Kristján Hreinsson kærir RÚV vegna þess að þar finnst honum ekki vera töluð góð og rétt íslenska.
Kristján Hreinsson kærir RÚV vegna þess að þar finnst honum ekki vera töluð góð og rétt íslenska.
Við sem berum ekki hlýjar taugar til kynhlutlausa tungumálsins höldum staðfastlega í það sem við teljum góða og gilda íslensku og fúlsum við öðru.

Sjónarhorn
Kolbrún Bergþórsdóttir
kolbrun@mbl.is

Það er erfitt að banna fólki að tala eins og það vill, eiginlega nánast ómögulegt. Þeir sem eru viðkvæmir gagnvart tungumálinu og notkun þess verða þess vegna iðulega að bera harm sinn í hljóði. Sumum er það ómögulegt, eins og Skerjafjarðarskáldinu Kristjáni Hreinssyni sem hefur sent Lilju Alfreðsdóttur menningarmálaráðherra kæru á hendur starfsmönnum og stjórnendum RÚV vegna misþyrmingar á tungumálinu. Brot starfsmanna felst að hans mati í því að auka mjög notkun hvorugkyns og draga stórlega úr notkun karlkyns í nafni kynhlutleysis í málfari.

Kæra Kristjáns mun ekki leiða til þess að starfsmenn RÚV kasti því kynhlutlausa málfari sem þeir hafa flestir tileinkað sér. Hún er hins vegar frumleg leið til að vekja fólk til umhugsunar um íslenskuna og notkun hennar. Hið kynhlutlausa málfar er vissulega hvimleitt og framkallar oft andvörp, en það er ekki bara stundað uppi í Efstaleiti. Það grasserar úti um allt.

Allt í einu var ekki hægt að nota orðið „allir“ um alla og brýnt var talið að nota orðið „öll“ svo enginn móðgaðist. Þetta var fáránleg breyting því „allir“ á við um nákvæmlega alla, ekki bara suma.

„Eru öll komin?“ spurði fréttamaður RÚV í beinni útsendingu frá Hörpu þar sem verið var að taka á móti þjóðarleiðtogum á leiðtogafund Evrópuráðsins – sem kostaði þjóðina nokkra milljarða. Pistlahöfundur fann beinlínis til í hjartanu við að heyra spurninguna um þessi „öll“ sem vonandi væru mætt.

Athyglisvert er síðan hversu rétttrúnaðar-fólkið leggur mikið upp úr því að sniðganga orðið „maður“. Nánast er talið vítavert að nota orðið „maður“ um konur. Eins og hendi sé veifað teljast konur ekki lengur vera menn. Hin snjalla setning Vigdísar Finnbogadóttur um að ekki ætti að kjósa hana forseta vegna þess að hún væri kona heldur berum ekki augar til kynungumálsins vegna þess að hún væri maður þykir rétttúnaðarhópnum beinlínis vandræðaleg og engan veginn við hæfi í nútíma sem á víst að vera óskaplega frjálslegur.

Sú sem þetta skrifar heldur sig við það málfar sem hún lærði ung að árum og ekki síst af skáldum þessa lands, eins og hinum yndislega Jónasi Hallgrímssyni. Henni þykir þetta málfar fagurt og mun aldrei breyta því. Hún notar orðið „maður“ óspart, segir líka „allir“ og „þeir“ í staðinn fyrir „þau“. Fegurðarsmekk hennar er misboðið svo að segja í hvert sinn sem hún verður vör við ónauðsynlega notkun kynhlutlausa tungumálsins. Sú notkun er alls staðar og því er stöðugt verið að særa málkennd hennar. Hún ætlar hins vegar ekki að leggja fram kæru þess vegna. Það er nóg af klögumálum í þessum heimi og engin ástæða til að bæta við þau og svo leiðist henni allt vesen. Hún er einnig á þeirri skoðun að fólk megi í öllum aðalatriðum lifa lífi sínu eins og því sýnist og tala eins og því sýnist. Svo ræður maður sjálfur hvort maður tekur mark á fólki.

Samkvæmt lögum ber Ríkisútvarpinu að leggja rækt við íslenskuna. Kristján Hreinsson segir í kæru sinni að pólitísk rétthugsun hafi orðið til þess að starfsmenn stofnunarinnar hafi villst af leið. Það er líkast til alveg rétt hjá honum. Pólitíski rétttrúnaðurinn er alls staðar og flestir fylgja honum af hræðslu við að vera annars taldir fremur vondir, fordómafullir og afturhaldssamir einstaklingar. Manneskjur velja það sem þær halda að sé rétt hverju sinni. Stór hópur virðist telja að kynhlutlausa tungumálið sé hið rétta tungumál og sú skoðun hefur smitast út í samfélagið. Það virðist ansi erfitt að hamla gegn þeirri þróun. Sennilega er það vonlaust.

Tungumálið þolir ansi margt. Við sem berum ekki hlýjar taugar til kynhlutlausa tungumálsins höldum staðfastlega í það sem við teljum góða og gilda íslensku og fúlsum við öðru. Við vitum af kynhlutlausa málinu og teljum það vonda þróun en áttum okkur á að lítið vit er í að ætla að banna það.

Sumt verður maður einfaldlega að þola í þessu lífi, án þess að samsama sig því.