Anna Soffía Sigurlaug Gunnlaugsdóttir fæddist á Brattavöllum á Árskógsströnd 5. febrúar 1934. Hún lést á Dvalarheimilinu Dalbæ 18. júní 2024.

Foreldrar hennar voru Gunnlaugur Sigurðsson, f. 21. ágúst 1902, d. 1986, útvegsbóndi og Freygerður Guðbrandsdóttir, f. 4. ágúst 1902, d. 1953, ljósmóðir og húsfreyja. Systkini Sigurlaugar: Sigurður Flóvent, f. 1928, d. 1996, Guðbjörg Kristín, f. 1930, Sveinn, f. 1940, Anton Sigurgeir, f. 1943, d. 2005, og Anna Sigríður, f. 1946.

Sigurlaug giftist 1952 Snorra Eldjárn Kristjánssyni, f. 1917, d. 1987, frá Hellu á Árskógsströnd. Þau kaupa litlu síðar jörðina Krossa á Árskógsströnd og bjuggu þar alla sína búskapartíð.

Börn þeirra: 1) Kristján, f. 1953, d. 1953. 2) Kristján, f. 1954, maki Lilja Finnsdóttir. 3) Sigurbjörg, f. 1956, maki Sveinn Kristinsson. 4) Haukur, f. 1958, maki Katrín Sigurjónsdóttir. 5) Freygerður, f. 1961, maki Árni Anton Júlíusson. 6) Anna Guðrún, f. 1965, maki Guðmundur Arnar Hermannsson (látinn). 7) Snorri, f. 1970, maki Brynja Svanhvít Lúðvíksdóttir.

Sigurlaug var mjög virk í félagsstörfum, starfaði m.a. í árafjöld með kirkjukór Stærra-Árskógskirkju. Einnig var hún í ungmennafélaginu Reyni og var virk í Kvenfélaginu Hvöt, m.a. formaður til nokkurra ára. Þá var hún stofnfélagi í Félagi eldri borgara í Dalvíkurbyggð og starfaði með félaginu frá upphafi þar til hún flutti á Dalbæ, Dvalarheimili aldraðra á Dalvík.

Eftir andlát Snorra eignaðist Sigurlaug einstakan vin og félaga í Guðmundi Þorsteinssyni, f. 1934, frá Hálsi við Dalvík. Hann og fjölskylda hans reyndust Sigurlaugu afskaplega vel í gegnum árin.

Útförin fer fram frá Stærra-Árskógskirkju í dag, 28. júní 2024, klukkan 11.

Elsku mamma.
Þegar ég sest niður til að skrifa þér kveðju þá er erfitt að velja hvað ég á að segja og skrifa.
Þú varst okkur og börnunum okkar einstaklega góð mamma og amma, full af þolinmæði og hlýju. Þú hafðir alltaf pláss og tíma til að taka gormana mína þegar við þurftum á að halda þó svo að þú hefðir fangið fullt af verkefnum. Þú varst dugnaðarforkur sem gerðir hlutina sjálf hvort sem það var vinna á vélunum, við heimilisstörfin eða allt þar á milli. Sama hversu mörg verkefnin voru þá fengum við börnin alltaf okkar tíma, við vorum þá líka gjarnan tekin með í bústörfin og kennt á dýrin og náttúruna. Sem barn að fá að alast upp við þau forréttindi að hafa mömmu og pabba alltaf í kallfæri og fá að vinna með ykkur í sveitastörfunum var dásamlegt. Seinna meir fengu börnin mín svo að vera hjá ykkur Snorra bróður, þau munu alltaf minnast þeirra tíma með gleði. Það var oft líf og fjör í sveitinni, sérstaklega í heyböggunum, þá margfaldaðist fjöldinn á bænum. Það var nú ekki vandamálið fyrir þig, þú bættir bara í. Bæði bakaðir og eldaðir ofan í allan fjöldann ásamt því að hendast út á tún eða koma kúnum í fjósið. Aldrei minnist ég þess að þú hafir kveinkað þér undan álagi eða kvartað. Eftir langan vinnudag fóruð þið pabbi oft í reiðtúr niður á Fagurhöfða og niður að sjó. Þið voruð ótrúlega samstiga. Þið höfðuð mikla unun af blómum og ræktun og voruð dugleg að kenna okkur krökkunum heitin á blómunum. Ég man sem krakki eftir því þegar ég tíndi í stóran blómvönd handa þér, þá voruð þið vön að segja mér hvað öll blómin í vendinum hétu, þar vaknaði áhugi minn á blómunum í náttúrunni. Þetta hef ég svo reynt að muna og kenna mínum börnum eftir bestu getu. Það er svo margt gott sem ég lærði af ykkur og tók með mér út í lífið.
Elsku mamma, ég kveð þig með miklum söknuði en ég hugga mig við að nú eruð þið pabbi sameinuð á ný og ég efast ekki um að hann hefur tekið á móti þér með opinn faðminn.

