Ástin Nicola Coughlan og Luke Newton í hlutverkum Penelope og Colin sem eru í forgrunni í þriðju þáttaröðinni.
Ástin Nicola Coughlan og Luke Newton í hlutverkum Penelope og Colin sem eru í forgrunni í þriðju þáttaröðinni.
Karlmenn í flegnum hvítum skyrtum hafa alltaf heillað mig. Sögupersónan herra Darcy hefur því verið í miklu uppáhaldi hjá mér og eitt af mínum uppáhaldsatriðum í kvikmyndasögunni er atriðið í Hroka og hleypidómum (Joe Wright) frá 2005 þegar herra Darcy (Matthew Macfadyen) snertir fyrst Elizabeth Bennet (Keira Knightley).

Af listum
Jóna Gréta Hilmarsdóttir
jonagreta@mbl.is

Karlmenn í flegnum hvítum skyrtum hafa alltaf heillað mig. Sögupersónan herra Darcy hefur því verið í miklu uppáhaldi hjá mér og eitt af mínum uppáhaldsatriðum í kvikmyndasögunni er atriðið í Hroka og hleypidómum (Joe Wright) frá 2005 þegar herra Darcy (Matthew Macfadyen) snertir fyrst Elizabeth Bennet (Keira Knightley). Hann tekur í höndina á henni og hjálpar henni upp í hestvagninn sinn. Ég tók andköf af hrifningu og hélt að ég myndi aldrei sjá neitt eins kynþokkafullt í sjónvarpinu aftur en mér skjátlaðist.

Bridgerton er rómantísk Netflix-þáttaröð byggð á samnefndri bókaseríu eftir Juliu Quinn og segir frá Bridgerton-fjölskyldunni og öðru bresku yfirstéttarfólki í makaleit á fyrri hluta 19. aldar. Fyrsta þáttaröðin, sem byggir á bókinni Hertoginn og ég, kom á Netflix árið 2020 og segir frá Daphne Bridgerton (Phoebe Dynevor) sem gerir samkomulag við þrjóska glaumgosann Simon Basset (Regé-Jean Page) um að þykjast fella hugi saman. Smátt og smátt hætta þau að þurfa að þykjast og viðurkenna fyrir sjálfum sér og hvort öðru að þau séu ástfangin. Miðað við viðbrögðin mín við fyrrnefndu atriði í Hroka og hleypidómum er rétt svo hægt að ímynda sér hvað ég var spennt þegar ég komst að því að í Bridgerton voru mörg og löng ástríðufull kynlífsatriði. Nokkur atriðin voru svo kynþokkafull að þeim var lekið á klámsíður, segir orðrómurinn. Sumir aðdáendur eru þess vegna þeirrar skoðunar að Bridgerton séu ekki þættir sem þú horfir á með foreldrum þínum. Ég hef hins vegar fundið glufuna í reglunni, þ.e. að horfa á hana með tengdaforeldri, eða í mínu tilfelli með tengdamömmu. Við tengdamamma tökum fram rauðvínið og ostana og horfum á heilu þáttaraðirnar af Bridgerton á einu kvöldi.

Það má segja að þetta hafi verið ást við fyrstu sýn, ég féll fyrir Bridgerton við fyrsta áhorf. Eins og áður hefur komið fram eru þættirnir byggðir á bókum eftir Juliu Quinn en þær eru átta talsins. Þegar ég komst að því var ég fljót að kaupa mér fyrsta eintakið. Nú hef ég séð fyrstu þrjár seríurnar og viðbótarþáttaröðin um drottninguna og lesið fyrstu fjórar bækurnar en þær eru ekki síðri en þættirnir. Kápurnar gefa í skyn að um sé að ræða ljúfar ástarsögur en raunin er allt önnur, þetta er bara fullnægjandi fantasía.

Pitbull á brúðkaupsdaginn

Af því að ég hef bæði lesið fyrstu fjórar bækurnar og séð alla þættina langar mig að draga fram það sem bækurnar og þættirnir gera ólíkt. Nýjasta og þriðja þáttaserían verður sérstaklega tekin fyrir enda hefur hún verið á allra manna vörum, sérstaklega meðal kvenna í menningardeild Morgunblaðsins. Ef lesandi kærir sig ekki um að láta spilla fyrir sér þáttunum eða bókunum er best að sá hinn sami hætti að lesa núna.

Það fyrsta sem maður tekur eftir í þáttunum er að söguheimurinn er ekki að samkvæmur raunverulegu sögunni enda eru þeir byggðir á skáldsögum en ekki ævisögum. Búningahönnuðurinn fær til dæmis mikið frelsi miðað við að sagan gerist í fortíðinni og hið sama má segja um þann sem sér um förðunina en ég á erfitt með að trúa því að svona vönduð gerviaugnhár hafi staðið fólki til boða á þessum tíma. Ekkert þetta pirrar mig af því teymið bak við þættina er alltaf samkvæmt sjálfu sér.

Tónlistin er heldur ekki frá þessum tíma heldur eru þetta hljómsveitarábreiður af poppsmellum allt frá Taylor Swift yfir í Pitbull. Hver hefði trúað því að hljómsveitarábreiða af laginu Gefðu mér allt, eftir Pitbull, gæti hljómað svona fallega? Samfélagsmiðlastjörnur á Tiktok hafa gengið svo langt að segja að þær hafi áhuga á að nota lagið þegar þær ganga að altarinu í brúðkaupi sínu.

