Foringjarnir eru enn í fullu 
fjöri; Oddur F. Sigurbjörnsson, Þórður Bogason og 
Jósep Sigurðsson.
Foringjarnir eru enn í fullu fjöri; Oddur F. Sigurbjörnsson, Þórður Bogason og Jósep Sigurðsson. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Rokkbandið Foringjarnir sný aftur í næstu viku eftir um 35 ára hlé á landsmóti Sniglanna. Þrír upprunalegir liðsmenn verða á sviðinu ásamt sonum tveggja þeirra og einum af fjölmörgum bassaleikurum sem komið hafa við sögu bandsins. Giggið er tileinkað minningu eins þeirra, Steingríms Erlingssonar.

Orri Páll Ormarsson
orri@mbl.is

Steingrímur Erlingsson bassaleikari hafði stundum fært í tal við sína gömlu félaga í Foringjunum hvort þetta gamla rokkband, sem stofnað var 1986, þyrfti ekki að koma aftur saman og efna til tónleika. Viljinn var sannarlega fyrir hendi en ekkert varð hins vegar úr. Svo þegar Steingrímur féll skyndilega frá fyrir hálfu öðru ári sáu eftirlifandi félagar hans sæng sína upp reidda; þeir yrðu láta þennan gamla draum rætast og að koma saman á ný í minningu Steingríms.

„Fráfall Steingríms var áminning um þá staðreynd að enginn er eilífur og að við yrðum loksins að koma saman aftur áður en fleiri hrykkju upp af,“ segir Þórður Bogason söngvari.

Oddur F. Sigurbjörnsson trommuleikari tekur í sama streng; það væri nú eða aldrei að koma Foringjunum aftur upp á svið. Sveitin hefur raunar aldrei formlega lagt upp laupana en síðasta giggið var annað hvort 1988 eða 1989.

En hvernig snúa menn sér varðandi svona endurkomu?

„Þar sem við erum ekki stærsta nafnið í bransanum í dag og líklega fáir að bíða eftir að bóka okkur,“ byrjar Oddur brosandi, „þá kom upp sú hugmynd að tengja okkur við landsmót Bifhjólasamtaka lýðveldisins – Sniglanna en þótt enginn okkar sé í samtökunum þá erum við allir hjólamenn, ég, Þórður og Jósep Sigurðsson hljómborðsleikari, auk þess sem við spiluðum oft með Sniglabandinu í gamla daga og varð vel til vina.“

Sniglunum hugnaðist sú hugmynd ljómandi vel og Foringjarnir voru bókaðir á landsmótið 4. júlí sem haldið verður að Varmalandi í Borgarfirði. „Þar munum við deila sviði með Sniglabandinu og sumir segja að þetta verði aðalkvöld ársins,“ segir Oddur sposkur.

„Mótorhjólafólk er upp til hópa mjög hresst og Denni [Steingrímur] hefði alla vega haft mjög gaman af þessu,“ segir Þórður og bætir við að markmiðið sé fyrst og fremst að skemmta þeim sjálfum. „En vonandi hafa einhverjir aðrir gaman af þessu líka.“

Föðurbetrungarnir virkjaðir

Einar Jónsson, upprunalegi gítarleikari Foringjanna, á ekki heimangengt að þessu sinni en í hans stað koma tveir „Foringjaungar“, eins og Þórður og Oddur kalla þá, Hlöðver Smári, sonur Odds, og Gunnar Ingi, sonur Jóseps, en báðir eru þeir rokkmegin í lífinu og starfrækja sín eigin bönd. „Það var nærtækast að leita til þeirra, föðurbetrunganna. Þeir eru virkilega flottir. Við erum búnir að taka æfingu með strákunum og hún lofaði góðu,“ segir Oddur. „Hvað okkur gömlu mennina varðar þá er merkilegt hvað þetta situr vel í vöðvaminninu. Það hefur verið ótrúlega gaman að rifja þessi lög upp. Manni finnst ekki eins og að 35 ár hafi liðið. Frekar eins og við höfum verið saman í fyrra. Satt best að segja held ég að við séum betri núna en 1987, orðnir reyndari og betri spilarar.“

Þórður tekur undir með honum: „Hún fer ekkert úr blóðinu, rokkbakterían.“

Þá verður á sviðinu með þeim Birgir Bragason sem einmitt tók við bassanum af Steingrími heitnum þegar hann hætti í Foringjunum í lok árs 1987.

Margir fleiri plokkuðu bassann á sinni tíð. „Blessaður vertu, við höfum spilað með eiginlega öllum bassaleikurum landsins,“ upplýsir Oddur.

Frægur hvítur leðurjakki hefur varðveist frá gullöld Foringjanna og hann verður að sjálfsögðu á sviðinu í næstu viku. „Hlöðver Smári verður settur í hann,“ segir Oddur.

Fyrst kvað að Foringjunum þegar þeir hituðu upp fyrir söngkonuna Bonnie Tyler í Laugardalshöllinni síðla árs 1986. Fyrsta platan, Komdu í partý, kom út sumarið eftir og fékk titillagið mikla spilun á bæði Rás 2 og Bylgjunni sama ár.

„Við spilum rokk í anda Bon Jovi, Billy Idol og fleiri en það naut gríðarlegrar hylli á þessum árum,“ segir Oddur.

Sumsé heiðarlegt melódískt rokk?

„Það má alveg orða það þannig,“ svarar Þórður.

Foringjarnir voru í bland með frumsamið efni og tökulög sem vinæl voru á þessum tíma.