Þar sem englarnir syngja sefur þú
sefur í djúpinu væra.
Við hin sem lifum, lifum í trú
að ljósið bjarta skæra

veki þig með sól að morgni.
x
Farðu í friði vinur minn kær
faðirinn mun þig geyma.
Um aldur og ævi þú verður mér nær
aldrei ég skal þér gleyma.
Svo vöknum við með sól að morgni.

(Bubbi Morthens)

Takk fyrir allt elsku mamma mín.

Þín

Anna Guðrún (Gunna).

Tengdamóðir mín, Lauga á Krossum, er látin níræð að aldri. Ég kom fyrst í Krossa með Hauki snemma árs 1986 og fékk sérlega góðar móttökur hjá þeim hjónum Snorra og Laugu. Ég ákvað þá að ég ætlaði að taka eins vel á móti mínum tengdabörnum og Lauga tók á móti mér. Mánuði seinna kom Haukur með heimasaumaðan tískugalla að gjöf frá Laugu. Þannig var hún, gjafmild, glöð og hlý.

Ég fékk að búa hjá þeim hjónum á Krossum veturinn 1986-87 og sumarið '87, síðasta árið sem Snorri lifði. Hann lést eftir erfið veikindi síðsumars 1987 og var söknuður Laugu og fjölskyldunnar mikill. Þá var það hennar lukka að Snorri, yngsti sonur þeirra, gekk inn í búskapinn með henni aðeins 17 ára gamall og bjuggu þau saman á Krossum allt þar til hún flutti til Dalvíkur árið 2013. Hún var mikil sveitakona og elskaði dýrin og náttúruna klárlega meira en að stússa inni við, enda gengu þau Snorri alltaf samhent til allra útiverka. Hún var mikil félagskona og sinnti ýmsum félagsstörfum í sveitinni. Einnig hafði hún unun af söng, hún var með fallega altrödd og söng í kirkjukór Stærra-Árskógskirkju í marga áratugi.

Fjölskyldan var Laugu dýrmæt og Krossar samastaður barna hennar og fjölskyldna þeirra. Hennar lag var svolítið þannig að segja fólkinu sínu til og hvað betur mætti fara en svo hrósaði hún því í eyru annarra. Hún var stolt af sínu enda mátti hún vera það, lætur eftir sig á sjöunda tug afkomenda. Það var alltaf húspláss hjá Laugu og oft mjög gestkvæmt, það var alltaf eitthvað gott til með kaffinu. Ef þau systkinin frá Brattavöllum hittust var heldur betur glatt á hjalla, mikið spilað og hlegið hátt. Það voru Laugu eftirminnilegar stundir.

Það var Laugu mikil gæfa hin síðari ár að eignast dýrmætan vin í Guðmundi Þorsteinssyni frá Hálsi. Þau voru jafnaldrar og áttu mörg sameiginleg áhugamál, s.s. ferðalög, veiðar, söng og spilamennsku. Ég vil þakka Guðmundi, sonum hans og fjölskyldum fyrir natni og ástúð í garð Laugu, þau voru henni mjög kær.

