Íslensk-hollenska sveitin spilar á endurreisnarhljóðfæri.
Íslensk-hollenska sveitin spilar á endurreisnarhljóðfæri.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Söngvar Vesturfaranna, eistnesk strengjasveit og nýr íslenskur píanókonsert er á meðal þess sem mun hljóma á Þjóðlagahátíðinni á Siglufirði sem hefst í næstu viku, þann 3. júlí, og stendur til 7. júlí.

Anna Rún Frímannsdóttir
annarun@mbl.is

Söngvar Vesturfaranna, eistnesk strengjasveit og nýr íslenskur píanókonsert er á meðal þess sem mun hljóma á Þjóðlagahátíðinni á Siglufirði sem hefst í næstu viku, þann 3. júlí, og stendur til 7. júlí. Auk þess verður boðið upp á námskeið í balkansöng, bluegrass-tónlist, íslenskum og dönskum þjóðdönsum.

„Metnaður hátíðarinnar liggur alltaf í því að reyna að gefa ungu fólki, sem er að stíga sín fyrstu spor í listinni, tækifæri til þess að koma fram á hátíðinni. Hátíðin er því bæði fyrir unga og óreynda snillinga og eldri og grónari listamenn,“ segir Gunnsteinn Ólafsson, listrænn stjórnandi Þjóðlagahátíðarinnar, inntur eftir því hverju unnendur hennar megi búast við í ár. „Það var hugmynd mín í upphafi að laða fólk til Siglufjarðar og að bærinn myndi festa sig í sessi sem heimabær íslenska þjóðlagsins,“ bætir hann við en Þjóðlagahátíðin var fyrst haldin á Siglufirði árið 2000 og fer nú fram í 24. sinn.

Fjölbreyttir flytjendur

Flytjendur hátíðarinnar koma víðs vegar að og segir Gunnsteinn dagskrána stútfulla af spennandi viðburðum. „Ég má til með að nefna Maríu Konráðsdóttur, sem er ung og alveg sérstaklega áhugaverð söngkona, en hún er að koma fram í fyrsta sinn á hátíðinni. Við fáum einnig til okkar unga Íslendinga, sem eru við nám í Hollandi, þær Veru Hjördísi Matsdóttur söngkonu og Auroru Rósudóttur Luciano. Þær taka tvær erlendar stúlkur með sér á hátíðina en saman skipa þær íslensk-hollensku sveitina Lorelei Collective. Þær eru að þreifa sig áfram með íslensk þjóðlög og leika á endurreisnarhljóðfæri.“

Nefnir Gunnsteinn einnig strengjakvartettinn Jöklu sem leikur íslensk og norræn verk auk þess að frumflytja á sérstökum tónleikum nýja tónsmíð eftir slóvensku þjóðlagasöngkonuna Zvezdönu Novakovic. „Kvartettinn er að koma fram í fyrsta skipti á hátíðinni en Zvezdana í annað sinn. Hún er sérfræðingur í balkansöng og kennir hann á sérstöku námskeiði á hátíðinni.“

Hátíð samrunans

Að sögn Gunnsteins er mikið lagt upp úr því að leiða saman íslenska og erlenda tónlistarmenn. „Sigurður Flosason mætir til að mynda með dönsku djasssöngkonuna Cathrine Legardh en hún syngur lög eftir hann á dönsku við frumort ljóð eftir hana sjálfa. Einnig munu Ragnheiður Gröndal, Hildur Örvarsdóttir, Guðmundur Pétursson og Eyþór Ingi Jónsson orgelleikari leika sér með íslensku rímnalögin. Svo eigum við von á blue grass-söngvurum frá Bandaríkjunum, dönskum snillingum með fiðlu og harmóniku og fjölda annarra listamanna. Ég myndi því segja að þessi hátíð sé hátíð samrunans þar sem alls konar straumar og stefnur mætast.“ Hátíðinni lýkur svo með tónleikum Sinfóníuhljómsveitar unga fólksins, undir stjórn Gunnsteins, en þar mun hljómsveitin frumflytja nýjan píanókonsert eftir Gunnar Andreas Kristinsson, ásamt norska píanistanum Joachim Kwetzinsky, en konsertinn var sérstaklega saminn fyrir hátíðina.

Sífellt á brattann að sækja

En hvernig skyldi hafa gengið að halda úti hátíð sem þessari í öll þessi ár? „Ef allt hefði verið með felldu hefði þetta verið 25. hátíðin en hún féll niður eitt árið vegna covid. 25. hátíðin verður því á næsta ári og þá munum við halda upp á aldarfjórðungsafmælið,“ segir Gunnsteinn og tekur fram að það sé ekki einfalt mál að halda úti alþjóðlegri listahátíð á landsbyggðinni.

„Kostnaður eykst stöðugt en styrkir hafa staðið í stað árum saman. Þannig eru mikilvægir menningarviðburðir að leggjast af úti á landi, hver á fætur öðrum. Skipuleggjendurnir gefast einfaldlega upp.“ Segist hann ekki getað hugsað sér að Þjóðlagahátíðin lognist út af en sífellt sé þó á brattann að sækja. „Það er ekki hægt að greiða listamönnunum sem koma fram á hátíðinni sómasamleg laun. Ástandið er óásættanlegt. Það verður að hugsa þessi styrkjamál upp á nýtt. Uppbyggingarsjóðir, sem voru settir á laggirnar úti á landi, hafa ekki fylgt verðlaginu í landinu og framlög þeirra eru allt of lág. Það þarf að efla sjóðina, annars leggjast listahátíðir á landsbyggðinni niður eins og raun ber vitni. Það er fyrst og fremst menningin sem heldur landinu í byggð, ekki aðeins verksmiðjurnar. Ef atvinnu- og menningarlíf er í jafnvægi, þá er gott að búa á Íslandi.“

„Kysstu mig hin mjúka mær“

Segir Gunnsteinn Þjóðlagahátíðina á Siglufirði mjög vinsæla og vel sótta. Hátíðin hafi unnið til Eyrarrósarinnar árið 2005, fyrir einstakt menningarstarf á landsbyggðinni, og hún setji áfram markið hátt. „Það hefur oft komið fyrir að ástin hafi blómstrað á Þjóðlagahátíðinni og ný sambönd kviknað þannig að mér datt í hug að kalla hátíðina að þessu sinni „Kysstu mig hin mjúka mær“ sem er tilvitnun í íslenskt þjóðlag og skýrir aðeins andrúmsloft hátíðarinnar. Á Siglufirði er alltaf gaman og þar blómstrar ástin í yndislegu umhverfi,“ svarar Gunnsteinn spurður að síðustu út í hugmyndina að yfirskrift hátíðarinnar.

„Ég er búinn að vera að skipuleggja hátíðina síðan í haust og stemningin í kringum undirbúninginn er alltaf jafn skemmtileg. Allir vilja leggja sitt af mörkum til þess að skapa skemmtilega hátíð og svo spillir ekki fyrir að veðurguðirnir eru Þjóðlagahátíðinni alltaf vinsamlegir,“ segir hann og hlær.