Vígvöllurinn sveitaböllin

Vígvöllurinn, eins og þeir kalla það, var sveitaböllin og um skeið voru Foringjarnir bókaðir um hverja einustu helgi. „Fyrir utan sveitaböllin vorum við um tíma húsband í Officeraklúbbnum uppi á Velli. Það var mjög sérstakt að spila fyrir Kanana en þeir byrjuðu mun fyrr að skemmta sér og luku sér af fyrr en Íslendingarnir,“ segir Þórður og Oddur bætir við að Foringjarnir hafi stundum eftir gigg kíkt á félaga sína, Greifana eða Sniglabandið, í Stapanum í Keflavík. „Þá vorum við búnir að spila fyrir Kanann en þeir kannski rétt að byrja sitt gigg.“

Foringjarnir áttu sína eigin rútu, af gerðinni Mercedes, og flengdust á henni um landið. „Útlagður kostnaður var fyrir vikið minni hjá okkur en þeim sem þurftu að leigja rútu. Við vorum líka með okkar eigið kerfi og ljósasjóv og rótuðum sjálfir,“ segir Þórður.

Þeir eru sammála um að þetta hafi verið mikið ævintýri og ákaflega gaman. „Ég get alveg fullyrt að sumarið 1987 er eitt skemmtilegasta sumar sem ég hef lifað. Það var algjörlega geggjað,“ segir Oddur.

Spurðir um uppáhaldsstaði nefnir Þórður strax Festi í Grindavík. „Það var alltaf kjaftfullt hjá okkur þar.“

Oddur minnist líka á Vestmannaeyjar. „Við vorum mikið þar og alltaf jafn gaman.“

Var ekkert mál að fá frí í dagvinnunni til að standa í þessu?

„Nei, við nutum allir mikillar velvildar vinnuveitenda okkar,“ segir Þórður.

Hann var í ýmsum öðrum böndum í áttunni, þeirra á meðal Þrek, Rokkhljómsveit Íslands og F.

Oddur vakti fyrst athygli sem trommari Tappa Tíkarrass en var einnig um tíma í ofurgrúbbu sem Eiríkur Hauksson söngvari og Sigurgeir Sigmundsson gítarleikari settu á laggirnar eftir að þeir hættu í Start. „Ég var ekki nema 15 eða 16 ára og mjög spenntur fyrir því verkefni; fara átti í tónleikaferð til London, gera plötu og ég veit ekki hvað. Síðan gerðist ekki neitt.“

Hann hlær.

Og?

„Ekki neitt. Það var eitthvað skrýtin kemestría þarna og þessu eiginlega bara sjálfhætt. Ég held að grúbban hafi ekki einu sinni fengið nafn. Síðan varð Deild 1 til hjá Eika og þar á eftir Drýsill, þar sem Einar Jónsson lék á gítar áður en hann kom í Foringjana. Sjálfur hætti ég í nokkur ár í tónlist eftir þetta.“

Þess má get að Eiríkur Hauksson kom fram með Foringjunum á Bonnie Tyler-tónleikunum, tók tvö eða þrjú lög.

Hituðu upp fyrir Kiss

Árið 1988 var rólegra hjá Foringjunum en þeir hituðu þó upp á frægum tónleikum glysgoðanna í Kiss í Reiðhöllinni í Víðidal. Fljótlega eftir það lagðist bandið í dvala.

„Það er engin einhlít skýring á því. Þetta var tímafrekt og sumir okkar komnir með fjölskyldur. Þá var Jósep á sjó á sumrin og erfitt að finna nýja menn í staðinn. Það kom bara upp þreyta. Þess vegna fórum við í pásu en planið var þó aldrei að hún stæði svona lengi,“ segir Þórður.

„Við gengum ekki lengur í takt sem hljómsveit. Við Þórður og Jósep höfum alltaf verið þéttir en hinir voru ekki samstilltir,“ segir Oddur. „Því fór sem fór.“

Þremenningarnir komu saman aftur og gáfu út jólalag 2013, Biðin eftir aðfangadegi, og fjórum árum síðar kom þriggja laga plata með nýju frumsömdu efni. Því var þó ekki fylgt eftir með tónleikahaldi.

Hvað þýðir þessi endurkoma nú? Er þetta stakur viðburður eða megum við eiga von á að sjá meira af ykkur?

„Það er erfitt að segja,“ svarar Oddur. „Við erum búnir að æfa gamla efnið upp og svo eigum við allir nýtt efni í fórum okkar. Við eigum ábyggilega eftir að taka eitthvað upp og bjóðist einhver gigg þá erum við opnir fyrir því. Eigum við ekki að orða það einhvern veginn þannig?“

Þórður kinkar kolli og bætir við að mögulega sé von á nýju lagi frá Foringjunum með haustinu.

„Við erum enn með allar græjur, fínt stúdíó og það er ekkert mál að gera þetta. Menn þurfa bara að finna tíma,“ segir Oddur.

Hann væri líka til í að spila meira opinberlega. „Það yrði alveg gaman að koma fram á Dillon og slíkum stöðum, jafnvel á Menningarnótt.“

Þannig að þið eruð aftur í símaskránni?

„Já, og búnir að fá okkur faxtæki,“ svarar Oddur hlæjandi.

Og Þórður botnar viðtalið: „En það er samt ágætt að fram komi að við erum ekki að fara að hætta í dagvinnunni.“

Nú er bara að sjá hvort Kiss komi til með launa greiðann og mæti í Borgarfjörðinn á fimmtudaginn til að hita upp fyrir Foringjana.