Bragi Sigurðsson fæddist á Klúku í Bjarnarfirði 24. júlí 1944. Hann lést á heimili sínu á Akureyri 15. júní 2024.
Foreldrar Braga voru Sigurður Arngrímsson, f. 7. september 1900, og Fríða Ingimundardóttir, f. 22. nóvember 1908, og var Bragi sjöunda barn af níu sem komust á legg. Systkini Braga eru Katrín (látin), Ingimunda, Baldur (látinn), Hulda, Alda, Jón, Pálmi og Kristinn.

Hann lætur eftir sig eiginkonu, Dóru Steinunni Jónasdóttur, f. 12. janúar 1951 í Reykjavík og þrjá syni, Bjarka Snæ, f. 26. júní 1974, Óskar, f. 20. janúar 1977, og Stein Kristin, f. 8. september 1982. Bjarki Snær er kvæntur Sigrúnu Konráðsdóttur, f. 19. apríl 1976. Dætur þeirra eru Dagbjört Lára, f. 16. október 2001, Sunna Lind, f. 8. janúar 2005, og Helga Sólrún, f. 2. ágúst 2010. Óskar var kvæntur Sigrúnu Ásdísi Sigurðardóttur, f. 29. maí 1978. Börn þeirra eru Ísabella Júlía, f. 27. júlí 2005, og Bragi Dór, f. 22. mars 2012, auk þeirra á Sigrún Ásdís tvo syni, Sigurð Orra, f. 29. desember 1997, og Ingimar Andra, f. 14. janúar 2001. Steinn Kristinn er kvæntur Margréti Hrefnu Ríkharðsdóttur, f. 13. apríl 1983. Börn þeirra eru Matthías Bragi, f. 4. ágúst 2006, Daníel Svavar, f. 2. október 2008, og Dóra Millý, f. 7. júlí 2013.
Bragi ólst upp ásamt foreldrum og systkinum á Klúku í Bjarnarfirði og stundaði síðar nám við Reykjaskóla í Hrútafirði. Hann lauk í framhaldinu sveinsprófi í húsasmíði frá Iðnskólanum og byggingartæknifræði frá Tækniskólanum. Hann hóf störf hjá verkfræðistofunni Fjarhitun í Reykjavík árið 1974 en flutti til Akureyrar 1976 og hóf þá störf hjá Verkfræðistofu Norðurlands (síðar Eflu). Þar starfaði hann við fjölbreytt verkefni í yfir 45 ár, eða allt til loka árs 2022. Bragi var meðlimur í Oddfellowreglunni og sinnti á fyrri árum ýmsum störfum fyrir Knattspyrnufélag Akureyrar, þar á meðal níu árum í aðalstjórn félagsins. Hann hafði alla tíð unun af ferðalögum og laxveiði og á síðari árum hóf hann að stunda golf ásamt eiginkonu sinni.
Útför Braga fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 2. júlí 2024, klukkan 13.

Elsku Bragi.

Ég hef verið svo lánsöm að þekkja þig meira en helming ævi minnar, eða í 25 ár. Aldrei hef ég kynnst jafn rólegum, duglegum og úrræðagóðum manni. Ég hef lært svo margt gott síðan ég kom inn í fjölskylduna 16 ára, að verða 17, og ótal minningar sem ég get skrifað um þig og margt sem ég mun sakna. Má þar nefna helgarkvöldanna þar sem við sátum, ég, Steini, þú og Dóra í stofunni eftir góða máltíð, hlustuðum á tónlist sem þú varst oft að velja (þér fannst ekki leiðinlegt að vera á youtube) og töluðum um daginn og veginn langt fram á kvöld. Þegar ég bjó hjá ykkur á framhaldsskólaárunum, þá lifði ég eins og prinsessa og oft þegar ég vaknaði á köldum vetrarmorgnum og ætlaði að keyra alla þessa 50 m í skólann, þá varst þú búinn að fara út til að hita bílinn minn upp og skafa. Já, alltaf verið að passa upp á maður hefði það gott. Fyrsta útilegan sem við fórum í með ykkur, þá mættum við Steini aðeins á eftir þér og Dóru og auðvitað varst þú búinn að tjalda, blása upp dýnur og búa um unglingana. Þannig var það alltaf, við mættum og þú búinn að græja allt upp á 10.
Við Steini og krakkarnir höfum verið svo lánsöm að ferðast með ykkur gegnum tíðina. Hvort sem það eru sumarbústaðarferðir eða til útlanda og þar standa tvær ferðir upp úr. Annars vegar ferðin til Tenerife, þar sem við tvö fórum í fótsnyrtingu í fiskaspa-inu þar sem við létum fiska borða af okkur dauða húð. Hinum í fjölskyldunni fannst það ekki sérlega spennandi en þarna nutum við okkar og uppskárum fína fætur fyrir vikið. Hin ferðin sem stendur upp úr er ferðin sem við fórum til Króatíu þar sem við keyrðum frá Þýskalandi, með stoppi í Austurísku Ölpunum og svo alla leiðina til Króatíu. Krakkarnir tala enn um hana og fyrir tveim vikum spurði Daníel Svavar mig hvort við gætum ekki farið aftur með ömmu Dóru og afa Braga til Króatíu. Ég þurfti að útskýra fyrir honum að því miður væri það sennilega ekki mögulegt. Þetta var dásamleg ferð þrátt fyrir ansi mörg pissu- og McDonalds-stopp.
Ég er svo óendanlega þakklát fyrir að Steini hringdi í þig þegar við vorum í Eyjum þann 15. júní til að segja þér að Þróttur hefði unnið KA 3-1 og afastelpan þín hefði skorað öll mörkin. Þú spurðir svo um veðrið og golfið og allt virtist vera í lagi. En svo var því miður ekki. Rétt eftir lokaflautið í síðasta leiknum hennar Dóru á TM-mótinu, kom símtalið sem við vissum að mundi koma fyrr en síðar en vorum þó grunlaus að það kæmi þennan dag.
Nú er því miður komið að kveðjustund og ég spyr mig nú: Hver á að skafa bílinn, blanda drykkina, finna lausnir, fara með mér í fiskaspa, elda nautasteikina og stjórna lagalistanum?
Elsku Bragi, ég elska þig og mun sakna þín sárt! Ég er svo þakklát fyrir allan okkar tíma saman og sérstaklega okkar síðustu stund saman, þar sem ég tók þig í fótsnyrtingu og klippingu og þú hafðir á orði að ég yrði frábær hjúkrunarkona.
Hvíldu í friði.
Þín tengdadóttir,
Margrét Hrefna (Magga).

