Á Spáni Guðmundur málaði nágranna sinn og gaf honum myndina.
Á Spáni Guðmundur málaði nágranna sinn og gaf honum myndina.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Innan skamms kemur út frímerki á Grænlandi myndskreytt af matreiðslu- og myndlistarmanninum Guðmundi R. Lúðvíkssyni frá Akranesi.

Steinþór Guðbjartsson
steinthor@mbl.is

Innan skamms kemur út frímerki á Grænlandi myndskreytt af matreiðslu- og myndlistarmanninum Guðmundi R. Lúðvíkssyni frá Akranesi. „Ég veit ekki til þess að íslenskur myndlistarmaður hafi fengið verk eftir sig á frímerki erlendis,“ segir hann. Guðmundur sér um veitingar hjá Golfklúbbi Suðurnesja á Hólmsvelli á Leiru í sumar eins og í fyrrasumar. Hann flutti til Spánar í fyrrahaust til þess að sinna listinni og segist eiga þar margt ógert.

Þegar Guðmundur var 13 ára 1967 fór hann á sjóinn og ætlaði að verða sjómaður, myndlistarmaður eða arkitekt. Föður hans leist ekki á blikuna. „Hann tók af mér loforð um að ég myndi læra einhverja iðn, því engin framtíð væri í því að vera sjómaður eða listamaður. Hann sagði mér að skrifa markmið á miða og þegar ég næði ákveðnum aldri gæti ég gert það sem mig langaði mest til að gera. „Ég stóð við loforðið, varð matreiðslumaður og átti miðann í mörg ár. Þegar ég var yfirkokkur á sjúkrahúsinu í Eyjum 35 ára gamall dró ég miðann upp úr vasanum og sagði við sjálfan mig og aðra að ég ætlaði að sækja um í Myndlista- og handíðaskólanum. Eftir útskrift þar var ég í námi í Hollandi og Þýskalandi, stundaði listnám í samtals tíu ár.“

Syngjandi listamaður

Guðmundur býr í um 5.000 manna fjallabænum Quesada í Jaen-héraði í suðurhluta Spánar, um 200 km norðan við Granada. „Quesada Jaen er vinalegur og afskekktur bær fjarri túristastöðum,“ segir hann. Þar séu samt fimm bankar, tvær stórar matvöruverslanir, fjórar skóbúðir, stórt listasafn, þrjár byggingavöruverslanir, tvær tannlæknastofur, heilsugæsla og hjúkrunarheimili. „Fáir tala ensku, konurnar eru enn með túberað hár og ganga um í Hagkaupssloppum. Framtíðarverkefni mitt er að gera myndir af þeim en ég reyni að gleðja bæjarbúa mína eins og ég get. Ég fer út á torg með gítarinn og spila fyrir liðið, set upp sýningar sem standa í einn dag og hengi upp myndir á vegginn hjá mér svo íbúarnir geti fylgst með því sem ég er að gera.“ Hann máli fyrst og fremst með olíulitum á striga en hafi auk þess málað veggverk fyrir bæinn, verið með gjörninga og haldi úti heimasíðu á netinu ( 7894447.com ).

Í uppvextinum var Guðmundur í sundi og fimleikum og menningin hefur fylgt honum undanfarna áratugi. Hann hefur gefið út nokkrar hljómplötur og söng til dæmis lag Bjartmars Guðlaugssonar, „Súrmjólk í hádeginu“ á plötunni Vinna og ráðningar, sem kom út 1987. Hann hefur skrifað smásögur, barnaleikrit og ljóð. „Ég var ástfanginn fyrir nýliðin jól og samdi þá lag, sem ég gaf konunni í jólagjöf, en það varð reyndar ekkert meira úr því sambandi. En ég hripa reglulega svolítið niður, finnst sérstaklega notalegt að taka penna í hönd, þegar ég fer í krísu, og vera leiðinlegur við sjálfan mig.“

Guðmundur segist vera mjög agaður. Á Spáni vakni hann klukkan hálfsex, fái sér morgunmat og byrji að mála á slaginu klukkan átta. „Ekki fimm mínútur í eða yfir.“ Fari út á torg klukkan tvö, slappi þar af, byrji síðan aftur að mála og vinni til klukkan átta. „Svo geri ég eitthvað skemmtilegt á kvöldin.“ Hann sé með 17 í forgjöf í golfi en spili lítið.

Félagslífið er reyndar takmarkað í Quesada. Guðmundur segist eiga erfitt með að halda uppi samræðum, þar sem hann kunni lítið í spænsku og heimamenn tali varla annað. „Mig langaði til þess að vera með fólki og geta talað í þrjá til fjóra mánuði,“ segir hann um vinnuna suður með sjó. „En í sumarlok fer ég aftur til Spánar og ætla að einbeita mér þar að listinni.“

Áður en Guðmundur flutti til Spánar var hann yfirkokkur á hjúkrunarheimilinu Höfða á Akranesi. „Ég var kominn á aldur og tók þessi þungu skref að hætta í fastri vinnu.“ Hann hafi sýnt verk sín víða og fram undan séu sýningar í Mílanó og Madríd á Spáni og í Feneyjum á Ítalíu. „Heilsan er góð en til að missa ekki málið keypti ég mér pylsuvagn, sem er eins og pylsa í brauði í laginu, og hugmyndin er að setja hann aftan í mótorhjólið, keyra um á milli bæjarhátíða um helgar og bjóða gestum og gangandi upp á pylsur.“ Hann þrífist á því að gera eitthvað fyrir aðra og hann geti líka vel hugsað sér að leigja vagninn. „Þá get ég búið til vinnu fyrir einhvern.“