Við vorum svo heppin að fá að hafa Laugu á neðri hæðinni í Svarfaðarbrautinni í eitt og hálft ár áður en hún flutti á Dalbæ. Fyrst bjuggum við Haukur á efri hæðinni og svo Snorri sonur okkar og hans fjölskylda eftir að við fluttum til Húsavíkur. Það var dásamlegur tími og hún naut sín vel þótt veikindi hafi aðeins verið farin að há henni undir það síðasta. Á Dalbæ átti hún góða daga og naut umönnunar úrvals starfsfólks, hún sagði stundum að hún hefði dottið í lukkupottinn að fá að búa á Dalbæ. Fjölskyldan var líka dugleg að heimsækja hana og stytta henni stundir.

Lauga lést á Dalbæ þann 18. júní sl. umkringd ástvinum. Ég og fjölskyldan þökkum henni fyrir samfylgdina. Hennar er sárt saknað en við erum þakklát fyrir lífið sem hún lifði og stundirnar sem við fengum með henni á lífsleiðinni.

Katrín Sigurjónsdóttir.

Elsku amma. Mikið eigum við eftir að sakna þín.
Tími okkar systkina í sveitinni hjá ömmu var litaður dásamlegum töfraljóma. Það voru algjör forréttindi sem barn að geta hjólað yfir höfðann á sumrin til að eyða deginum í sveitinni hjá ömmu og Snorra. Það var ýmislegt brasað; það var alltaf jafn mikið sport að fá að sækja mjólk í tankinn með kaffinu og þegar mjólkurbíllinn kom að fá að sækja sér salómons svarta-jógúrt. Mörgum dögum var eytt í fjallinu, tíndum ber, lékum okkur í læknum og söfnuðum músum í stígvélin. Frelsið og traustið sem við fengum var ómetanlegt. Amma kenndi okkur að umgangast bæði dýrin og náttúruna af mikilli virðingu. Hún kenndi okkur nöfnin á öllum helstu plöntunum sem við sáum á göngu í fjallinu, nöfnin og hljóðin í fuglunum og talaði við dýrin eins og þau skildu hana. Ógleymanlegt er eitt atvik þegar við sátum við eldhúsborðið einn daginn og endurnar komu vappandi út úr hlöðunni og út á hlaðið. Amma fór út á tröppur og kallaði; stelpur, inn með ykkur! Endurnar sneru við á punktinum og beint inn í hlöðuna aftur, skildu hana fullkomlega.

Eftir langa daga stútfulla af ævintýrum var alltaf fullt borð af alls kyns góðgæti, það fór enginn svangur frá ömmu og yfirleitt var setið í hverjum stól við eldhúsborðið og stundum tveir rassar á einum. Það var aldrei vesen að hafa alla þessa gorma, alveg sama þó að hún hefði fangið fullt af öðrum verkefnum. Eftir matinn var svo ósjaldan spilað rommí við eldhúsborðið.
Amma átti alltaf tíma fyrir okkur, gaf fallegustu og hlýjustu knúsin og talaði alltaf svo fallega til okkar. Þegar við komum til hennar byrjuðu flest samtöl á „komdu hérna góan mín“ eða „hvað segirðu heillin?“ og fylgdi faðmlag á eftir.
Amma gat allt! Hún var listakona fram í fingurgóma, bakaði dýrindis bakkelsi, söng í kórnum, málaði málverk, skar út og prjónaði það sem henni datt í hug án þess að hafa uppskrift svo eitthvað sé nefnt. Um jólin var alltaf beðið eftir hosunum sem alla jafna komu með í jólapökkunum frá henni. Hún var harðdugleg, ósérhlífin og kvartaði aldrei. Gekk í öll störf í sveitinni, tók þátt í endalausu félagsstarfi og ferðaðist eins og hún gat. 90 falleg ár, þótt gengið hafi á með skini og skúrum. Hún fékk að reyna meira en margur en sagði alltaf full af æðruleysi að enginn færi áfallalaust í gegnum lífið. Nú síðast þegar síðasta áfallið bankaði á dyrnar sagði hún: „Hví skyldi ég ekki fá þetta eins og hinir?“ Þessi orð eru svo sannarlega lýsandi fyrir hana og viðhorf hennar til lífsins.

