Verðbólga Fjármálaráðherra fagnar lækkandi verðbólgu.
Verðbólga Fjármálaráðherra fagnar lækkandi verðbólgu. — Morgunblaðið/Eggert
Forystumenn verkalýðshreyfingarinnar, forsætisráðherra og fjármálaráðherra fagna því að verðbólgumælingar sýni verðbólgu nú mælast undir 6%.

Forystumenn verkalýðshreyfingarinnar, forsætisráðherra og fjármálaráðherra fagna því að verðbólgumælingar sýni verðbólgu nú mælast undir 6%. Tólf mánaða verðbólga mælist nú 5,8% samkvæmt tölum Hagstofunnar sem birtar voru í gærmorgun, og lækkar úr 6,2% frá fyrri mánuði. Þetta er í fyrsta sinn frá því í janúar 2022 sem verðbólga mælist undir 6%.

„Þetta er auðvitað í takt við þær væntingar sem við höfum haft að verðbólgan væri að fara niður,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannesson fjármálaráðherra í samtali við mbl.is í gær. Sigurður Ingi sagði það mikilvægt að þrátt fyrir að verðbólga mælist á niðurleið að halda áfram með aðhald í ríkisfjármálunum. Í haust verði lögð fram aðhaldssöm fjárlög.

Vill hraustlega lækkun

Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og fyrrverandi fjármálaráðherra, sagði tíðindin ánægjuleg í samtali við mbl.is í gær. Það verði þó að gæta hófsemi og stillingu. Spurður hvort það væri kominn tími á að Seðlabankinn lækki stýrivexti svaraði Bjarni þróunina vera að fara í rétta átt. „Þegar hlutir fara að þróast í rétta átt þá getum við farið að hafa væntingar um lækkun vaxta. En við skulum sjá, við megum ekki fara fram úr okkur,“ sagði Bjarni.

Finnbjörn A. Hermannsson, forseti Alþýðusambands Íslands, sagðist kalla eftir því að Seðlabanki Íslands myndi taka þátt í því að ná verðbólgu niður verðbólgu. Hann geti gert heilmikið með því að lækka stýrivexti að hans sögn.

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, tók í svipaðan streng og Finnbjörn og sagði það mikilvægt að Seðlabankinn færi í hraustlega lækkun stýrivaxta 21. ágúst þegar næsta vaxtaákvörðun peningastefnunefndar verður tekin.

Bæði greining Íslandsbanka og hagfræðideild Landsbankans gera ráð fyrir því að verðbólga verði á bilinu 5,8-6,0% næstu mánuði og fram á haust.