Elena Kristín starfar sem bókmenntafræðingur
Elena Kristín starfar sem bókmenntafræðingur
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það eru alltaf nokkuð margar bækur á náttborðinu mínu þar sem ég les aðalega á kvöldin.

Það eru alltaf nokkuð margar bækur á náttborðinu mínu þar sem ég les aðalega á kvöldin. Þessa stundina er ég að lesa íslensku þýðinguna á verkum hrollvekjuhöfundarins Edgar Allan Poe, sem gefin var út í fyrra, hún er listavel þýdd og ég varð ekki fyrir vonbrigðum. Inngangur bókarinnar er mjög áhugaverður en þar fjallar Ástráður Eysteinsson bókmenntafræðingur um ævi og skrif Poe. Í bókinni eru bæði kvæði og smásögur og virkilega skemmtilegt að lesa þær á íslensku. Bókin heitir Edgar Allan Poe, Kvæði og sögur.

Ég hlusta á bækur þegar ég er að þrífa eða keyra og þá yfirleitt á eitthvað léttmeti. Bækurnar sem eru í „eyrunum“ á mér núna eru Sjö systur eftir Lucindu Riley. Þetta eru sjö bækur sem fjalla um Pa Salt, fimmtugan milljarðarmæring sem ættleiðir sex dætur víðs vegar að úr heiminum og ferðalag systrana við að finna fjölskyldur þeirra eftir að hann deyr. Bækurnar eru alveg ágætis afþreying þó formúlan sé mjög svipuð í öllum bókunum.

Ég les mikið af ljóðum og er að lesa núna í annað sinn ljóðabókina Emerald Wounds eftir Joyce Mansour. Hún var franskur súrrealískur rithöfundur sem skrifaði bæði ljóð og leikrit. Ljóð hennar voru nýlega þýdd af hinni kanadísku Emilie Moorhouse frá frönsku og yfir á ensku mér til mikillar gleði. Hún sótti innblástur í verk sín frá fornum trúarbrögðum og hefðum og gerði óspart grín að yfirborðshugsjóninni um konur sem saklausar og undirgefnar. Ljóð hennar eru ástríðufull og erótísk en á sama tíma ofbeldisfull með snertingu af sadómasókisma.

Ég var að klára bókina Elsku Drauma mín , en Vigdís Grímsdóttir skráir frásögn Sigríðar Halldórsdóttur. Sigríður segir frá lífi sínu sem barn á Gljúfrasteini, ástum hennar og sorgum. Þar sem ég er ekki búin að lesa ævisögu Laxness þá vissi ég ekki mikið um fjölskylduna en mér fannst áhugavert að fá innsýn í líf þeirra hjóna Auðar og Halldórs. Það sem kom mér mest á óvart var hversu dugleg Auður var en hún sá ein um börn og bú og hafði umsjón með byggingu Gljúfrasteins á meðan Laxnes var erlendis að skrifa. Það má ekki gleyma því að þá voru aðrir tímar en nú og lífsbaráttan harðari.

Elena Kristín starfar sem bókmenntafræðingur.