Elsku amma, takk fyrir alla hlýjuna, þolinmæðina, allt það sem þú kenndir okkur og fallega viðhorfið þitt. Það var alltaf svo dásamlegt að koma til þín.
Takk fyrir allt.

Sigurlaug Dröfn, Hermann, Hjörvar Blær og Hafrún Mist.

Það var árið 1999 sem faðir okkar, Guðmundur Þorsteinsson, og Lauga rugluðu saman reytum sínum. Bæði höfðu misst maka sína mörgum árum áður, voru jafnaldrar, fæddust og ólust upp í nágrenni hvort við annað, hann á Hálsi í Svarfaðardal og hún á Brattavöllum í Árskógshreppi. Þau þekktust þó lítið framan af, hann gekk í skóla á Dalvík, hún á Árskógsströnd.

Ef til vill var það söngurinn sem tengdi Laugu og pabba á endanum. Hún söng altrödd í kirkjukór Stærri-Árskógskirkju í áratugi, hluta af þeim tíma undir stjórn pabba en hann var organisti og kórstjóri þar í mörg ár. Þau gengu síðar bæði í kór eldri borgara á Dalvík og sungu með honum meðan heilsan leyfði, vel fram á níræðisaldur. Lauga lét það ekki stöðva sig þótt fæturnir færu að bregðast henni. Hún náði sér bara í stól, sat og söng.

Þau höfðu einnig yndi af stangveiði og nýttu hverja stund á sumrin til að fara saman í veiði. Í pásum flugu veiðisögur. Meðal annars rifjaði Lauga upp að hún sem ung kona hafði nýtt stundir milli verka í sveitinni, hlaupið niður fyrir foss í Þorvaldsdalsá og kastað fyrir silung. Hann beit oft á, þótt veiðarfærin væru ekki merkileg. Þegar árin færðust yfir völdu þau árnar og vötnin af meiri kostgæfni, það varð jú að komast með göngugrindina að veiðistaðnum!

Lauga var afskaplega gestrisin og heimboðin minnisstæð. Kvöldverðarboð eitt snemmsumars stendur okkur ljóslifandi í minni en þá bjó Lauga enn á Krossum. Eftir ljúffengan kvöldverð sátum við í eldhúsinu hjá henni, spjölluðum og nutum eldrauðs sólarlagsins yfir spegilsléttum haffletinum út Eyjafjörð. Útsýnið og stemningin var mögnuð og þá skildi maður vel hvernig er hægt að taka ástfóstri við svona stað. Ekki skemmdi fyrir að Lauga og yngsti sonurinn, Snorri, ráku dýragarð á Krossum á þessum tíma og börnunum okkar fannst heilt ævintýri að vera þarna.

Árið 2012 kom þó að því að Lauga flutti til Dalvíkur og kom sér þar fyrir í snoturri íbúð við Bjarkarbraut. Þetta var happ Ingimars og yngri barna hans því samskiptin jukust, eftir skóla gátu þau alltaf leitað til hennar, eitthvað gott fannst í kökuboxinu og jafnvel gripið í spil. Í þeirra augum var hún amma Lauga.

Liðinn er sá tími þegar við komum í heimsókn til föður okkar á Akureyri, heyrðum hlátrasköll úr eldhúsinu og þar sátu hann og Lauga, hvort á móti öðru við eldhúsborðið og spiluðu rommý. Sögurnar og skoðanaskiptin gengu á milli þeirra, bæði föst fyrir (stundum þurftum við bræður að gúgla staðreyndir til að leysa úr ágreiningi, „þar hitti andskotinn ömmu sína“ eins og einn okkar bræðra komst einhvern tíma að orði). En þetta risti aldrei djúpt, við fundum alltaf að ástin og umhyggjan stóð óhögguð.

