Aldís Arnardóttir er forstöðumaður Hafnarborgar og er 
hér við verk eftir Amy Brener.
Aldís Arnardóttir er forstöðumaður Hafnarborgar og er hér við verk eftir Amy Brener. — Morgunblaðið/Arnþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þannig mætti segja að báðar sýningarnar geri okkur meðvituð um brýn samfélagsmál, hraðann í nútímasamfélagi, umhverfisógnina, hégómann og sjálfumgleðina.

Fjórar listakonur sýna verk á sýningum í Hafnarborg. Í aðalsal safnsins á efri hæð er sýningin Í tíma og ótíma. Þar sýna Arna Óttarsdóttir, Leslie Roberts og Amy Brener. Sýningarstjóri er Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir.

„Hugmyndin að sýningunni kviknar í samtali milli okkar Ingunnar. Í framhaldi af ákvörðun um að sýna verk eftir Örnu kom upp hugmynd um að vera með samsýningu þar sem verk hennar væru í samtali við verk annarra listamanna sem fjalla um tímann í víðu samhengi. Ingunn sýningarstjóri þekkir til verka Leslie Roberts og fannst hún passa inn í þetta þema og svo kom svo nafn Amy Brener upp í framhaldi,“ segir Aldís Arnardóttir forstöðumaður Hafnarborgar.

Vefnaður, blönduð tækni og skúlptúrar

Arna fæst við myndvefnað. „Hún notast við vefstól, þessa aldagömlu aðferð en er samt alltaf í verkum sínum að fást við samtímann og hraðann sem við búum við í dag. Hún notar til að mynda skissubók, krot eða minnismiða sem efnivið í verkin og skannar svo þessar teikningar yfir í tölvu, þar sem hún vinnur þær áfram í photoshop. Að þessu ferli loknu setur hún upp vefstólinn og við tekur afar hægt og tímafrekt ferli við að vefa. Verkin eru misþétt ofin. Hún hefur notað texta í verkin sín, það er minna áberandi núna en þó má greina orðið ég í einu verki,“ segir Aldís.

Leslie Roberts er fyrrverandi prófessor við Pratt Institute í New York. Um verk hennar segir Aldís: „Hún vinnur verk sín með blandaðri tækni og þar má greina teiknaðar línur, orð og málaða fleti. Hún safnar orðum úr umhverfinu, situr kannski í lestinni og grípur orð sem hún sér og býr til ákveðið kerfi. Þannig verða hennar verk til, út frá sjálfskipuðum reglum, þar sem hún frystir ákveðið augnablik í tíma. Hún vinnur ekki á pappír heldur gerir verkin á MDF, þannig að þau virka þykk og minna kannski nokkuð á steintöflur eldri tíma eða jafnvel spjaldtölvur.“

Amy Brener, sem er frá Kanada en býr í New York, sýnir skúlptúra úr sílikoni eða fljótandi plastefni sem hún steypir alls konar hluti í. „Hún steypir mjög þunnt og í ákveðin mynstur og í þetta setur hún ýmsa hluti sem hún raðar oft í symmetríu. Þetta eru fjöldaframleiddir hlutir úr samtímanum; plasttannþráður, eyrnapinnar, greiður, jafnvel blóm og fleira. Hún hellir svo efninu yfir og þá verða til þessir þunnu skúlptúrar. Þegar maður rýnir í þá minna þeir mann jafnvel á eitthvað fornt eða úr eldri menningarheimum. Verkin vísa þannig fram og til baka í tímann, en vekja einnig hugrenningatengsl við offramleiðslu og neyslu samtímans á óþarfa einnota hlutum.“

Horft til grískrar goðfræði

Á neðri hæð hússins sýnir fjórða konan verk sín á sýningunni Kassíópeiu. Það er Guðný Guðmundsdóttir sem hefur búið í Þýskalandi frá því hún lauk myndlistarnámi árið 1993. Hún sýnir pappírsverk, vídeóverk og skúlptúra. Sýningin var sett upp í Berlín í fyrra en Guðný hefur aðlagað hana rýminu í Hafnarborg og bætt við nýjum verkum.

Um sýninguna segir Aldís: „Eins og titillinn gefur til kynna er Guðný að horfa aftur til grísku goðafræðinnar og fjallar um hina hégómafullu drottningu Kassíópeiu, sem var dæmd til að verða að stjörnumerki og snúast á norðurhveli jarðar með spegil og greiðu vegna sjálfumgleði sinnar.“

Guðný hefur sjálf sagt að kveikjan að þemanu sé persónuleg. „Það var verið að leita að statista í kvikmynd og hún var beðin að senda myndir af sér til leikstjórans en fékk síðan viðbrögð sem hún átti ekki vön á og móðgaðist aðeins. Þá tengdi hún við hégómann og goðsöguna um Kassíópeiu. Verkin á sýningunni vísa í þetta efni með einum eða öðrum hætti, sums staðar glittir í gervitungl og geimstöðvar en þarna eru líka verk sem eru á mörkum þess að vera abstrakt, eins konar vetrarbrautir.

Á sýningunni má einnig sjá seríu landslagsverka þar sem Guðný segist hafa verið að vísa til hugmynda um enska lystigarða en einnig vera undir áhrifum frá Ásgrími Jónssyni og yngri bróður hans, Jóni Jónssyni, í þessum verkum og er þá að hugsa um upphafið landslag og þrískiptingu myndflatarins í bakgrunn, forgrunn og miðgrunn, þar sem aðaláherslan er á fjallið.“

Eitt vídeóverkið á sýningunni nefnist Drottningin. „Þar er Guðný að velta fyrir sér hvernig ógn birtist á ólíkan hátt. Við sjáum stóra vespudrottningu og það heyrist í fuglum sem eru þá væntanlega ógn í huga vespunnar. Stílfærðir fuglarnir í teikningunum minna svo á herþotur sem maðurinn lítur hugsanlega á sem ógn,“ segir Aldís.

Þrír skúlptúrar eru síðan á sýningu og birtast þar sem eins konar verndarar. „Þessir verndarar Guðnýjar kallast skemmtilega á við verk Amy Brener á efri hæð hússins, en verkin Harbinger (Rose) og Harbinger (Ice) minna einmitt á einhvers konar verndandi verur sem gætu verið sendar til okkar úr óljósri fortíð eða framtíð, ef til vill til að vara við þeirri vá sem við stöndum frammi fyrir.

Þannig mætti segja að báðar sýningarnar geri okkur meðvituð um brýn samfélagsmál, hraðann í nútímasamfélagi, umhverfisógnina, hégómann og sjálfumgleðina. En það áhugaverða er hvernig þessi málefni eru dregin fram á undurfallegan og fínlegan hátt, sem leiðir hugann að einhvers konar kvenlegri visku sem er hvíslað að okkur frekar en að hrópa,“ segir Aldís.