Þrenna Danijel Dejan Djuric lagði upp þrjú marka Víkings og á hér í höggi 
við Jóhann Árna Gunnarsson.
Þrenna Danijel Dejan Djuric lagði upp þrjú marka Víkings og á hér í höggi við Jóhann Árna Gunnarsson. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Víkingar náðu í gærkvöld fjögurra stiga forskoti í Bestu deild karla í fótbolta þegar þeir unnu ótrúlega auðveldan sigur á Stjörnunni í Garðabæ, 4:0.

Víkingar náðu í gærkvöld fjögurra stiga forskoti í Bestu deild karla í fótbolta þegar þeir unnu ótrúlega auðveldan sigur á Stjörnunni í Garðabæ, 4:0.
Þeir eru þá komnir með 30 stig en Breiðablik með 26 stig og Valur með 25 spila bæði í kvöld. Stjarnan seig niður í sjöunda sætið með 16 stig.
Víkingar voru miklu sterkari aðilinn og voru með leikinn í hendi sér eftir að varamaðurinn Helgi Guðjónsson kom þeim í 3:0 á 58. mínútu, nýkominn inn á sem varamaður. Helgi skoraði aftur og Danijel Dejan Djuric lagði upp þrjú markanna.

Fylkir jafnaði tvisvar

KR og Fylkir skildu jöfn í Vesturbænum, 2:2, og KR-ingar léku þar sinn fimmta leik í röð án sigurs.
Þeir hafa þó gert jafntefli í báðum leikjunum undir stjórn Pálma Rafns Pálmasonar og fóru upp fyrir HK á markatölu og í áttunda sætið með 13 stig en Fylkir náði KA að stigum á botninum, bæði eru með 8 stig.
Kristján Flóki Finnbogason kom KR tvisvar yfir, í bæði skiptin með skalla eftir fyrirgjöf Arons Sigurðarsonar.
Þóroddur Víkingsson og Nikulás Val Gunnarsson skoruðu tvö jöfnunarmörk fyrir Árbæinga.

Langþráður sigur Fram

Framarar unnu langþráðan sigur, þann fyrsta í sjö leikjum, þegar þeir sigruðu Vestra á sannfærandi hátt á Ísafirði, 3:1.
Fram lyfti sér upp í sjötta sætið með 16 stig en Vestramenn sitja eftir með 10 stig í tíunda sætinu. Þetta var þeirra þriðji ósigur í röð og Vestri hefur tapað fyrstu tveimur leikjum sínum á heimavellinum á Ísafirði með markatölunni 2:8.
Framarar, með Fred Saraiva sem besta mann, náðu undirtökunum með því að komast í 2:0 í fyrri hálfleik og þegar varnarjaxlinn Brynjar Gauti Guðjónsson skoraði þriðja markið í byrjun síðari hálfleiks voru úrslitin nánast ráðin. Sárabótarmark Andra Rúnars Bjarnasonar í uppbótartíma breytti engu fyrir Vestra sem nú er kominn í alvöru fallbaráttu.
Hinir þrír leikirnir í 12. umferð fara fram í kvöld þegar HK og KA mætast klukkan 18 og FH - Breiðablik og ÍA - Valur klukkan 19.15.

Myndatexti 1:
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Þrenna Danijel Dejan Djuric lagði upp þrjú marka Víkings og á hér í höggi við Jóhann Árna Gunnarsson.

Myndatexti 2:
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Jöfnuðu Fylkismenn fagna fyrra jöfnunarmarki sínu gegn KR í Vesturbænum.

HANDBOLTINN

Féllu í framlengingu á HM

Íslenska U20-ára landslið kvenna í handknattleik tapaði í framlengdum leik gegn ríkjandi Evrópumeisturum Ungverjalands í aldursflokknum, 34:31, þegar liðin áttust við í átta liða úrslitum HM 2024 í Skopje í Norður-Makedóníu í gær.
Íslenska liðið leikur þar með um fimmta til áttunda sæti á mótinu. Í dag mætir það Svíum sem töpuðu 25:21 fyrir Hollendingunum í átta liða úrslitunum í gær.
Ungverjaland var yfir í hálfleik, 19:12, og komst í 21:12, en með magnaðri frammistöðu jafnaði Ísland metin í 29:29 rétt fyrir leikslok og skoraði þrjú síðustu mörkin.
Ungverjar voru síðan sterkari í framlengingunni og fara í undanúrslitin.
Markahæstar í liði Íslands voru Lilja Ágústsdóttir með 7 mörk, Elín Klara Þorkelsdóttir með 6 og Inga Dís Jóhannsdóttir með 5 mörk.

