FRÉTTASKÝRING
Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Sameining Húnabyggðar og Skagabyggðar á Norðurlandi vestra, sem íbúar sveitarfélaganna tveggja samþykktu í atkvæðagreiðslu á dögunum, tekur formlega gildi 1. ágúst næstkomandi. Stuðningur við sameininguna var afgerandi; um 90% þeirra sem atkvæði greiddu í Húnabyggð voru henni fylgjandi og í Skagabyggð sögðu um 76% já en þar var 92,5% kosningaþátttaka sem vart gerist betri. Sá háttur verður hafður á að 1. ágúst tekur sveitarstjórn Húnabyggðar yfir stjórn mála í Skagabyggð. Fráfarandi sveitarstjórn í síðarnefnda sveitarfélaginu verður til loka kjörtímabils vorið 2026 sem heimastjórn á Skaganum og mun þannig hafa umsagnarétt um málefni sem snerta íbúa núverandi Skagabyggðar og fylgja eftir vissum málum sem eru í vinnslu og snerta íbúa.
Nýtt sameinað sveitarfélag mun ná yfir alls 4.500 ferkílómetra svæði sem nær frá Gljúfurá í Þingi í vestri norður á Skagatá. Inn til landsins eru landamærin í suðri við vatnaskil á Kili. Á þessu svæði eru hinir grösugu húnvetnsku dalir og svo landið út við sjóinn, þar sem er Blönduós. Íbúar þar eru um 840 en um 1.260 í sveitarfélaginu öllu.
Í Skagabyggð voru íbúarnir 86 um áramót og til heimilis á um 30 bæjum, samkvæmt því sem Erla Jónsdóttir í Kambakoti fráfarandi oddiviti greinir frá. Skagabyggð byrjar í suðri við Laxá í Refasveit og nær alla leið að Ásbúðum, það er á Skaga en svo heitir einu nafni sá kjálki landsins sem skilur á milli Húnaflóa og Skagafjarðar.
Að fenginni niðurstöðu í atkvæðagreiðslunni stendur eftir að Skagaströnd er áfram sjálfstætt sveitarfélag. Þar hefur ekki verið hljómgrunnur fyrir sameiningu, sbr. niðurstöður í kosningum árið 2021. Á Skagaströnd búa í dag um 450 manns og reiknar Erla oddviti að íbúar á Skaganum muni áfram vilja sækja þangað helstu þjónustu, svo sem grunnskóla og félagsstarf en um það þurfi hins vegar að semja upp á nýtt.
„Hér í Skagabyggð voru síðasta vetur tólf börn í grunnskóla sem þau sóttu ýmist á Skagaströnd eða Blönduós. Slíkt væntanlega breytist ekki, en stjórnsýslan í nýju sameinuðu sveitarfélagi verður á Blönduósi,“ segir Erla sem telur ýmis tækifæri til vaxtar og sóknar felast í sameiningu sveitarfélaga. Þess utan hafi Skagabyggð í þeirri mynd sem var ekki haft þann styrk sem var sakir fámennis.
„Landbúnaður og þá einkum sauðfjárrækt og mjólkurframleiðsla hefur verið undirstaða í atvinnulífi hér. Veruleikinn er hins vegar sá að jafnhliða búskap sækir fólk talsvert vinnu af heimili til þess að framfleyta sér, margir þá til dæmis á Skagaströnd og Blönduós. Þó höfum við ýmsa möguleika hér á svæðinu til uppbyggingar, svo sem á ferðaþjónustu í náttúruperlunni Kálfshamarsvík og á Skagaheiði er kjörlendi fyrir virkjun vindorku. Einnig er þar í skoðun að hvort þar megi reisa vatnsaflsvirkjun,“ segir Erla í Kambakoti.