Kær mágur minn, Bragi Sigurðsson, var hæglátur maður, bóngóður og vandvirkur. Kynni okkar hófust þegar hann og elsta systir mín, Dóra Steinunn, rugluðu saman reytum sínum. Hann var þá við nám í Tækniskóla Íslands, að nema byggingatæknifræði. Áður hafði hann lokið námi í húsasmíði og starfaði við þá iðn, samhliða náminu. Hann var flinkur maður og duglegur, starfaði fyrir Trésmiðju Hákonar og Kristjáns sem opnaði leið fyrir mitt fyrsta sumarstarf 1969 á Reykjum í Hrútafirði. Bygging skólastjórabústaðar við Reykjaskóla var sumarstarf okkar beggja. Þar þurfti ekki að hafa mörg orð um hlutina, verkin voru látin tala. Að námi loknu hóf hann störf hjá verkfræðistofunni Fjarhitun, sérfræðingur í lögnum, sem aftur leiddi þau Dóru og Braga ásamt barnungum syni norður á Akureyri þar sem hann lagði hönd á plóg við að koma heitu vatni til Akureyringa. Hitaveitan hélt innreið sína á Akureyri. Akureyri varð þeirra heimabær, þau byggðu sér myndarlegt parhús við Grenilund, þar sem fjölskyldan stækkaði og þeim fæddust tveir drengir. Húsbyggingin bar vott um vandvirkni Braga, smáatriðin þaulhugsuð og ekkert næstum því látið duga. Bragi var liðtækur íþróttamaður, sprettharður og knatttækni með ágætum, knattspyrna varð íþrótt drengjanna þeirra og foreldrarnir studdu þá með virkri þátttöku í starfi KA, knattspyrnufélags Akureyrar. Við standsetningu á fyrstu íbúð okkar Guðnýjar konu minnar þótti Dóru hægt miða við framkvæmdir og eitt símtal til Braga dugði, kappinn mætti suður í Garðabæ og lagði sitt af mörkum til að við gætum flutt inn á tilsettum tíma, vinargreiði sem gerði gæfumuninn fyrir okkur.

Veiðibakterían lét Braga ekki í friði, enda kominn inn í fjölskyldu þar sem villtur lax var áhugamálið, margar veiðiferðirnar fórum við saman, Laxá í Dölum, Blanda og Brennan (ármót Þverár og Hvítár í Borgarfirði) leikvöllurinn. Golfbakteríuna greip hann einnig, reyndar kominn á efri ár og sást það á færni hans, en leikgleðin var til staðar og félagsskapurinn var mikilvægari en skorið.

Rólyndi og æðruleysi einkenndi Braga, veikindum sínum tók hann sem hverju öðru verkefni sem þyrfti að vinna. Hæðir og lægðir, biðtíma eftir niðurstöðum rannsókna lét hann ekki á sig fá, tók hverjum degi eins og hann kom.

