var frambyggður GAZ, rússajeppi, og í geymsluhúsi var snjósleði og safn skíða. Ekki var nóg með þetta, heldur var þarna á ströndinni vegleg bryggja og hús utan á þar sem í reyndist geymdur hraðbátur hangandi í uglum og rafmagnshífing ofan og upp úr sjó. Það mátti sjá sem oft á sannaðist að sr. Lárusi voru allir vegir færir. Um tíma átti hann einnig hlut í flugvél.

Ég kveð þennan kollega og vin í virðingu og söknuði, sömuleiðis einnig Systu og votta börnum þeirra og fjölskyldu samúð okkar Auðar minnar.

Jakob Ágúst Hjálmarsson.

Að góðklerkinum síra Stefáni á Þingeyri Eggertssyni gengnum varð síra Lárus Þorvaldur Guðmundsson í Holti í Önundarfirði prófastur Ísafjarðarprófastsdæmis.

Stórmikil eftirsjá var að síra Stefáni, þessum sérstæða og skemmtilega manni, sem meðal annars hafði forgöngu um gerð flugvallar á Þingeyri, bjargaði með talstöð sinni áhöfn togara sem sökk, og sneri að gamni sínu íslenskum staðarnöfnum í erlend mál. Fagurhólsmýri varð þannig á dönsku Smukkerupsmose, Sauðárkrókur á ensku Sheepriverhook og Hnífsdalur Knife Valley.

Síra Lárus var ljúfmenni og einkar nákvæmur embættismaður. Gegndi hann prests- og prófastsstörfum af alúð og samviskusemi. Hann sat Holtsstað af reisn og hirtni, ræktaði æðarvarpið með mikilli hind og jók það til muna. Naut eftirmaður hans góðs af heldur en ekki. Síra Lárus var útilífs-, veiði- og íþróttamaður; gekk á skíðum, átti hesta, sömuleiðis vélsleða og hlut í flugvél. Hann kunni ekki að hræðast og fór allra sinna ferða án tillits til veðurs og færðar. Kátir piltar kölluðu sóknarprest sinn Lalla sport. Hann vildi öllum vel, var manna þýðastur í ávarpi og heilsaði gjarnan með orðunum „komdu fagnandi og blessaður“.

Utansveitarmenn voru á skemmtigöngu í Holtsodda. Þeir sáu mann, sem snertispöl frá landi reri gúmbáti hljóðlátum áratogum, íklæddur felubúningi og vopnaður. Hér var prófastur á ferð, sívökull og óþreytandi gæslumaður æðarvarpsins og svarinn andstæðingur vargs. Fullyrt var, að hann hefði helst viljað útrýma með öllu tegundinni hrafn (corvus corax).

Haldinn var prestafundur á Hrafnseyri. Þetta var einn þeirra daga, þegar Skaparinn hefur dregið þráðbeina línu neðan við brúnir fjallanna, en fyrir ofan hana er sólbjört fönnin. Síra Lárus hringdi upp nágrannapresta tvo og bauð þeim að koma við í Holti hjá þeim frú Sigurveigu á leiðinni vestur. Þekktust þeir það, gengu í bæinn og var bugað að þeim höfðinglega, enda gestrisni alla stund viðbrugðið á heimili þeirra hjóna. Frú Sigurveig var hjúkrunarkona héraðsins, mjög vel látin og að verðleikum, því að hún var stórvel gefin og eftir því eljusöm.

Síra Lárus spurði þá starfsbræður, hvort heldur þeir vildu aka eða fljúga yfir í Arnarfjörð. Þeir kusu seinni kostinn, svo síður spyrðist, að þeir væru flughræddir. Síra Lárus hringdi til góðbónda, sem kom að vörmu spori. Settust fjórir upp í vélina og skiptust þeir í framsætunum á orðum, sem flugmönnum byrjar, og prestunum í aftursætunum heyrðist vera útlenska. Ferðin var flugtak og lending. Leið svo fundurinn af. Bóndi kom fljúgandi að Eyri, sótti kennimennina og var svo lent á flugvellinum í Holti, gengið í bæinn og þeginn rausnarlegur beini. Þetta var góður dagur, sem minnst hefur verið æ síðan.

Vel hélt síra Lárus atgervi sínu þótt árin færðust yfir. Prestur í Reykjavík auglýsti messu. Ekki varð þó af því að hann fengi framið þjónustuna sökum heimsfaraldursins. En gljáfægðri bifreið af gerðinni Mercedes Benz var rennt í stæði við kirkjuna, og út steig prúðbúinn maður, í svörtum, skósíðum frakka, með hatt og leðurhanska: Síra Lárus, rétt að verða níræður, hér kominn að sækja kirkju.

Guð huggi og styrki ástvini öðlingsins síra Lárusar Þorvaldar Guðmundssonar. Guð blessi minningu góðs drengs og ógleymanlegs embættisbróður.

Gunnar Björnsson, pastor emeritus.