Fjármálaráðherra boðar aðhaldssöm fjárlög á kosningaári

Nýjar verðbólgutölur voru birtar í vikunni og voru í grófum dráttum í samræmi við væntingar, eins og Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra benti á í samtali við mbl.is. Verðbólgan lækkaði lítillega, mældist 5,8%, og hefur ekki verið lægri í tvö og hálft ár.

Fjármálaráðherra sagði að þrátt fyrir að verðbólgan væri á niðurleið væri mikilvægt að halda áfram með aðhaldið. Í undirbúningi væru aðhaldssöm fjárlög sem lögð yrðu fram í haust. „Þau verða með þessa skýru mynd á að við ætlum að ná þessum árangri að ná niður verðbólgu og vöxtum þannig að þau eru aðhaldssöm,“ sagði fjármálaráðherra.

Vonandi gengur þetta eftir enda er mikið í húfi. Með aðhaldssömum fjárlögum aukast verulega líkur á að verðbólga haldi áfram í rétta átt og að vextir lækki hratt og umtalsvert. Aðhald hefur þó verið af heldur skornum skammti á síðustu misserum hjá ríkinu þannig að ekki er óvarlegt taka slíkum yfirlýsingum með fyrirvara og bíða eftir að fjárlög verði birt. Líklegt er að meðal annarra Seðlabankinn geri það áður en gripið verður til stórvægilegra aðgerða.

Það breytir því ekki að gott er að sjá að skilningur á nauðsyn aðhalds skuli vera fyrir hendi í fjármálaráðuneytinu. Ekki síst þar sem kosningar eru fram undan ekki síðar en á næsta ári með tilheyrandi hættu á kosningafjárlögum.