Hverjir eru það sem reglubundið afhjúpa ofstæki sitt?

Flokkur Marine Le Pen hefur óneitanlega sýnt þolinmæði og þrek undir forystu hennar. Þegar Ríkisútvarpið kallar menn til sín í einhverri undarlegri örvæntingu ræða saman maðurinn af „fréttastofunni” og sá sem oft er kallaður til, þegar gefa þarf frönskum stjórnmálum einhæfar einkunnir. Sá talar jafnan um „harðan hægri flokk,” en eins og allir vita sem fylgjast með eru „harðir vinstrimenn” eða „öfgasinnaðir vinstrimenn” hvergi til.

Viðmælandinn var í öngum sínum, rétt eins og sá af fréttastofunni, í hvílík vandræði franska þjóðin hefði komið sér. Hvorugur þessara tveggja sem töluðu einum rómi, eins og þeir væru staddir í pólitískri umræðu í sértrúarsöfnuði, vakti athygli á því að nú um allnokkra hríð hefur flokkur Le Pen stækkað hratt og örugglega í hverjum kosningum á fætur öðrum og fyrir nokkru til dæmis fengið frábæra kosningu til þjóðþingsins. Eftir að almenningur hafði búið við þá útkomu um hríð virðist hann hafa ákveðið eftir þá reynslu að æskilegt væri að bæta verulega við í þeim kosningum sem Macron forseti boðaði til í undarlegri örvæntingu, þegar hann hafði í klukkustund horft framan í það að flokkur Marine Le Pen væri orðinn helmingi stærri flokkur eða svo, en flokkur franska forsetans sjálfs á þingi ESB. Macron rauf þing og efndi til kosninga og virðist hafa talið að slík aðgerð myndi vekja frönsku þjóðina af svefni sínum ef þjóðarleiðtoginn gripi skyndilega til slíkra aðgerða.

Fyrri hluti þessara óðagotskosninga benti ekki til þess að franska þjóðin væri að svara kalli örvæntingar úr forsetahöllinni. Marine Le Pen bauð sig fram til embættis forseta 2012 og fékk 17,9% atkvæðanna. Fimm árum síðar bauð hún sig fram á ný og fékk þá 33,9 % atkvæðanna og árið 2022 gaf hún enn kost á sér í embætti forseta og fékk þá 41,5% atkvæðanna. Ekki er undarlegt þó að ýmsum kunni að þykja þróun þessara talna, sem Marine Le Pen hefur jafnt og þétt fengið í baráttunni um forsetaembættið, hafa nokkra spádómsvísbendingu.

Margir myndu ætla að flest benti til að Marine Le Pen yrði fyrsta konan á frönskum forsetastóli. Ef þau ósköp gerðust er líklegt að fréttastofa ríkisins myndi kalla örvæntingarfullan mann á sinn fund til að ræða hvort þarna benti ekki flest til þess að endir mannlegrar reisnar væri innan seilingar og hvernig mætti bregðast við þeim þætti endalokanna.

Ekki hafa menn gleymt því þegar að Giorgia Meloni varð forsætisráðherra Ítalíu og svipað fólk og nú tók andköf yfir þessum þætti endaloka menningar mannkyns. Því til staðfestingar var bent á að Giorgia Meloni hefði á sínum tíma stutt Mussolini, einræðisherra Ítalíu. Þyrfti ekki frekari vitna við, og breytti það engu að Giorgia Meloni fæddist rúmum 30 árum eftir að Mussolini var hengdur öfugur upp í stríðslok 1945.

Og spyrja mætti sig og aðra hverjir það eru sem reglubundið afhjúpa ofstæki sitt þegar þeir tala niður til almennings og allra þeirra sem voga sér að taka þá ekki alvarlega.