Okkur langar að þakka fjölskyldu Laugu fyrir alla þá hlýju sem hún hefur sýnt okkur og börnum okkar þessi 25 ár. Við sendum börnum hennar og afkomendum okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Elsku pabbi, við bræðurnir samhryggjumst þér innilega vegna fráfalls ástkærrar vinkonu.

Ingimar, Ármann Helgi, Svavar Þór og fjölskyldur.

Mig langar til að minnast Laugu, vinkonu minnar til margra ára. Hún var mikil kjarnakona. Hún hefur þurft að berjast við margt heilsufarslega séð um ævina, en alltaf borið sigur úr býtum þar til nú. Hún var fædd á Árskógsströnd og hefur alla tíð búið þar og starfað, þar til fyrir nokkrum árum, að hún flutti til Dalvíkur og nú síðast á Dalbæ. Hún er samt alltaf þekkt sem Lauga á Krossum.

Við urðum fyrst vinkonur í barnaskóla. Ég átti heima í Engihlíð, hún á Brattavöllum. Mæður okkar beggja voru ljósmæður. Mamma hennar Freygerður var sótt til að taka þá móti mér, ég var reyndar komin í heiminn þegar hún mætti á staðinn. Tveim árum seinna tók móðir mín Ingibjörg á móti Laugu. Hún tók líka á móti fjórum fyrstu börnum hennar og eftir að ég varð ljósmóðir tók ég á móti þremur þeim yngstu. Þetta var skemmtileg flétta.

Við Lauga erum báðar Vatnsberar. Á barnaskólaárum okkar hittumst við talsvert. Fórum saman í göngutúra og trúðum hvor annarri fyrir ýmsu. Það er t.d. enn í minni mínu þegar hún sagði: Veistu að ég öfunda þig svo af höndunum þínum. Ég vildi að ég hefði svona hendur. Ég held að ég hafi aldrei verið jafn hissa og þá. Ég hefði nefnilega gjarnan viljað hafa hendurnar hennar. Þegar pabbi minn vildi kenna mér að spila á orgel hafði ég ekki áhuga. Mér fannst að ég gæti aldrei látið aðra horfa mig spila, með þessar miður fallegu hendur!

Svo liðu árin, við urðum báðar húsfreyjur í sveitinni okkar, þar sem við ásamt mönnum okkar stunduðum búskap. Samt gafst jafnframt tími til annars og við sungum saman í þrem kórum um ævina. Lauga hafði mjúka og þægilega rödd og svo gat hún líka jóðlað. Við unnum einnig báðar í margskonar félögum og vorum því farnar að þekkjast mjög vel. Lauga var mjög virk í kvenfélaginu Hvöt, var t.d. formaður þar í níu ár. Hún var formaður sóknarnefndar um árabil og síðar formaður í félagi eldri borgara í þrjú ár. Þarna var hún jafnframt virk í öðrum störfum og svo tók hún líka þátt í málum hreppsins og vann þar að ýmsum málum, oft ásamt manni mínum Sveini Jónssyni. Hann vill því hér með þakka Laugu fyrir alla þeirra samvinnu.

Þarna kemur fram bara lítið brot af því sem hún hefur unnið að um ævina. Við Sveinn höfum nú á undanförnum árum oft rifjað upp ýmislegt frá fyrri dögum með Laugu og fengum að heyra margt forvitnilegt frá hennar barnæsku. Sveinn hefur líka minnt hana á hve mikill dugnaðarforkur hún var og minntist sérstaklega á það sem hann mundi svo vel eitt sinn er fé fennti og Lauga var að draga fé úr snjósköflunum, þá þótti hún karlmanns ígildi, svo eitthvað sé nefnt. Lauga á stóra og yndislega fjölskyldu og fylgdist vel með lífi hvers og eins og einnig með fjölskyldu Guðmundar. Hér er enn ótalmargt ótalið, en að endingu viljum við hjónin bæði þakka Laugu fyrir góða samfylgd og samvinnu á undanförnu árum. Far þú í friði, friður Guðs þig blessi.

Börnum, tengdabörnum og fjölskyldum öllum, Guðmundi og hans fjölskyldu allri, sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Ása Marinósdóttir og Sveinn Jónsson.