Ljósmynd/Jon Forberg

Myndatexti:

Sjö Lilja Ágústsdóttir var markahæst gegn Ungverjum.

EITT OG ANNAÐ

Efri myndin af Tómasi er komin í möppuna.

Íslensku strákarnir í U20 ára landsliðinu í körfuknattleik eru með fullt hús stiga á Norðurlandamótinu í Södertälje í Svíþjóð eftir sigur á Svíum í gær, 82:78. Þeir unnu Eista í fyrsta leik og eru því með fjögur stig eftir tvo leiki en eiga eftir að mæta Dönum og Finnum. Almar Orri Atlason skoraði 16 stig fyrir íslenska liðið, Tómas Valur Þrastarson 14, Kristján Fannar Ingólfsson 14, Ágúst Goði Kjartansson 13 og Elías Bjarki Pálsson var með 11 stig og 14 fráköst.

Ómar Ingi Magnússon, Gísli Þorgeir Kristjánsson og félagar í Magdeburg verða með Barcelona og Aalborg í riðli í Meistaradeildinni í handbolta í vetur en Barcelona vann Aalborg í úrslitaleik keppninnar í vor. Í riðlinum eru einnig Kielce, Pick Szeged, Nantes, Zagreb og Kolstad. Í A-riðli eru Wisla Plock, Veszprem, París SG, Fredericia, Füchse Berlín, Sporting, Dinamo Búkarest og Pelister. Tólf Íslendingar leika með þessum liðum og Guðmundur Þ. Guðmundsson þjálfar Fredericia.

Afturelding komst í annað sæti fyrstu deildar kvenna í fótbolta í gærkvöld með því að vinna HK 3:1 í Kórnum í Kópavogi. FHL og Afturelding eru með 16 stig og HK 14 í þremur efstu sætunum. Selfoss og Grótta gerðu markalaust jafntefli.

Viðar Ari Jónsson skoraði fyrra mark HamKam þegar liðið vann Sandefjord á útivelli, 2:1, í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í gærkvöld. Viðar lék allan leikinn með HamKam og Brynjar Ingi Bjarnason frá og með 65. mínútu. Lið þeirra er í 10. sæti.

Kristján Guðmundsson er hættur sem þjálfari kvennaliðs Stjörnunnar eftir að hafa stýrt því frá árinu 2019. Jóhannes Karl Sigursteinsson hefur verið ráðinn í hans stað en hann þjálfaði Stjörnuliðið áður á árunum 2005-2007 og síðan kvennalið Breiðabliks, HK/Víkings og KR.

Heimir Hallgrímsson og hans menn í karlalandsliði Jamaíku í fótbolta töpuðu 3:1 fyrir Ekvador í Ameríkubikarnum í fyrrinótt en leikið var í Las Vegas. Michail Antonio , leikmaður West Ham, skoraði mark Jamaíku sem er stigalaus eftir tvo leiki og á ekki möguleika á að komast í átta liða úrslitin.

Hollenska knattspyrnufélagið Groningen staðfesti í gær kaup á Brynjólfi Willumssyni frá Kristiansund í Noregi. Groningen er nýliði í hollensku úrvalsdeildinni eftir að hafa endað í öðru sæti B-deildar í vetur.

Bandaríski körfuknattleiksmaðurinn Andrew Jones er kominn til liðs við úrvalsdeildarlið Álftaness. Hann er 26 ára bakvörður og kemur frá franska C-deildarliðinu Orchies.

Körfuknattleiksmaðurinn Orri Hilmarsson er genginn til liðs við KR á ný eftir að hafa leikið í bandaríska háskólaboltanum undanfarin fjögur ár. Orri, sem er 24 ára, varð þrisvar Íslandsmeistari með KR, á árunum 2017-2019, en lék svo eitt tímabil með Fjölni. KR vann 1. deildina í vetur og leikur því á ný í úrvalsdeildinni á næsta tímabili.

M-GJÖFIN Í BESTU DEILD KARLA

VESTRI - FRAM 1:3

0:1 Magnús Þórðarson 17.

0:2 Már Ægisson 39.

0:3 Brynjar Gauti Guðjónsson 48.

1:3 Andri Rúnar Bjarnason 90+6.

