— Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Landsmót hestamanna í Reykjavík hófst með pompi og prakt í gær á keppnissvæði Fáks í Víðidal.

Landsmót hestamanna í Reykjavík hófst með pompi og prakt í gær á keppnissvæði Fáks í Víðidal. Yfir tvö hundruð hross voru mætt til leiks í keppni í b-flokki barna, ungmenna og fullorðinna og gæðingaskeiði fullorðinna.

Mikill fjöldi af gestum var á mótssvæðinu og fylgdust þeir grannt með bæði kynbótadómum á kynbótavelli og keppnisdagskrá á Hvammsvelli.

Mótsgestir og áhorfendur voru vel búnir í brekkunum fyrir langan dag að fylgjast með helstu gæðingum landsins í b-flokki. Veðrið var kuldalegt en hafði það engin áhrif á stemninguna enda yfirleitt alltaf líf og fjör þar sem hestamenn eru.

Keppnisdagskrá hófst klukkan hálfníu með forkeppni í barnaflokki. Barnaflokkur hefur ætíð verið ein vinsælasta grein landsmótsins enda fátt skemmtilegra en að sjá hestamenn framtíðarinnar sýna listir sínar.

Aldur keppenda í barnaflokki er 10 til 13 ára og voru margir að keppa á sínu fyrsta landsmóti og því spennan hjá bæði börnum og foreldrum mikil.

Ekki urðu áhorfendur í brekkunni fyrir vonbrigðum enda gáfu knaparnir ekkert eftir og stefnir í spennandi milliriðil. Efstur eftir forkeppni er Elimar Elvarsson á Sölku frá Hólateigi með hvorki meira né minna en 8,98 í einkunn. Fast á hæla hans er Viktoría Huld Hannesdóttir á Þin frá Enni með 8,97.