Fjölskyldan Stödd í Ostuni í Puglia-héraði, suðaustast á Ítalíu, en þaðan fá þau hjónin tómatana.
Fjölskyldan Stödd í Ostuni í Puglia-héraði, suðaustast á Ítalíu, en þaðan fá þau hjónin tómatana.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Emil Hallfreðsson er fæddur 29. Júní 1984 í Reykjavík en hann ólst upp á holtinu í Hafnarfirði.

Emil Hallfreðsson er fæddur 29. Júní 1984 í Reykjavík en hann ólst upp á holtinu í Hafnarfirði.

„Rætur mínar liggja vestur í Geiradal, nánar tiltekið Stekkjarholt og þangað fór og fer fjölskyldan reglulega.“

Emil gekk í Hvaleyrarskóla og síðan Flensborgarskólann í Hafnarfirði þaðan sem hann varð stúdent. „Ég vann almenn sumarstörf hjá Hafnarfjarðarbæ á unglingsaldri.“

Emil hóf ungur að æfa fótbolta með FH og spilaði með meistaraflokki félagsins 2002-2004. Hann fór svo út í atvinnumennsku og var á mála hjá Tottenham 2005-2007 en var á láni hjá Malmö FF veturinn 2006, þar sem hann lék 24 leiki og skoraði 8 mörk. Hann var svo hjá Lyn í Ósló sumarið 2007 en fór svo til Reggina í Kalabríuhéraði á Suður-Ítalíu. Hann var einn vetur í láni hjá Barnsley en var síðan hjá Hellas Verona, Udinese, Frosinone sem er nálægt Róm, Padova og að lokum hjá Virtus Verona. Hann lék 73 landsleiki fyrir Íslands hönd og var í leikmannahópnum á Evrópumótinu 2016 og heimsmeistaramótinu 2018.

„Eftirminnilegast á ferlinum eru öll árin á ítalíu og svo EM og HM með landsliðinu. Það hefur verið frábært að kynnast þessari fjölbreyttu ítölsku menningu í þessu frábæra landi og að hafa fengið að spila fótbolta þetta mörg ár og búið hér.“

Emil og fjölskylda bjuggu fyrst í Reggio Calabria í tvö ár, svo í Verona í sex ár. Síðan voru þau þrjú ár í Udine sem er í héraðinu Friuli-Venezia Giulia, norðaustast á Ítalíu, og svo aftur í Verona, og hafa þau búið á Ítalíu í 14 ár.

Emil var valinn efnilegasti leikmaður Íslandsmótsins í fótbolta árið 2004, knattspyrnumaður ársins hjá Hellas Verona árið 2010 og miðjumaður ársins í Serie B 2011-2012. Hann var tekinn inn í frægðarhöll Hellas Verona árið 2024 ásamt því að hafa hlotið fleiri viðurkenningar fyrir knattspyrnu á ítölskum vettvangi.

Samhliða atvinnuferli Emils byggðu þau hjónin upp vörumerkið sitt Olifa og samanstendur vörulína þeirra m.a. af vörum sem þau hafa kynnst á þeim svæðum þar sem Emil hefur leikið knattspyrnu, en einnig frá héraðinu Puglia sem er í miklu uppáhaldi hjá þeim. Þau opnuðu veitingastaðinn og sælkeraverslunina Olifa La Madre Pizza, við Suðurlandsbraut 12 í Reykjavík í fyrra. Á matseðlinum, sem þau þróuðu, eru ítölsku pítsurnar í aðalhlutverki.

Í sælkeraversluninni eru ýmsar úrvalskrásir frá Ítalíu, eins og pastasósur, kaffi og svo ólífuolía en þau hjónin rækta sjálf ólífur.

„Við erum með þrjá ólífuakra, tvo í og við Verona og einn við Gardavatn, samtals 12 hektara. Ólífuolíuna seljum við líka í Krónunni, hágæða jómfrúarólífuolíu fyrir Íslendinginn. Við erum búin að rækta ólífur síðan 2018 en konan mín eru hugmyndasmiðurinn að þessu.“

Emil er einnig umboðsmaður íþróttamanna og íþróttakvenna. „Ég byrjaði á því síðasta sumar og markmið mitt er að byggja það upp á næstu árum.“

Áhugamál Emils er knattspyrna og allt sem henni tengist. „Ég nýt þess að vera með fjölskyldunni minni, borða góðan mat í góðum félagsskap og góð tónlist. Síðan finnst mér frábært að spila golf, tennis og padel og stefni á bætingar í öllum þeim greinum.“

Fjölskylda

Eiginkona Emils er Ása María Reginsdóttir, f. 24.7. 1985, ólífubóndi á Ítalíu, stofnandi og eigandi Olifa. Þau eru búsett í Verona sem er í Veneto-héraði á Norður-Ítalíu. Foreldrar Ásu Maríu eru Ellen Björnsdóttir, f. 10.3. 1955, hjúkrunarfræðingur, búsett í Reykjavík, og Regin Grímsson, f. 8.3. 1947, bátasmiður, búsettur í Mosfellsbæ, giftur Helgu Hinriksdóttur hjúkrunarfræðingi.

Börn Emils og Ásu Maríu eru Emanuel Emilsson, f. 24.11. 2011, og Andrea Alexa Emilsdóttir, f. 23.2. 2016.

Systkini Emils eru Fríða Hrönn Hallfreðsdóttir, f. 26.3. 1981, kennari, búsett í Njarðvík; Hákon Atli Hallfreðsson, f. 30.3. 1990, knattspyrnuþjálfari, búsettur á Álftanesi, og Helena Rut Hallfreðsdóttir, f. 30.3. 1990, starfsmaður Rio Tinto, búsett í Keflavík.

Foreldrar Emils: Hjónin Hallfreður Emilsson, f. 20.9. 1955, d. 22.9. 2014, húsasmíðameistari, og Kristín Björg Hákonardóttir, f. 22.7. 1956, leikskólakennari, búsett í Hafnarfirði.