Áhorfendur eru heldur ekki vanir því að sjá svona marga leikara af mismunandi kynþætti og mismunandi stærðum og gerðum í afþreyingarefni sem á að sýna breskt yfirstéttarfólk snemma á 19. öld. Það er hins vegar ekki þannig að teymið bak við þáttaraðirnar sjái ekki lit og búið sé að stroka út alla hugmynd um rasisma úr sögunni. Í aukaþáttaröðinni er það til dæmis mikið áhyggjuefni að konungurinn taki sér konu sem er svört. Í fyrstu þáttaröðinni tekur Lady Danbury (Adjoa Andoh) svo Simon Bassett á teppið og minnir hann á baráttu og um leið fórnarkostnað drottningarinnar Charlotte (Golda Rosheuvel og India Amarteifio) en þau þrjú eru öllu leikin af svörtum leikurum. Hins vegar eru það nánast einu atriðin sem minna áhorfendur á að kynþættirnar standa raunverulega ekki jöfnum fæti. Þessi ákvörðun teymisins er mjög frískandi.

Áhorfendur eru ekki alltaf límdir við sjónarhorn ástarparsins eins og í bókunum sem er mjög góð ákvörðun. Strax í fyrstu þáttaröðinni fá áhorfendur tækifæri til að kynnast hinum Bridgerton-systkinunum, þ.e. stjórnsama Anthony (Jonathan Bailey), listræna Benedict (Luke Thompson), ferðalanginum Colin (Luke Newton) og þrjósku Eloise (Claudia Jessie) en öll fá þau sína þáttaröð – en hingað til eru það Daphne, Anthony og Colin sem hafa fengið sína. Systkinin eru fleiri en sum þeirra eru svo ung þegar fyrsta serían á að gerast að þau fá lítinn sem engan skjátíma.

Áhrifavaldurinn Lady Danbury, drottningin Charlotte og hin eina sanna Lady Whistledown fá einnig miklu stærra hlutverk en í bókunum. Skrif Lady Whistledown ramma inn söguna í bókunum og virka frekar eins og kynning inn í hvern kafla. Í þáttunum gegnir Lady Whistledown hins vegar svipuðu hlutverki og slúðurskjóða, í samnefndum þáttum (e. Gossip Girl). Lady Whistledown skrifar slúðurblöð þar sem hún birtir helstu skandalana sem áttu sér stað hverju sinni í samfélaginu og því eru allir á eftir henni. Undir lok fyrsta þáttaraðarinnar komast áhorfendur að því að það er enginn önnur en Penelope Featherington (Nicola Coughlan). Í bókunum kemur Lady Whistledown hins vegar ekki í ljós fyrr en í fjórðu bókinni, þ.e. Flagarinn Herra Bridgerton.

Fullkomnu brjóst Coughlan

Þriðja og nýjasta þáttaröðin fjallar um Penelope Featherington eða Lady Whistledown og segir frá því hvernig hún tekur saman við Colin Bridgerton. Ástarsaga Penelope Featherington og Colin Bridgerton er hins vegar ekki þriðja bókin, Tilboð frá herramanni, heldur er það ástarsaga Benedict Bridgerton og Sophie Beckett sem er í raun bara endurútgáfa af sögunni um Öskubusku. Sú bók fær hins vegar þáttaröð seinna. Í staðinn var ákveðið að klára ástarsögu Pen og Colin sem áhorfendur höfðu þegar fengið að kynnast í gegnum tvær þáttaraðir og í skaðabætur fáum við að sjá Bendict í þríkanti með konu og karli. Stærsti munurinn á milli fjórðu bókarinnar og þriðju þáttaraðarinnar er hins vegar saga Francescu (Hannah Dodd) en áhorfendur hafa lítið kynnst henni í fyrri þáttaröðum enda er sagan hennar ekki sögð fyrr en í sjöttu bókinni. Francesca hittir hins vegar eiginmann sinn John Stirling (Victor Alli) í nýjustu þáttaröðinni en sannir aðdáendur vita að það er ekki stóra ástin hennar heldur frændi hans, Michael Stirling. Undir lok þriðju þáttaraðarinnar hittum við óvænt Stirling (Masali Baduza) nema í þáttaröðunum er Stirling ekki frændi heldur frænka og er þannig gefið í skyn að Francesca endi ekki í gagnkynhneigðu sambandi sem er skemmtileg tilbreyting.

Fyrstu tvær þáttaraðirnar gerði þáttastjórnandinn Chris Van Dusen en nýjustu þáttaröðina gerði nýi þáttastjórnandinn Jess Brownwell sem er síðri af því hún leyfir sér ekki að kafa djúpt í ástarsögu meginpersónanna og reynir að segja of margar sögur í einu. Mig langar að sjá ástríðuna á milli Colin og Pen, ég hef engan áhuga á sögu barhjónanna eða þríkanti Benedicts. Með því að halda svona mörgum boltum á lofti fær hver saga svo lítinn undirbúning og frágang. Ég hefði til dæmis haft mikinn áhuga á að sjá hvernig fer fyrir Cressidu (Jessica Madsen) og ástarsögu Francescu og John en það gefst ekki tími til þess og hið sama má segja um Pen og Colin jafnvel þótt þau séu aðalpersónur þáttaraðarinnar. Ég hefði alla vega viljað sjá fleiri ástaratriði á milli Colin og konunnar með fullkomnu brjóstin eins og leikkonan Nicola Coughlan kallar sig sjálfa.

Höf.: Jóna Gréta Hilmarsdóttir