Ragnar Stefánsson, jarðskjálftafræðingur, lést á Landspítalanum í gær, 85 ára að aldri.
Ragnar var fæddur í Reykjavík árið 1938 og var sonur Rósu Kristjánsdóttur og Stefáns Bjarnasonar.
Ragnar var um árabil einn helsti jarðskjálftafræðingur Íslands. Fékk hann meðal annars Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2022 fyrir bókina Hvenær kemur sá stóri? og fjallar hún um jarðskjálftarannsóknir.
Gekk Ragnar gjarnan undir viðurnefninu „Ragnar skjálfti“ og var það skírskotun í starfsvettvang hans.
Ragnar stundaði nám við Uppsala-háskóla í Svíþjóð og lauk Fil. kand.-prófi (B.Sc.) í stærðfræði og eðlisfræði 1961 og Fil. kand.-prófi í jarðeðlisfræði 1962 og árið 1966 Fil.lic.-prófi (Ph.D.) í jarðskjálftafræði.
Árin 1962–1963 og frá 1966 til 2003 var hann forstöðumaður jarðeðlissviðs Veðurstofu Íslands og 2004–2005 forstöðumaður rannsóknarstofu Veðurstofunnar við Háskólann á Akureyri.
Árin 2005–2008 var hann rannsóknarprófessor við Háskólann á Akureyri, þar sem hann var prófessor emeritus.
Alla starfsævi sína var meginverksvið hans eftirlit og rannsóknir til að draga úr hættum af völdum jarðskjálfta og eldgosa.
Árið 2011 sendi Ragnar frá sér bókina Advances in Earthquake prediction. Research and Risk Mitigation, þar sem hann dró saman meginniðurstöður rannsókna sinna og reynslu af jarðskjálftaspám.
Ragnar sinnti ýmsum félagsstörfum. Hann var í forystu Fylkingarinnar á árunum 1966–1984, lengst af sem formaður samtakanna. Hann var formaður Framfarafélags Dalvíkurbyggðar frá stofnun þess 2002 og lengi framan af. Á árunum 2003–2008 var hann formaður samtakanna Landsbyggðin lifi. Hann var meðal stofnenda VG, Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, árið 1999 og var um hríð í flokksráði samtakanna.
Eftirlifandi eiginkona Ragnars er Ingibjörg Hjartardóttir bókasafnsfræðingur en hann var áður kvæntur Ástríði Ákadóttur menntaskólakennara. Eignuðust þau þrjú börn; Kristínu, Stefán Áka og Gunnar Bjarna. Með Björk Gísladóttur eignaðist Ragnar eina dóttur, Bryndísi Hrönn.