Gátan er sem endranær eftir Pál Jónasson í Hlíð.

Gátan er sem endranær eftir Pál Jónasson í Hlíð:

Við krónur tvær ég kenndur er,
og kvaðning burt úr lífi hér,
svo er ég líka hávært hróp,
mér heiti þetta ellin skóp.

„Lausnarorðið er kall“ segir Úlfar Guðmundsson:

Reyndist túkall buddu bót.
Burtkallaður lífi frá.
Hávært kallað mér í mót.
Meiri kallinn aldnir fá.

Guðrún B. leysir gátuna:

Týnd sú dásemd túkallinn.
Með tímanum fæst dauðans kall.
En hávær köll um hápallinn,
þar heyrðist karlinn eiga spjall.

Þá er það lausnin segir Helgi R. Einarsson:

Ég túkall ekki' á til.
Á Tótu kalla vil.
Að lokum kallið kemur.
Kall einn þetta semur.

Harpa Í Hjarðarfelli svarar:

Þar lítill túkall lá.
Að lokum kallið berst.
Börn kallast kát hér á.
Nú kallinn elli verst.

Erla Sigríður Sigurðardóttir er með lausnina:

Með túkall borga baunarétt,
banvænt dauðakallið.
Hljómar kallið hátt og þétt,
hér um kalla fjallið.

Erla Sigríður kvaðst þakklát ef eftirfarandi orðsending fengi að fljóta með lausninni: „með kveðju til tröllkarlsins og þökk fyrir gott panna cotta“.



Sjálfur skýrir Páll gátuna:

Túkall vil ég hafa hér,
hlýða kalli dauðans ber.
Neyðarkall er hávært hróp,
mér heiti þetta ellin skóp.

Þá er ný gáta eftir Pál:

Byggður út á húsi hátt,
hann á vori laufgast brátt,
undir tönn er harður hann,
haft er oft um skrítinn mann.

Svo að farið sé út í aðra sálma.Þessi limra Kristjáns kemur sífellt upp í hugann:

„Ég man ekki meira í flýti,“
sagði maður sem flaut á spýtu.
Hann drukknaði óðara,
en hann drukknaði fróðari
um dauða og minni og spýtu.

Limran Minning eftir Davíð Hjálmar Haraldsson:

Um fjallveg og freðjökul rann ’ann
og fimmtíu maraþon vann ‘ann.
Á hraðferð um Fljót
loks hrasaði um grjót
og tófan var fljótust og fann ‘ann.

Herdís Andrésdóttir kvað:

Aldrei fyrir gull sá grætur,
sem gefinn var ei auðurinn.
En sá hefur nóg sér nægja lætur
– náðina þína, Drottinn minn.

Gamall húsgangur:

Ég skal kveða við þig vel
viljirðu hlýða, kindin mín.
Pabbi þinn er að sækja sel;
senn kemur hún mamma þín.

Öfugmælavísan:

Svanurinn fjaðrir svartar ber,
situr hann oft í klettum,
hrafninn býr til hreiður sér
á hrannar bárum sléttum.


Halldór Blöndal (halldorblondal@simnet.is)