Grafarvogur Græna svæðið við Sóleyjarima og Smárarima, þar sem áform eru um að byggja tvö fjölbýlishús með allt að 96 íbúðum.
Grafarvogur Græna svæðið við Sóleyjarima og Smárarima, þar sem áform eru um að byggja tvö fjölbýlishús með allt að 96 íbúðum. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hópur íbúa í Grafarvogi er ósáttur við áform borgarinnar um þéttingu byggðar í hverfinu. Eiga hátt í 500 íbúðir að rísa í Grafarvoginum á næstu árum, ef tillögur borgarmeirihlutans ganga eftir.

Birta Hannesdóttir
birta@mbl.is

Hópur íbúa í Grafarvogi er ósáttur við áform borgarinnar um þéttingu byggðar í hverfinu. Einar Þorsteinsson borgarstjóri kynnti á blaðamannafundi á miðvikudag áform um nýtingu lóða í helstu úthverfum borgarinnar. Eiga hátt í 500 íbúðir að rísa í Grafarvoginum á næstu árum, ef tillögur Einars og borgarmeirihlutans ganga eftir.

Meðal áforma borgarinnar er að byggja fjölbýlishús á lóð við Sóleyjarima/Smárarima með 65-96 íbúðum.

Margir íbúar hverfisins hafa áhyggjur af þessum áformum og telja að borgin sé að skerða aðgang að útivistarsvæðum og gæti byggðin þrengt enn frekar að leik- og grunnskólum í hverfinu sem séu þegar yfirfullir.

Nýlega var hleypt af stað undirskriftasöfnun til að mótmæla uppbyggingunni en meðal íbúa er helst andstaða gegn skipulagslýsingu borgarinnar og þeir segja að hún sé á skjön við núverandi byggð. Þetta segir Berglind Kristinsdóttir, íbúi í Grafarvogi og stofnandi undirskriftasöfnunarinnar, í samtali við Morgunblaðið.

“Það er mikilvægt að þétting byggðar taki mið af sjónarmiðum og hagsmunum íbúa. Áform borgarinnar um byggð í Sóleyjarima samræmast ekki núverandi byggð, sem er lágreist. Þetta er einnig á skjön við það sem Einar borgarstjóri sagði í vikunni þar sem hann talaði um að þétta byggð með litlum sérbýlum en ekki háhýsum, eins og áform eru um í Sóleyjarima,” segir Berglind.

Græn svæði mikilvæg

Rúna Sif Stefánsdóttir, lýðheilsufræðingur og íbúi í Grafarvogi, er ein þeirra sem eru ósátt við fyrirætlan borgarinnar í Grafarvogi. Í samtali við Morgunblaðið segir Rúna Sif að borgin fari á svig við eigin lýðheilsuvísa með því að ætla að byggja yfir græn svæði.

“Síðustu ár hafa verið að koma út lýðheilsuvísar frá borginni þar sem talað er um mikilvægi almenningssamgangna og mikilvægi útiveru. En hvað með lýðheilsuna á grænum svæðum og í náttúrunni?” spyr Rúna.

Í færslu á hverfissíðu Grafarvogs á Facebook segir Rúna að rannsóknir sýni fram á að nálægð við græn svæði geti dregið úr streitu, bætt andlega heilsu og aukið líkamlega virkni.

Hún segir fólk kjósa að búa í Grafarvogi út af umhverfinu og grænum svæðum þar í kring. Því séu ný áform borgarinnar svekkjandi.

Haft var samband við Einar Þorsteinsson borgarstjóra í gær við vinnslu fréttarinnar, en hann hafði ekki tök á að tjá sig um málið að svo stöddu.