„Ég mun halda áfram að sinna bæði myndlist og hönnun,“ segir Salóme.
„Ég mun halda áfram að sinna bæði myndlist og hönnun,“ segir Salóme. — Morgunblaðið/Árni
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Allir skúlptúrarnir eru fletir úr málverkinu, þannig að ég færi málverkið út fyrir strigann og inn í rýmið og jafnvel út fyrir veggi safnsis.

Engill og fluga er titill sýningar Salóme Hollanders í Listasafni Akureyrar. Sýningin stendur til 18. ágúst.

„Ég er með innsetningu sem samanstendur af steypuskúlptúrum og málverki á striga. Svo er stór blár flötur í málverkinu og ég málaði beint á vegg í sýningarrýminu. Allir skúlptúrarnir eru fletir úr málverkinu, þannig að ég færi málverkið út fyrir strigann og inn í rýmið og jafnvel út fyrir veggi safnsins, en einn skúlptúranna stendur úti undir berum himni,“ segir Salóme.

Salóme lauk BA-námi í vöruhönnun við Listaháskóla Íslands árið 2022. Það má kannski segja að verk hennar liggi gjarnan á mörkum hönnunar og myndlistar. „Ég lauk bæði hönnunarnámi og listnámi og vinn þarna á mörkunum. Mér þykir rýmið sem skapast við skörun sviðanna tveggja mjög áhugavert“ segir hún. „Ég lít á verkin á sýningunni sem myndlistverk en hugmyndin að sýningunni er sprottin út frá hönnunarverkefni sem ég sýndi í Mengi á Hönnunarmars í fyrra.“

Um titilinn Engill og fluga segir hún: „Ég rakst á þessa setningu í bókinni Óbærilegur léttleiki tilverunnar eftir Milan Kundera. Þar er fjallað um það þegar enginn munur er lengur á því ægifagra og því lágkúrulega, engli og flugu. Þetta eru tvö fyrirbæri sem eru ólík en eiga líka margt sameiginlegt, hafa vængi og eru á sveimi. Annað er huglægt en hitt hefur efniskennd og allir geta séð það.

Ég hugsa kannski málverkið svolítið sem engilinn því þú horfir á fletina og myndheiminn, skapar þína eigin sýn og speglar þig í henni. Hugmyndin um fluguna markar þá frekar skúlptúrana því þeir hafa efniskenndina og sýna hvernig ég hugsa heim málverksins í þrívídd og færi hann inni í rýmið. Hvorugt hugtakið er þó hafið yfir hitt og þau skarast jafnvel.“

Salóme hefur tekið þátt í sýningum hérlendis og erlendis en Engill og fluga er fyrsta einkasýning hennar í opinberu safni. „Það er mikill heiður að fá að sýna á Listasafni Akureyrar og ég er mjög þakklát fyrir að safnið keypti sýninguna inn í safneign sína. Ég hannaði sýninguna sérstaklega fyrir sal 09 og nú fær hún að eiga heima innan veggja safnsins,“ segir hún.

Spurð hvað sé fram undan segir hún: „Upp á síðkastið hef ég verið í mörgum ólíkum verkefnum. Ég hef verið að hanna og framleiða spegla sem nefnast glazed mirrors sem ég sýndi á Hönnunarmars í ár og þeir fara í sölu í Epal á næstu misserum.

Það er svo sem alltaf nóg á döfinni, ég mun halda áfram að sinna bæði myndlist og hönnun. Ég er að vinna að hönnun á fleiri vörum inn á heimili, mér finnst það mjög spennandi vettvangur. Svo er ég byrjuð að vinna að næstu sýningu, sem á jafnvel aðeins skylt við sýninguna fyrir norðan og ég er mjög spennt að sýna afraksturinn af því ferli.“