Ríkiseignir Sigurður Þórðarson, fv. settur ríkisendurskoðandi, hefur áður gert fjölmargar athugasemdir við innra stjórnskipulag Lindarhvols.
Ríkiseignir Sigurður Þórðarson, fv. settur ríkisendurskoðandi, hefur áður gert fjölmargar athugasemdir við innra stjórnskipulag Lindarhvols. — Morgunblaðið/Eggert
Eignarhaldsfélagið BLM fjárfestingar, sem keypti hlut ríkisins og Arion banka í Klakka (áður Exista), fjórfaldaði verðmæti félagsins á örfáum árum. Háar greiðslur vegna ráðgjafaþjónustu félagsins kunna að kalla á frekari rannsókn.

Gísli Freyr Valdórsson
gislifreyr@mbl.is

Eignarhaldsfélagið BLM fjárfestingar, sem keypti hlut ríkisins og Arion banka í Klakka (áður Exista), fjórfaldaði verðmæti félagsins á örfáum árum. Háar greiðslur vegna ráðgjafaþjónustu félagsins kunna að kalla á frekari rannsókn.

Þetta kemur fram í bréfi sem Sigurður Þórðarson, fyrrverandi ríkisendurskoðandi og settur ríkisendurskoðandi vegna Lindarhvols ehf., hefur sent héraðssaksóknara. Hann lét afrit af bréfinu fylgja til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis og ríkisskattstjóra. Morgunblaðið hefur bréfið undir höndum.

Sigurður hefur sem kunnugt er haft uppi mikla gagnrýni um starfsemi Lindarhvols, sem hafði umsjón með sölunni á Klakka til BLM fjárfestinga. Eins og fjallað var um í Morgunblaðinu í mars sl. telur Sigurður að ríkið hafi orðið af um 1,7 milljörðum króna með sölunni, sem skýrist að mestu af þeim tekjum sem Klakki aflaði síðar við innheimtu skulda sem tilheyrðu félaginu. Nokkuð hefur verið fjallað um málefni Lindarhvols, en félagið var stofnað af fjármálaráðherra árið 2016 um þær eignir sem ríkinu áskotnuðust í kjölfar samninga við slitabú bankanna, annarra en Íslandsbanka. Til stóð að slíta félaginu árið 2018 en það hefur tafist vegna ágreinings um sölu á Klakka.

Telur skýringar vanta

Sigurður telur sem fyrr að Lindarhvoll hafi selt eignarhlut ríkisins í Klakka á allt of lágu verði. BLM fjárfestingar, sem er í eigu bandaríska vogunarsjóðsins Burlington Loan Management, keypti hlutinn á 454 milljónir króna. Greiðslur Klakka til BLM áttu síðar eftir að nema margfalt þeirri fjárhæð.

Í bréfi sínu til héraðssaksóknara spyr Sigurður hvers vegna 361 milljón króna var greidd fyrir sérfræðiþjónustu. Hann telur að skýringar vanti um það hvaða verkefni kalli á útgjöld af svo miklum toga í félagi með jafn litla starfsemi. Í ljósi þess að ekki sé gerð nánari grein fyrir þessu í ársreikningum félagsins, vill hann að opinberir aðilar taki þetta til skoðunar.

„Að því gefnu, að lánveitandi til BLM ehf. hafi verið móðurfélagið Burlington Management DAC., sem er eigandi að 100% í BLM ehf., má áætla, að vaxtagreiðslur að fjárhæð 560 m.kr. hafi verið greiddar móðurfélaginu og ennfremur, að veitt sérfræðiþjónusta að fjárhæð 361 m.kr. hafi verið greidd til móðurfélagsins eða samtals 921 m.kr. Ekki verður séð við skoðun ársreikninga, að færðar hafi verið vaxtatekjur af innheimtu fjáreigna eða hvort innheimtan hafi verið greidd beint til móðurfélagsins,” segir í bréfi Sigurðar.

Þá segir hann að í skýringum með ársreikningum sé ekki gerð grein fyrir tilefni útgjaldanna en þau eru stærsti einstaki útgjaldaliður á því tímabili sem hann hafði til skoðunar.

Endanleg aðkoma Sigurðar

Þá segir Sigurður að eftir að hafa aflað upplýsinga úr ársreikningum BLM fjárfestinga ehf. telji hann brýnt að opinberir aðilar sem málið varðar taki málið til skoðunar. Sigurður segir meðal annars að skoða þurfi skattskil og ársreikningaskil félagsins út frá lögum um ársreikninga, lögum um endurskoðendur sem og skattalögum.

Hann ítrekar í bréfi sínu að í störfum sínum hafi hann gert margar athugasemdir við starfsemi Lindarhvols og að verulegur skortur hafi verið á því að félagið hafi veitt honum þær nauðsynlegu upplýsingar sem hann hafi óskað eftir.

Þá segir Sigurður að þær niðurstöður sem raktar eru í erindinu og unnar upp úr ársreikningum BLM fjárfestinga ehf. árabilið 2015 til 2022 staðfesti enn og aftur þær athugasemdir sem hann hafi vakið athygli á í máli þessu síðustu sex árin. Í lok bréfsins lýsir Sigurður því yfir að afskiptum hans af málinu, sem spanna níu ár, sé nú lokið og það sé þar til bærra yfirvalda (ríkisskattstjóra og héraðssaksóknara) að fylgja málinu eftir.

Höf.: Gísli Freyr Valdórsson