Að lokum þakka ég Braga samfylgdina og votta aðstandendum hans samúð, minningin um hann lifir.
Guðbrandur Kristinn.

Í dag verður borinn til grafar Bragi Sigurðsson, jafnaldri minn og frændi, frá Klúku í Bjarnarfirði á Ströndum, eftir áratuga baráttu við illvígan sjúkdóm. Við vorum systkinasynir. Fríða móðir hans og faðir minn voru systkini frá Svanshóli.

Það var þéttbýlt í Bjarnarfirðinum á uppvaxtarárum okkar. Systkinin frá Svanshóli bjuggu í nærbýli, Ingimundur á Svanshóli, Arngrímur í Odda og Fríða á Klúku. Það var mikill samgangur á milli bæja og góð samvinna.

Hugurinn leitar til æskuáranna. Á þessum tíma voru nálægt 30 ungmenni í „Firðinum fagra” eins og einn frændi minn kallar Bjarnarfjörðinn. Meiri hlutinn var strákar. Það var mikið íþróttalíf allt árið hjá Sundfélaginu Gretti sem var ungmennafélagið okkar. Á vetrum var skíðaíþróttin tekin föstum tökum og æft bæði svig og ganga af miklum krafti. Fengum jafnvel finnskan skíðaþjálfara, Ale Læne, til að þjálfa okkur.

Bragi var fjölhæfur íþróttamaður og með þeim fremstu í flestum greinum. Var meðal annars í boðgöngusveit um „Smalabikarinn” fyrir 14-16 ára á skíðamóti HSS sem hannaður var með miklum hagleik af Jörundi Gestssyni á Hellu og fagurlega útskorinn. Hann var einnig góður svigmaður. Á sumrin æfðum við sund, knattspyrnu og frjálsar íþróttir. Bragi var góður bringusundsmaður, liðugur knattspyrnumaður og ágætis frjálsíþróttamaður. Hann var í boðsundssveit Grettis, knattspyrnuliðinu og tók þátt í frjálsíþróttamótum. Besta greinin hans var 800 m hlaup. Hann vann þá grein í sveinaflokki 16 ára og yngri á héraðsmóti HSS 14 og 15 ára en mér tókst að verða á undan 1960. Það ár urðum við í fyrsta og öðru sæti á Sveinameistaramóti Íslands í Reykjavík. Komum hlið við hlið í mark. Hann sekúndubrotum á undan.

Seinna tók hann ástfóstri við knattspyrnuna og var í héraðsliði HSS í mörg ár. Liðið keppni einmitt á Landsmóti UMFÍ á Laugarvatni 1965, eitt þriggja liða. Það voru engin smá lið sem HSS mætti: Keflvíkingar sem urðu Íslandsmeistarar árið áður, ef ég man rétt, og sterkt lið Skagfirðinga.

Bragi var jafnlyndur, ljúfur, traustur og góður félagi og vinur. Aldrei bar skugga á samskipti við hann og ég man ekki eftir að hann skipti skapi.

Við Svanshólsbræður viljum þakka honum fyrir áratuga vináttu og frændsemi. Vottum ættingjum hans innilega samúð við fráfall þessa góða drengs.

Ingimundur Ingimundarson.

Traustur, nákvæmur, iðinn, þessi orð lýsa Braga, svila, vini, veiði- og golffélaga mínum. Þegar ég kynntist Jóhönnu konu minni sagði hún við mig að til að kynnast karlmönnunum í minni fjölskyldu þyrfti ég að veiða lax, sem var mér framandi á þeim tíma. Það atvikaðist síðan þannig að ég deildi stöng með Braga í árvissum veiðitúr í Laxá í Dölum, auk þess Blöndu og Fnjóská, í fjölda ára. Við áttum góðar stundir saman á bökkum veiðiánna. Á veiðistaðnum Bakka í Laxá var föst hefð okkar að fá sér útilegukaffi, hefðbundið kaffi með smá lögg út í. Bragi var duglegur og lunkinn veiðimaður, í uppáhaldi hjá honum var 28 g svartur Toby-spúnn sem gaf oft vel, vel til þess fallinn að vekja laxinn til töku á litlum flugum í kjölfarið. Hin síðari ár höfum við átt margar góðar stundir saman á ýmsum golfvöllum hér heima og erlendis. Það einkenndi samskipti mín við Braga að við gátum átt góðar stundir saman í þögn.

Að lokum þakka ég honum samfylgdina og vináttu í gegnum árin, ég trúi því að í sumarlandinu séu golfvellirnir iðjagrænir og árnar fullar af laxi. Ég votta Dóru og fjölskyldunni allri samúð við andlát hans.

Jón Aðalsteinn (Alli).