MM

Fred Saraiva (Fram)

M

Magnús Þórðarson (Fram)

Tiago Fernandes (Fram)

Már Ægisson (Fram)

Tryggvi Geirsson (Fram)

Adam Örn Arnarson (Fram)

Þorri Stefán Þorbjarnarson (Fram)

William Eskelinen (Vestra)

Dómari : Þórður Þ. Þórðarson - 8.

Áhorfendur : 550..

STJARNAN - VÍKINGUR 0:4

0:1 Nikolaj Hansen 10.

0:2 Karl Friðleifur Gunnarsson 23.

0:3 Helgi Guðjónsson 58.

0:4 Helgi Guðjónsson 78.

MM

Danijel Dejan Djuric (Víkingi)

M

Helgi Guðjónsson (Víkingi)

Karl Friðleifur Gunnarsson (Víkingi)

Matthías Vilhjálmsson (Víkingi)

Erlingur Agnarsson (Víkingi)

Nikolaj Hansen (Víkingi)

Gunnar Vatnhamar (Víkingi)

Helgi Fróði Ingason (Stjörnunni)

Dómari : Erlendur Eiríksson - 7.

Áhorfendur : 729.

KR - FYLKIR 2:2

1:0 Kristján Flóki Finnbogason 37.

1:1 Þóroddur Víkingsson 51.

2:1 Kristján Flóki Finnbogason 52.

2:2 Nikulás Val Gunnarsson 72.

M

Aron Sigurðarson (KR)

Birgir Steinn Styrmisson (KR)

Kristján Flóki Finnbogason (KR)

Theodór Elmar Bjarnason (KR)

Birkir Eyþórsson (Fylki)

Ólafur Kristófer Helgason (Fylki)

Ragnar Bragi Sveinsson (Fylki)

Þóroddur Víkingsson (Fylki)

Dómari : Sigurður Hjörtur Þrastarson - 7.

Áhorfendur : 968.

BAKMOLINN:

Bikarslagur á Akureyri í kvöld

Fyrri undanúrslitaleikurinn í bikarkeppni kvenna í fótbolta fer fram á Þórsvellinum á Akureyri í kvöld. Þar mætast Þór/KA og Breiðablik, liðin í þriðja og fyrsta sæti Bestu deildar kvenna. Leikur liðanna hefst klukkan 19.45. Í hinum undanúrslitaleiknum mætast Reykjavíkurliðin Valur og Þróttur á Hlíðarenda á morgun. Sigurliðin eigast við í úrslitaleik á Laugardalsvellinum 16. ágúst.

BEST Í 10. UMFERÐINNI

Katrín var best í tíundu umferðinni

Katrín Ásbjörnsdóttir, sóknarmaðurinn reyndi úr Breiðabliki, var besti leikmaður 10. umferðar Bestu deildar kvenna í fótbolta að mati Morgunblaðsins.

Katrín átti mjög góðan leik og skoraði bæði mörk Breiðabliks í útisigri gegn Keflavik, 2:0, á þriðjudagskvöldið en hún fékk tvö M fyrir frammistöðu sína og er í liði 10. umferðar sem sjá má hér til hliðar.

FH vann Tindastól 4:1 í fyrrakvöld og Víkingur vann Stjörnuna 3:2. Einkunnagjöf Morgunblaðsins úr þessum leikjum er þessi:

Eitt M: Arna Eiríksdóttir (FH), Ída Marín Hermannsdóttir (FH), Breukelen Woodard (FH), Hildigunnur Ýr Benediktsdóttir (FH), Andrea Rán Hauksdóttir (FH), Elísa Lana Sigurjónsdóttir (FH), Monica Wilhelm (Tindastóli), Bryndís Haraldsdóttir (Tindastóli), Gwendolyn Mummert (Tindastóli), Jordyn Rhodes (Tindastóli), Selma Dögg Björgvinsdóttir (Víkingi), Shaina Ashouri (Víkingi), Hafdís Bára Höskuldsdóttir (Víkingi), Emma Steinsen (Víkingi), Bergdís Sveinsdóttir (Víkingi), Hulda Hrund Arnarsdóttir (Stjörnunni), Esther Rós Arnarsdóttir (Stjörnunni), Úlfa Dís Úlfarsdóttir (Stjörnunni).

Dómarar: Ásmundur Þór Sveinsson 8, Aðalbjörn Heiðar Þorsteinsson 9.