Einar P. Gunnarsson, fv. landsliðsmaður í knattspyrnu, lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 22. júní sl., 74 ára að aldri, eftir erfið veikindi.

Einar P. Gunnarsson, fv. landsliðsmaður í knattspyrnu, lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 22. júní sl., 74 ára að aldri, eftir erfið veikindi.

Einar fæddist í Njarðvík 22. september 1949 og ólst þar upp. Foreldrar hans voru Gunnar V. Kristjánsson frá Sólbakka í Ytri-Njarðvík, og Jóna Gunnarsdóttir frá Vinaminni í Sandgerði.

Einar hóf ungur að iðka íþróttir, einkum körfubolta og fótbolta. Hann æfði körfubolta í Njarðvík, eftir að hafa æft fyrst með Íþróttafélagi Keflavíkurflugvallar. Fótboltinn tók síðan yfir og var hann burðarás sem miðvörður í gullaldarliði Keflvíkinga er liðið varð Íslandsmeistari í þrígang, árin 1969, 1971 og 1974. Þá varð hann bikarmeistari með Keflavík árið 1975, var fyrirliði í úrslitaleik á Laugardalsvelli gegn Skagamönnum og skoraði sigurmarkið í 1-0 sigri. Einar spilaði 127 leiki með Keflavík í efstu deild árin 1966 til 1979.

Einar lék 20 A landsliðsleiki fyrir Ísland á árunum 1969 til 1974. Síðustu tveir leikirnir voru gegn Hollandi í undankeppni EM, ári áður en Holland lék til úrslita á HM árið 1974.

Einar vann í slökkviliðinu á Keflavíkurflugvelli og síðar í Fríhöfninni á Keflavíkurflugvelli þar til hann fór á eftirlaun.

Eftirlifandi eiginkona Einars er Þorbjörg R. Óskarsdóttir og synir þeirra eru Óskar, f. 1968, og Gunnar, f. 1977. Barnabörnin eru fimm og barnabarnabörnin tvö.

Útför Einars fer fram frá Keflavíkurkirkju þriðjudaginn 2. júlí nk. kl. 13.