Hátíð Sturluhátíðin var vel sótt á síðasta ári þegar ríflega 200 manns lögðu 
leið sína að Staðarhóli.
Hátíð Sturluhátíðin var vel sótt á síðasta ári þegar ríflega 200 manns lögðu leið sína að Staðarhóli.
Sturlufélagið hefur látið útbúa söguskilti við Staðarhól í Dölum sem veita innsýn í líf sagnaritarans Sturlu Þórðarson, Staðarhóls og héraðsins.

Sturlufélagið hefur látið útbúa söguskilti við Staðarhól í Dölum sem veita innsýn í líf sagnaritarans Sturlu Þórðarson, Staðarhóls og héraðsins. Skiltin verða afhjúpuð við hátíðlega athöfn 13. júlí, við upphaf Sturluhátíðarinnar.

Þegar skiltin hafa verið afhjúpuð verður farið í sögugöngu með leiðsögn um Staðarhól.

Að lokinni þessari dagskrá á Staðarhóli verður haldið að Laugum í Sælingsdal, þar sem dagskráin heldur áfram og verða bornar fram kaffiveitingar í boði Sturlufélagsins, að gildum og góðum íslenskum sið.

Hátíðirnar undanfarin ár hafa verið afar fjölsóttar en í fyrra mættu ríflega 200 til hátíðarinnar.

Ræður á hátíðinni flytja Einar K. Guðfinnsson, formaður félagsins, Guðrún Nordal, forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Sverrir Jakobsson, deildarforseti og prófessor við Háskóla Íslands, og Óttar Guðmundsson geðlæknir.

Tómas R. Einarsson bassaleikari flytur tónlist ásamt Ómari Guðjónssyni gítarleikara. Sömuleiðis mun Tómas, sem er uppalinn á Laugum, lesa kafla úr nýútkominni endurminningabók sinni, Gangandi bassi.