Útihátíðir eru stór hluti íslenskrar sumarmenningar.
Útihátíðir eru stór hluti íslenskrar sumarmenningar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mikilvægur hluti sumarfrísins fyrir marga eru ferðalög, hvort sem það er suður á bóginn á framandi slóðir, en einnig þykir Íslendingum gott að ferðast innanlands.

Mikilvægur hluti sumarfrísins fyrir marga eru ferðalög, hvort sem það er suður á bóginn á framandi slóðir, en einnig þykir Íslendingum gott að ferðast innanlands. Gott er að búa í náttúruparadís þar sem nóg er að skoða, svo sem hálendið, íslenska smábæi eða sveitakyrrðina.

Ein skemmtun sem ávallt er viðeigandi að sumarlagi er tónlist. Hægt er að finna ótrúlegan fjölda af skemmtilegum lögum og eitthvað við hæfi allra. Margir taka upp gítarleik á sumrin og eru íslensk dægurlög ávallt vinsæl. Þar má nefna ýmsa íslenska tónlistarmenn, svo sem Bubba Morthens, Björgvin Halldórs og hljómsveitina Sálina hans Jóns míns. Mikið af íslensku tónlistarfólki slær í gegn með sumarsmellum og má segja að þessi flokkur tónlistar sé orðinn svo vinsæll að sum lög eru nánst einungis spiluð um þetta leyti árs.

Þá er mikilvægt að nefna útihátíðir sem allir landsmenn þekkja, og lífga oft upp á rigningarsöm og litlaus sumur. Þetta er íslenskur siður en í hálfa öld hefur nú tíðkast að halda upp á sumarið með þessum hætti. Þjóðhátíð í Eyjum, Kótilettan og Írskir dagar eru einungis fáar af þeim fjölmörgu hátíðum þar sem Íslendingar koma saman og halda upp á fríið með því að syngja sín uppáhaldslög og verja stund með vinum og fjölskyldu. Um verslunarmannahelgina má flakka um landið og í flestum bæjum er að finna útihátíðir, sama hversu litlar þær kunni að vera.

Fimm bestu sumarsmellirnir

Rómeó og Júlía – Bubbi Morthens

Flestir þekkja lagið Rómeó og Júlía eftir Bubba Morthens, en það er eitt af frægari lögum söngvarans. Bubbi Morthens hefur verið einn vinsælasti söngvari þjóðarinnar frá því hann var ungur og hefur hann selt fleiri plötur en nokkur íslenskur tónlistarmaður. Hann kemur einnig úr mikilli listamannafjölskyldu, en föðurbróðir hans, Haukur Morthens, var vel þekktur söngvari. Einnig var faðir Bubba, Kristinn Morthens, myndlistarmaður.

Lagið Rómeó og Júlía kom út árið 1985 og var hlutir af plötunni Kona. Sagan af því þegar lagið varð til er skemmtileg, en í viðtali við K100 árið 2020 segir Bubbi frá því hvernig það varð til þegar hann var í meðferð að Staðarfelli í Dölum. Eftir viku á meðferðarheimilinu hafi hann einfaldlega þurft að fá gítar til þess að semja. „Ég var orðinn óléttur af tónlist,“ segir hann. Þá hafi hann fengið gítar að láni og samið allt lagið samdægurs.

Lífið er yndislegt – Hreimur, Magni og Bergsveinn

Lífið er yndislegt er annað þekkt lag meðal landsmanna. Það var þjóðhátíðarlag árið 2001 og var þá frumflutt á stóra sviðinu í Vestmannaeyjum. Hreimur Örn Heimisson samdi lag og texta en flytjendur voru Hreimir sjálfur, Bergsveinn Arilíusson og Magni Ásgeirsson. Það er óhætt að segja að lagið hafi verið flutt margoft síðan það kom út, en það er líklega þekktasta þjóðhátíðarlag allra tíma.

Vor í Vaglaskógi - Kaleo

Hér er um annað gríðarlega þekkt lag að ræða, en það var fyrst flutt af Vilhjálmi Vilhjálmssyni og Hljómsveit Ingimars Eydal. Þeir gáfu út plötu árið 1966 sem er samheiti lagsins fræga, en á henni syngja Vilhjálmur og Þorvaldur Halldórsson aðeins fjögur lög. Vilhjálmur samdi lag og texta og Vor í Vaglaskógi sló í gegn.

47 árum síðar, árið 2013, gaf hljómsveitin Kaleo út ábreiðu af laginu. Sú útgáfa sló öll fyrri met og er mun betur þekkt í dag, þá sérstaklega meðal unga fólksins. Útgáfa Kaleo inniheldur sama texta en er með breyttum tóni og hljómar mun nútímalegri. Það má segja að hljómsveitin Kaleo hafi komið sér á toppinn með þessu lagi, en hafa þó gefið út fjöldann allan af lögum sem hafa slegið í gegn.

Vertu ekki að plata mig – HLH-flokkurinn

HLH-flokkurinn var hljómsveit stofnuð árið 1978 af þeim Haraldi og Þórhalli Sigurðssyni, ásamt Björgvini Halldórssyni. Ekki kannast allir við hljómsveitina, en flestir þekkja þó tónlistarmennina vel. Björgvin Halldórsson hefur verið einn ástsælasti söngvari íslendinga í áratugi, ásamt Þórhalli Sigurðssyni, en hann er betur þekktur sem Laddi.

Hljómsveitin gaf út þó nokkra smelli á meðan hún var starfandi, en sá allra vinsælasti var lagið Vertu ekki að plata mig, sem hljómsveitin flutti með Sigríði Beinteinsdóttur. Vert er að segja frá því að Sigríður var óþekkt söngkona en Björgvin Halldórs heyrði upptökur af henni í stúdíoi og varð heillaður af söngrödd hennar, og fékk hana til þess að syngja með þeim lagið sem kom henni á toppinn. Smellurinn kom út árið 1984, eða nokkrum árum áður en hún keppti í sinni fyrstu Söngvakeppni (e. Eurovision).

Leiðarlok - Friðrik Dór

Það er varla hægt að skrifa grein um sumarsmelli án þess að minnast einu orði á Friðrik Dór. Söngvarinn frægi fæddist árið 1988 og varð ungur vel þekktur íslenskur tónlistarmaður. Hann flutti þjóðhátíðarlag ársins 2018 með bróður sínum Jón Jónssyni, Á sama tíma, á sama stað. Það er þó aðeins eitt fjölmargra vinsælla laga hans, en lagið Leiðarlok þekkja flestir vel. Platan Allt sem þú átt kom út árið 2010 og segja má að flest lög þeirrar plötu séu alvörusumarsmellir.

Ótal fleiri íslensk lög var hægt að útnefna sem „bestu sumarsmelli“, en þó komust aðeins fimm að. Íslensk tónlist hefur ávallt verið mikilvægur hluti skemmtunar fyrir íslenska þjóð og gömlu lögin munu seint gleymast. Þau verða líklega rifjuð upp á hverju sumri, sama hvort um sé að ræða útilegur, veislur eða tónlistarhátíðir.