Bragi Sigurðsson, félagi minn og vinur í meira en 60 ár, fæddist og ólst upp í Klúku í Bjarnarfirði. Við áttum ýmislegt sameiginlegt þegar við komum saman inn í 1. bekk á Reykjaskóla í Hrútafirði haustið 1961, sveitadrengir úr stórum systkinahópum. Við vorum báðir mun eldri en þau bekkjarsystkini okkar sem fóru beint í héraðsskólann eftir fullnaðarpróf, ég þremur árum eldri og hann fjórum, því að í sveitunum okkar þótti ekki sjálfsagt að setja börn til mennta að loknu fullnaðarprófi við 13 til 14 ára aldur. Líklega var það m.a. þetta sem olli því að með okkur tókst þá strax vinátta sem entist til hinstu stundar. Bragi braust til mennta af eigin rammleik en til þess að hann gæti haldið áfram námi eftir fullnaðarpróf varð hann að fjármagna skólagönguna sjálfur. Hann vann þess vegna ýmsa vinnu svo sem við fiskverkun og mannvirkjagerð áður en hann fór í Reykjaskóla þar sem hann lauk lands- og gagnfræðaprófi vorið 1964, nítján ára gamall. Vegna aldurs og þroska var honum falið starf umsjónarmanns bekkjarins öll þrjú árin á Reykjaskóla en í því fólst ýmis ábyrgð, einkum síðasta árið þegar hann setti okkur skólafélagana til verka við dagleg þrif á skólahúsnæðinu. Þá þegar sýndi hann þá lipurð í samskiptum sem alla tíð einkenndu störf hans hvar sem hann kom. Hann var óumdeildur en sóttist ekki eftir mannvirðingum.
Bragi var verklaginn og ákvað strax á Reykjaskóla eða jafnvel fyrr að læra húsasmíðar og fara síðan í Tækniskólann og við það stóð hann. Í smíðanáminu starfaði hann við að byggja heimavistarhús við Reykjaskóla ásamt öðrum verkefnum. Á þeim árum kynntist hann konu sinni, Dóru Steinunni Jónasdóttur, sem var nemandi við skólann, og að tæknifræðináminu loknu fluttu þau fljótlega til Akureyrar þar sem voru að hefjast miklar framkvæmdir við að leggja hitaveitu í hús bæjarins. Hann var stofnandi og meðeigandi í Verkfræðistofu Norðurlands og starfaði þar lungann úr starfsævinni. Ég veit að hann var vandvirkur og samviskusamur starfsmaður og hann sagði mér nýlega að honum var gjarnan falið að lynda við ýmsa þvergirðinga meðal verktaka sem verkfræðistofan hafði eftirlit með og vann með.
Það var umfram allt Bragi sem hafði frumkvæði að því að styrkja vináttubönd okkar þegar á leið. Hann dró mig með sér í lax- og silungsveiði og kenndi mér til þeirra verka og um tíma lékum við saman knattspyrnu innanhúss að hans frumkvæði. Fyrir fáum árum dró hann mig með sér á bridsnámskeið og síðan höfum við spilað vikulega í húsnæði gamla fólksins yfir vetrartímann. Aldrei tókst honum þó – fremur en öðrum – að fá mig til að spila golf sem þau hjónin hafa stundað á seinni árum. Í þessum samskiptum okkar á rúmum 60 árum hef ég því verið þiggjandi, jafnvel þegar ég fékk hann nýlega í lið með mér við verkefni í þágu Eyjafjarðardeildar Rauða krossins þar sem reyndi á sérþekkingu hans sem tæknifræðings og smiðs.
Að leiðarlokum færi ég Dóru, sonum þeirra Braga og fjölskyldum innilegar samúðarkveðjur.
Meira á www.mbl.is/andlat.

Gunnar Frímannsson.

Bragi Sigurðsson hóf árið 1976 störf hjá Verkfræðistofu Norðurlands sem síðar sameinaðist Eflu verkfræðistofu og starfaði þar óslitið í 46 ár eða þar til fyrir einu og hálfu ári.
Í byrjun vann Bragi aðallega við hönnun dreifikerfis Hitaveitu Akureyrar sem hann sinnti af miklum áhuga og metnaði. Síðar fékkst hann einnig við hönnun bygginga og gatna. Á síðari árum vann hann mest við eftirlit og umsjón verka. Þar nutu mannkostir hans sín vel og naut hann trausts bæði verkkaupa og verktaka.
Bragi var hógvær maður og traustur en gat verið fastur fyrir þegar þess var þörf. Hann hafði góða nærveru og leitaðist við að leggja gott til mála. Óhætt er að segja að starfsferill hans hafi verið afar farsæll. Auk þess voru Bragi og Dóra samfélagi vinnustaðarins mjög mikilvæg.
Genginn er góður maður sem margir sakna.
Fyrir hönd starfsfólks Eflu, Norðurlandi, votta ég aðstandendum Braga innilega samúð.

Hjalti Már Bjarnason.