Björn Leví Gunnarsson
Björn Leví Gunnarsson
Eftir að hafa horft á kappræður Bidens og Trumps veit ég eiginlega ekki hvað er að gerast. Frambjóðendurnir voru svo óskiljanlegir að maður verður að spyrja sig hvort þetta sé það sem er í boði fyrir eitt valdamesta embætti jarðarinnar.

Eftir að hafa horft á kappræður Bidens og Trumps veit ég eiginlega ekki hvað er að gerast. Frambjóðendurnir voru svo óskiljanlegir að maður verður að spyrja sig hvort þetta sé það sem er í boði fyrir eitt valdamesta embætti jarðarinnar. Er enginn annar valmöguleiki?

Þó það séu fleiri í framboði þá er svarið samt einfaldlega nei. Óháðir frambjóðendur eða frambjóðendur annarra flokka í Bandaríkjunum eiga beinlínis ekki séns. Í mesta lagi getur þriðji valmöguleikinn stolið atkvæðum frá annaðhvort Biden eða Trump og þannig í raun hjálpað pólitískum mótherja.

Ein helsta ástæðan fyrir þessu er kosningakerfið. Í Bandaríkjunum er kosningakerfi þar sem kjósendur eru í rauninni að kjósa þingmenn til þess að velja forseta. Það er í rauninni kosið á nokkurs konar forsetavalsþing (e. The Electoral College) sem á sitja 538 manns. Samtals þarf svo 270 atkvæði þessara þingmanna til þess að velja forseta Bandaríkjanna. Það er því fræðilegur möguleiki að enginn geti orðið forseti ef einn frambjóðandi nær ekki 270 atkvæðum.

Kosningakerfi Bretlands er líka mjög undarlegt. Þar gæti flokkur fræðilega fengið 49% atkvæða en engan þingmann. Einnig gæti einn flokkur fengið alla þingmenn með 20% atkvæða (þess vegna með 5% atkvæða ef flokkarnir í framboði væru þeim mun fleiri).

Staðan er aðeins betri hérna á Íslandi, hér erum við mun nær því að hlutfall atkvæða og þingmanna milli flokka sé jafnt. Nýlega hafa þó komið fram tillögur um að fjölga kjördæmum frá núverandi forsætisráðherra sem gæti aukið þetta misvægi milli flokka. Slíkt kerfi býr einmitt til aðstæðurnar sem Bandaríkin eru í núna – kerfi þar sem stóru valdaflokkarnir útiloka aðra með kerfislægum hætti. Uppáhaldsdæmið mitt um íslenska kosningakerfið er að ef það væri t.d. 21 flokkur í framboði og allir myndu fá minna en 5% þá væru bara 54 þingmenn á þingi. Enginn flokkur myndi fá svokallaða jöfnunarþingmenn. Ólíklegt, vissulega.

Það þarf að breyta kosningakerfinu. Það þarf meira og betra jafnvægi milli bæði flokka og kjördæma. Valdaflokkarnir vilja ekki svoleiðis breytingar af því að þeir halda að það leiði til þess að það verði þá bara enn fleiri flokkar á þingi og það verði þá enn erfiðara að ná málamiðlunum. Að mínu mati er það bara fínt – því málamiðlanir valdaflokkanna hafa bara verið frekar lélegar. Helmingaskiptin eru gott dæmi um það.

Við þurfum meira lýðræði, þar sem málamiðlanir festast ekki í nefndum heldur ná alla leið til kjósenda. Þannig getum við leyst stóru málin sem valdaflokkarnir hafa neitað að klára. Í staðinn fyrir endalausa rifrildið, fáum afstöðu þjóðarinnar í einstökum málum. Útrýmum pólitískum ómöguleika. Það er þriðji valmöguleikinn, að hafna gömlu valdaflokkunum.

Höfundur er þingmaður Pírata. bjornlevi@althingi.is

Höf.: Björn Leví Gunnarsson