Skúli Margeir Óskarsson Gunnarstein fæddist 3. september 1948. Hann lést 9. júní 2024. Útför Skúla fór fram 24. júní 2024.

Nú er elsku Skúli bróðir farinn í sumarlandið og komið skarð í systkinahópinn. Margar minningar dúkka upp þegar hugurinn reikar til baka. Systkinahópurinn var stór en húsnæðið frekar lítið, þar átti því oft við hið fornkveðna að þröngt mega sáttir sitja. Skúli var svo fimur og liðugur sem krakki að stundum sást hann á handahlaupum út um allan bæ. Honum gat dottið ýmislegt í hug, eitt sinn þegar ég var að drepast úr harðsperrum og gat varla gengið sagðist hann hafa ráð við þessu. Hann greip þá í höndina á mér og hljóp svo upp og niður túnið í Laufási og dró mig með sér æjandi og veinandi. Kunni ég honum litlar þakkir en svei mér þá ef harðsperrurnar minnkuðu ekki bara helling. Það var svo dásamlegt með Skúla að hann var alltaf svo hress og kátur jafnvel þó að gæfi á bátinn.

Eins var það með hann þegar hann var að vinna sín stærstu afrek, þá steig frægðin honum aldrei til höfuðs. Alltaf var gaman að fá þau Skúla og Hrönn í heimsókn í sveitina og eins að heimsækja þau suður, var þá oft glatt á hjalla. Svo ekki sé minnst á þegar allur systkinahópurinn kom saman, má þá segja að glaðværðin hafi oft farið úr böndunum svo mikið og hátt var hlegið. Minningasjóðurinn er stór og minningarnar lifa.

Elsku Hrönn, Lilja, Hjaltey, Sara, tengdasynir og barnabörn. Innilegar samúðarkveðjur til ykkar allra.

Við um Skúla vitum öll

hann var með kosti slíka.

Að dvelja mun í heiðurshöll

í Himnaríki líka.

Guðný, Sveinn og fjölskylda.

Þegar við Sara vorum að rugla saman reytum okkar kom að því að ég skyldi hitta foreldra hennar í mat. Einhverjir vinir gerðu grín og sögðu að ég mætti ekki vera hræddur við pabba hennar, og þá rann loks upp fyrir mér hver faðir hennar var: Sjálfur Skúli sterki! Ofurmennið sem setti heimsmet í réttstöðulyftu og var svo mikill nagli að það var samið um hann sérstakt lag.
Áhyggjurnar hurfu þó skjótt þegar ég hitti þennan tilvonandi tengdaföður minn í fyrsta skipti, því ljúfari manni hef ég ekki kynnst. Ekki spillti heldur fyrir að við reyndumst eiga sama afmælisdag. Alla tíð síðan var römm vináttutaug á milli okkar tengdafeðganna.
Ef ég þurfti að fara í framkvæmdir á heimilinu var hann alltaf mættur til að hjálpa. Eitt sinn var ég að bisa við að losa járn úr vegg, sem var svo pikkfast að sama hvað ég tók á því, þá haggaðist það ekki. Kraftlyftingamaðurinn fékk þá að reyna og viti menn? Hann náði að losa járnið, en þó ekki með afli, heldur festi hann litla krafttöng á það og bankaði svo létt á hana með hamri í dágóða stund þar til járnið bara rann allt í einu út úr veggnum. Svo útskýrði hann fyrir mér: „Það eru nefnilega litlu höggin sem skipta mestu máli.“
Skúli naut þess að vinna og vesenast. Það voru dýrðardagar þegar þau Hrönn og Skúli voru staðarhaldarar í Selvík, sumarhúsabyggð Landsbankans við Álftavatn. Þar nutu þau sín bæði í starfi og leik. Barnabörnin elskuðu að heimsækja þau í sveitina þar sem var hægt að fara út á bát, spila mínígolf og billjarð, eða slaka á við arineld í koníakstofu bankastjórans. Skúli rúntaði um svæðið á litlum traktor, dyttaði að bústöðunum og reddaði hinu og þessu fyrir gestina, og þótti heldur ekki leiðinlegt að spjalla við þá, enda með eindæmum mannblendinn og vandræðalega fljótur að hefja samræður við ókunnuga.
Skömmu eftir að Skúli hætti að vinna fékk hann bæði heilablóðfall og hjartaáfall. Hann varð nánast ófær um gang, með skerta sjón og brenglað jafnvægi, og óvíst hverju endurhæfing myndi skila.
Hann tók þessu reiðarslagi hinsvegar af einstöku æðruleysi og einhenti sér í endurhæfinguna. Hann setti sér lítil markmið sem uxu smátt og smátt: Fyrst að komast niður stigann heima hjá sér, næst að geta gengið út á horn, því næst að rölta niður að gatnamótum. Áður en við vissum af var hann farinn að klöngrast á göngugrindinni yfir snjóskafla og niður í Salalaug þar sem hann gat tekið á því í tækjasalnum.
Þarna glitti í galdurinn á bak við einn ótrúlegasta íþróttaferil Íslandssögunnar. Þrautseigjan, þolinmæðin og þrjóskan voru engu lík. Ný met féllu á hverjum degi og litlu höggin skiptu öllu máli. Af öllum hans vöðvum held ég að sá í höfðinu hafi verið stæltastur.
Síðustu dagar Skúla voru erfiðir en fallegir. Gullhjartað var einfaldlega orðið of lúið, en hann var þakklátur fyrir hafa fengið níu góð ár eftir áfallið mikla og var fullviss um að eitthvað ennþá betra biði hans nú fyrir handan.
Skúli minn, það var þvílíkur heiður að fá að deila með þér afmælisdegi, fjölskyldu og gleðistundum. Far í friði minn kæri.

Úlfur Eldjárn.