Veggskjöldur Nýjasta verk Siggu er af skeiðhestinum Kolfinni.
Veggskjöldur Nýjasta verk Siggu er af skeiðhestinum Kolfinni.
Útskurðarmeistarinn Sigríður Jóna Kristjánsdóttir, Sigga á Grund, situr aldrei auðum höndum.

Steinþór Guðbjartsson
steinthor@mbl.is

Útskurðarmeistarinn Sigríður Jóna Kristjánsdóttir, Sigga á Grund, situr aldrei auðum höndum. Frá 12 ára aldri hefur hún skorið út, einkum í tré og bein, eftir pöntunum og er gjarnan með mörg krefjandi verk í einu, sem hún skilar á réttum tíma, auk þess sem hún sker reglulega út gripi, sem hún vill sjálf eiga. Helsta langtímaverkefnið eru fuglar á hverri grein á norskri rótarhnyðju, eins og „Móðir“ (Ófríska konan) situr á. „Ég er búin að teikna verkið og það verður fallegt, en eigum við ekki að segja að það verði tilbúið á 90 ára afmælinu,“ segir Sigga, sem var útnefnd fyrsti heiðursborgari Flóahrepps á 80 ára afmælinu í fjölmennu hófi á Hótel Vatnsholti 30. maí.

Dagarnir hjá Siggu eru hverjum öðrum líkir. „Svona útnefning er ekki á hverjum degi og hún er mikill heiður, og kom mér algjörlega að óvörum.“ Sem fyrr byrji hún daginn á því að fá sér göngutúr og heilsa upp á hestana sína fjóra. „Eftir að hafa klappað þeim og spjallað við þá fer ég aftur inn og sest við útskurð. Annað kastið fer ég fram í eldhús og fæ mér kaffisopa og eitthvað að borða. Held svo áfram að vinna og sinni öðru eftir þörfum. Svona heldur lífið áfram.“ Hún er oft beðin um að spjalla um verk sín við hópa í Listasafninu Tré og list og fær reglulega gesti heim til sín á Grund í sömu erindagjörðum. „Mér finnst alltaf gaman að hitta fólk og það truflar mig ekki.“

Nýr verðlaunagripur

Nýlega lauk Sigga við að gera verðlaunagrip fyrir Magnús Einarsson á Kjarnholtum, veggskjöld með skeiðhestinum Kolfinni frá Kjarnholtum, sem veittur verður þeim sem verður í fyrsta sæti í flokki sex vetra stóðhesta á Landsmóti hestamanna sem hefst á mánudag.

Þessa dagana er Sigga að skera út stóra gestabók fyrir Helgafellskirkju á Snæfellsnesi. „Hún verður tilbúin seinni partinn í sumar.“ Hún hefur skráð öll verk samviskusamlega í bækur en hefur ekki tölu á þeim. „Það er svolítið verk að fara í gegnum þær og ég hef ekki nennt því enda er nægur tími er til þess, skulum við segja.“

Verkin eru eins misjöfn og þau eru mörg. Þar má nefna fundarhamra, meðal annars fyrir Sameinuðu þjóðirnar og ráðherranefnd Evrópuráðsins, drykkjarhorn í ýmsum stærðum, íslenska hesta í öllum fimm gangtegundunum, bækur, vegghillur og margt annað. Sigga segir að sennilega hafi gerð „Móðurinnar“ tekið lengsta tímann. „Það tók mig nokkur ár með mörgum öðrum verkum.“

Hestaverkið er ofarlega í huga Siggu. „Mér þykir einna vænst um það.“ Hún hafi byrjað að hugsa um að gera það fyrir margt löngu. „Ég byrjaði svo um aldamótin og lauk því fyrir tveimur eða þremur árum. Það var geysileg vinna með öðrum verkum.“

Sigga eflist með hverju árinu og slær ekki af þótt árunum fjölgi. „Hvers vegna í ósköpunum ætti maður að gera það þegar lífskrafturinn er nægur til að gera hlutina?“ spyr hún og svari hver fyrir sig.